27. jan. 2007

Smá misskilningur


Í morgun sá ég mann vera á gangi með barnavagn. Hann horfði á barnið og talaði hrikalega hátt við það (ég var hinu megin við götuna) og á frekar einkennilegan hátt. Bara svona eins og hann væri að ræða við vin sinn um daginn og veginn. "Nú", hugsaði ég, "hann er einn af þeim sem trúa því að það eigi ekki að tala barnamál við börn".


Þangað til ég sá að hann var með handfrjálsan búnað í eyranu og var líklega í raun og veru að tala við vin sinn um daginn og veginn.


Í gær fékk ég líka tölvupóst þar sem ég var beðin um ráð varðandi hvað karlmaður gæti gefið kunningjakonu í afmælisgjöf. Hann var með einhverjar hugmyndir sem mér fannst alveg vonlausar og frekar barnalegar. Ég þóttist kannast við nafn afmælisbarnsins sem er um þrítugt og stakk upp á svona hefðbundum fullorðinsgjöfum, blómum, vínflösku, góðu kaffi, bók...


Heyrði síðan í honum í dag og spurði hvað hann hefði valið. Honum leist ágætlega á bókarhugmyndina en varð hálfundarlegur þegar ég fór að tala um hvort rauðvínsflaska væri ekki bara málið.


Enda kom í ljós seinna í samtalinu að umrætt afmælisbarn er dóttir vinkonu hans og er að verða þrettán ára... en ekki þrítug.

1 ummæli:

Anonymous sagði...

Hello. And Bye.