13. júl. 2009

Ást við stofuhita

Ég vil enga helvítis hráfæðisást! sagði ég við vinkonu mína meðan við vorum eins og svo oft áður að ræða lífið og tilveruna. Við vorum að ræða karlmenn sem eru svona “lukewarm”, sem er alveg óþolandi hitastig. Svona eins og bað sem þú ert búin að liggja í of lengi og er löngu hætt að hlýja þér en þú nennir ekki að koma þér upp úr. Það er nánast ekkert sem mér leiðist meira en áhugaleysi þegar kemur að samskiptum við hitt kynið. Hvort sem það er áhugaleysi af minni hálfu eða öfugt.

Nú geri ég mér grein fyrir því að tilfinningar breytast í tímans rás og maður er ekki alltaf með fiðrildi í maganum í ástríðufullum tangó, en það hlýtur samt að vera alltaf smá líf í glæðunum svona nóg til að kynda upp húsið (kannski komið nóg af myndlíkingum í bili). Í það minnsta finnst mér algjört skilyrði að það neisti vel í byrjun sambands og að báðir aðilar hafi einlægan áhuga á hinum aðilanum.

Ég átti einu sinni kærasta sem var svona hálfvolgur og það var alveg að gera mig vitlausa. Hann virtist ekki hafa neinn voðalegan áhuga á mér eða okkur sem pari. Hann virtist samt heldur ekki vera að leika "ég ætla að vera ógeðslega leiðinlegur svo að hún hætti með mér", alls ekki. Hann var alveg ágætlega indæll og kyssti mig ef ég bað hann um að kyssa mig og játti því þegar ég spurði hann hvort hann elskaði mig og svo framvegis. Ég náði þessu samt ekki alveg, ef hann var ekkert spenntur af hverju var hann þá að þessu? Viltu að við séum saman? spurði ég. Já já, alveg eins, var svarið. Verst auðvitað að mér var ekki sama. Illt er að leggja ást við þann sem enga kann á móti.

Nú er ég ekki að segja að fólk þurfi bókstaflega að vaða eld og brennistein fyrir hvort annað í “Ain’t no mountain high enough” fíling en ég held að fólk verði að vera tilbúið að leggja eitthvað á sig. Hafði á tilfinningunni stundum að þessi maður hefði ekki svo mikið sem stigið í poll. Þetta hefur kannski valdið því að ég á mjög erfitt með að hafa þolinmæði í svona “jú þú ert ágæt/ágætur” fíling. Svo geta auðvitað ástarsambönd þróast, fólk þarf að kynnast og auðvitað getur það tekið smá tíma að hitna í kolunum. En ég þegar allt kemur til alls vil ég ástina mína eldheita og grillaða í gegn.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú værir góð í SS grillauglýsingaherferðinni núna...."hún horfði á hann yfir grillið og vissi að hún vildi ástina sína heita og grillaða í gegn"

kv,
Hildur

Kristján sagði...

Frábær færsla og góð pæling.

Sammála Hildi, þetta væri góð herferð.

(Skárra en þegar verið er að manngera mat/drykk - ég missi alltaf lystina!)

ha ha: staðfestingarorðið hér að neðan er matin (grínlaust)

Sólrún sagði...

Ha ha já Hildur þetta er einmitt ferlega fyndin auglýsingaherferð. Og takk Jó, ég er annars sammála þér um að missa matarlyst við að matur og drykkur sé manngerður. Vorkenni alltaf honum þarna Dolla dropa eða hvað hann heitir litla mjólkurdropadúllan og get svo svarið að ég hætti að drekka mjólk eftir þá auglýsingu :) Ég missti mig aðeins í þessari bloggfærslu, var t.d. búin að skrifa töluvert ítarlegri lýsingu á samskiptum við umræddan kærasta sem var ritskoðuð. Var síðan búin að skrifa mjög langa lýsingu á matreiddri ást en fannst það síðan ógirnilegt og hálf subbó þegar ég var komin út í að tala um djúsí djúpsteikar tilfinningar svo tók það út :) En kannski er eldheitt one night stand svona eins og sveittur Hlölli... etv. efni í annað blogg :)

Nafnlaus sagði...

LOL!

Gefðu mér þá frekar góða steik þar sem ég hef aldrei verið mikið fyrir Hlölla :)

kv,
Hildur

Eydís sagði...

Hráfæðisást, haha snilld! Gæti btw ekki verið meira sammála þér, hundleið á "hlandvolgum" samskiptum við hitt kynið (svo ég bæti nú enn einni lýsingunni við), hvort sem áhugaleysið sé af minni hálfu eða öfugt.

Sólrún sagði...

Hæ Eydís :) já það er sko pissulykt af hlandvolgum tilfinningum, gott lýsingarorð!

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr !!!

Nafnlaus sagði...

Hahahahahahaa....

þvílík snilld Sólrún! :-)

Og svooo sammála, ég vil fiðrildi og eldheitar ástríður... forboðnar eldheitar ástríður...

kv/Soffía