27. jan. 2007

10.000

Ert þú gestur númer tíuþúsund? Verðlaun í boði! Hafðu samband!

solrun (at) gmail.com

Smá misskilningur


Í morgun sá ég mann vera á gangi með barnavagn. Hann horfði á barnið og talaði hrikalega hátt við það (ég var hinu megin við götuna) og á frekar einkennilegan hátt. Bara svona eins og hann væri að ræða við vin sinn um daginn og veginn. "Nú", hugsaði ég, "hann er einn af þeim sem trúa því að það eigi ekki að tala barnamál við börn".


Þangað til ég sá að hann var með handfrjálsan búnað í eyranu og var líklega í raun og veru að tala við vin sinn um daginn og veginn.


Í gær fékk ég líka tölvupóst þar sem ég var beðin um ráð varðandi hvað karlmaður gæti gefið kunningjakonu í afmælisgjöf. Hann var með einhverjar hugmyndir sem mér fannst alveg vonlausar og frekar barnalegar. Ég þóttist kannast við nafn afmælisbarnsins sem er um þrítugt og stakk upp á svona hefðbundum fullorðinsgjöfum, blómum, vínflösku, góðu kaffi, bók...


Heyrði síðan í honum í dag og spurði hvað hann hefði valið. Honum leist ágætlega á bókarhugmyndina en varð hálfundarlegur þegar ég fór að tala um hvort rauðvínsflaska væri ekki bara málið.


Enda kom í ljós seinna í samtalinu að umrætt afmælisbarn er dóttir vinkonu hans og er að verða þrettán ára... en ekki þrítug.

26. jan. 2007

Aftur til framtíðar


Er þessa dagana að rifja upp gömul kynni af Marty McFly og co, þökk sé litlu sis. Hann eldist bara vel strákurinn :)
Svo er það bara áfram Ísland!

23. jan. 2007

Bleikar nærbuxur

Nú á ég engar hvítar nærbuxur, þar sem þær fóru allar í þvott með dökkbleika lakinu mínu í gær. Ég er samt ekki frá því að þær séu bara flottari svona kandí-floss bleikar á litinn...

22. jan. 2007

Tæknivædd

Jæja þá er ég komin með rafrænt vegabréf og öryggislykil að heimabankanum. Finnst að KB banki ætti að ráða mig í vinnu fyrir ræðuna sem ég hélt áðan fyrir pabba um dásemdir heimabankans. Myndin í vegabréfinu er reyndar mjög ólík mér, var ekki alveg viðbúin þessari skyndimyndatöku hjá lögregluembættinu, er dauðhrædd um að þeir stoppi mig á JFK fyrir að reyna að villa á mér heimildir. Þarf að reyna að pósa með passasvipinn í speglinum svo ég geti sett hann upp þegar þar að kemur.

21. jan. 2007

Nostalgía


Fór á frumsýningu leikfélags MH á leikritinu Draugadans í Tjarnarbíói í gær. Ég skemmti mér bara ágætlega og sýningin var mjög vel gerð í alla staði, alveg frábært hjá krökkunum. Hins vegar er ég hrædd um að ég hafi misst af hálfri sýningunni því hugurinn var kominn ellefu ár aftur í tímann um leið og ég steig inn í Tjarnarbíó.

Í janúar 1996 var ég nefnilega á sama stað að frumsýna Animal Farm með leikfélagi MH. Þetta var margra mánaða ferli og rosaleg vinna og undirbúningur sem fór í þetta. Fyrir utan leikinn sjálfan voru það söngæfingarnar og dansæfingarnar og búningagerðin og ég veit ekki hvað og hvað. Ég lék kind, sagði eina eða tvær línur minnir mig, fyrir utan að hrópa í sífellu"fjórfætt gott, tvífætt vont" (sem breyttist síðan í "fjórfætt vont, tvífætt gott" eins og þeir sem þekkja söguna vita).

Svo var það frumsýningarpartýið og spennufallið og dansinn (man sérstaklega eftir Dancing Queen og Pulp Fiction tónlistinni) og ekki má gleyma daðrinu. Þetta var algjör hormónasuðupottur, um það bil þrjátíu unglingar saman allan sólarhringinn í öllum þessum trausts- og snertiæfingum (sem átti víst að heita hópefli). Ég var voða hrifin af einum hundinum, hann var hins vegar hrifin af hænu en sem betur fer var hún hrifin af svíni þannig að kindin fékk koss.

Margir (að minnsta kosti þrír) úr þessum hópi eru nú orðnir atvinnuleikarar og enn fleiri tengjast leikhúsi á einhvern hátt, dansarar, söngvarar, leika í auglýsingum og fleira. Fór að velta því fyrir mér í gær hvort ég hefði misst af köllun minni. Glæstum leikferli mínum lauk nefnilega með kindinni en þar áður tók ég þátt í fjölmörgum sýningum í grunnskóla og gaggó. Mér þykir þetta þó afar ólíklegt, enda kann ég hvorki að leika (lélegur lygari), dansa (kostulegur klaufi), né syngja (takmarkað tónsvið). Svo hef ég ekkert sérstaklega gaman af því að vera í sviðsljósinu heldur vill meira fá að "vera með". Spurning um að finna sér áhugaleikhóp og biðja um að fá að leika tré?

2. jan. 2007

Gamlársvídjó

Með kveðjum frá Doktor Heila...

1. jan. 2007

2007: Vonandi supercalifragilisticexpialidocious

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt gamalt og gott, já og vont bara líka :) Er búin að gera nokkra lista yfir það sem sem ég held að muni gerast á árinu, það sem ég held að muni ekki gerast og það sem ég vona að muni gerast á komandi ári. Alla ósiðina sem ég ætla að láta af og öll nýju áhugamálin sem ég ætla að taka upp. Aðallega ætla ég að borða minna og elska meira. Held samt að ég bíði með að gera upp árið 2006 og deila væntingum mínum til ársins 2007 með netheimum. Annars held ég að árið 2007 verði bara nokkuð áhugavert og muni hafa margar breytingar í för með sér. Sjáum hvað setur :)