21. jan. 2007

Nostalgía


Fór á frumsýningu leikfélags MH á leikritinu Draugadans í Tjarnarbíói í gær. Ég skemmti mér bara ágætlega og sýningin var mjög vel gerð í alla staði, alveg frábært hjá krökkunum. Hins vegar er ég hrædd um að ég hafi misst af hálfri sýningunni því hugurinn var kominn ellefu ár aftur í tímann um leið og ég steig inn í Tjarnarbíó.

Í janúar 1996 var ég nefnilega á sama stað að frumsýna Animal Farm með leikfélagi MH. Þetta var margra mánaða ferli og rosaleg vinna og undirbúningur sem fór í þetta. Fyrir utan leikinn sjálfan voru það söngæfingarnar og dansæfingarnar og búningagerðin og ég veit ekki hvað og hvað. Ég lék kind, sagði eina eða tvær línur minnir mig, fyrir utan að hrópa í sífellu"fjórfætt gott, tvífætt vont" (sem breyttist síðan í "fjórfætt vont, tvífætt gott" eins og þeir sem þekkja söguna vita).

Svo var það frumsýningarpartýið og spennufallið og dansinn (man sérstaklega eftir Dancing Queen og Pulp Fiction tónlistinni) og ekki má gleyma daðrinu. Þetta var algjör hormónasuðupottur, um það bil þrjátíu unglingar saman allan sólarhringinn í öllum þessum trausts- og snertiæfingum (sem átti víst að heita hópefli). Ég var voða hrifin af einum hundinum, hann var hins vegar hrifin af hænu en sem betur fer var hún hrifin af svíni þannig að kindin fékk koss.

Margir (að minnsta kosti þrír) úr þessum hópi eru nú orðnir atvinnuleikarar og enn fleiri tengjast leikhúsi á einhvern hátt, dansarar, söngvarar, leika í auglýsingum og fleira. Fór að velta því fyrir mér í gær hvort ég hefði misst af köllun minni. Glæstum leikferli mínum lauk nefnilega með kindinni en þar áður tók ég þátt í fjölmörgum sýningum í grunnskóla og gaggó. Mér þykir þetta þó afar ólíklegt, enda kann ég hvorki að leika (lélegur lygari), dansa (kostulegur klaufi), né syngja (takmarkað tónsvið). Svo hef ég ekkert sérstaklega gaman af því að vera í sviðsljósinu heldur vill meira fá að "vera með". Spurning um að finna sér áhugaleikhóp og biðja um að fá að leika tré?

Engin ummæli: