23. okt. 2003

Fyrsti kossinn...

...var fyrir nákvæmlega 10 árum síðan. Ég man að það var í Háskólabíó á Tom Cruise mynd og ég man að mér fannst það skrýtið. Mest af öllu man ég hvað ég var fegin. Ég hafði haft áhyggjur af því í tvö ár að enginn myndi nokkurn tíma vilja kyssa mig. Ég hafði ekki verið í æfingabúðum í kiss kiss-útaf eins og sumir bekkjarfélaga minna og var dauðhrædd um að ég myndi klúðra fyrsta tækifærinu. Ég leitaði ráða alls staðar. Eldri frænka mín sagðist hafa kysst strák í flöskustút og að þetta væri ekkert mál. Vinkona mín sagði mér að þetta væri eins og að borða tómat eða plómu. Ég borðaði ógrynni af tómötum og plómum í nokkra mánuði, geiflaði varirnar í stút fyrir framan spegilinn og reyndi að ímynda mér hvernig það væri að vera með tvær tungur í munninum. Mér fannst tilhugsunin pínulítið ógeðsleg - en spennandi engu að síður. Svo rann stóra stundin upp og það var ekki eins og að borða plómu en það var samt gott. Síðan komu böll og útilegur og menntaskóli og háskóli og fleiri strákar og fleiri kossar. Eins og einhver sagði, það eru 10 ár síðan og það var í gær. Því það er svo skrýtið að þótt mig langi núna í góða vinnu og doktorsnám og íbúð og parket - þá langar mig örugglega mest af öllu að einhvern langi til að kyssa mig.

14. okt. 2003

Hobbitinn er í burtu þannig að ég hef höllina út af fyrir mig. Nú er hægt að fara í bað með opna hurð, vaska upp annan hvern dag og vera á netinu allan daginn. Á móti kemur að ef mér myndi svelgjast á væri enginn til að bjarga mér.

Ég skil ekki spurninguna 'hvernig gengur atvinnuleitin?'. Ef hún gengi vel, væri ég komin með vinnu. En ég er ekki komin með vinnu þannig að það hlýtur að vera ljóst að hún gengur ekki nógu vel. Atvinnuleit gengur ekki vel fyrr en maður er ekki lengur atvinnulaus.

Ég er að fara að hitta mann í kvöld sem ég hef ekki séð í eitt og hálft ár. Þetta er til komið vegna desperasjónar minnar við að eignast vini í stórborginni. Ég og umræddur maður bjuggum saman í fjarlægu landi í nokkra mánuði. Hann lyktaði sérstaklega illa og bekkjarfélagar hans báðu mig um að athuga hvað hann færi oft í sturtu. Áreiðanlegar athuganir leiddu í ljós að baðfarir voru 7 í viku eða að meðaltali ein sturta á dag. Lyktin var þess vegna X-file keis og ég bíð spennt eftir að komast að því hvort hún hafi eitthvað lagast.

10. okt. 2003

Drengurinn stóðst prófið með prýði. Gaman að hafa þau í heimsókn fyrir utan hvað sófinn er óþægilegur.
Vinkona hobbitans sem kom um daginn - þessi hýpermaníska, kom reyndar aftur að gista, mun rólegri heldur en síðast. Enda fannst hasslyktin um allt hús - hefur líklega verið á einhverju örvandi síðast. Ég eiginlega vona að það hafi heldur ekki verið eðlileg hegðun. Hobbitinn spurði hvort við gætum ekki bara sofið saman í stofunni (ég og manían) svo að kærastan hans yrði ekki fúl. Ekki séns. Ég lét mig hverfa.

Já og svona bæ ðe vei... Ég er kannski að fara að eignast hlut í lýtalækningafyrirtæki. Hver veit nema maður komi heim stærri og stinnari á réttum stöðum um jólin ;)

6. okt. 2003

Ég hafna allri gagnrýni á stafsetningu minni á SS pulsum. Þið rúllupylsurnar getið notað hvaða orð sem ykkur sýnist um þessa dásamlegu kjötleðju í brauði en á mínu bloggi segi ég pulsur!

Hobbitinn málaði pappakassa og setti þá fyrir eldhúsgluggann því honum fannst alltaf eins og einhver væri að horfa á sig meðan hann vaskaði upp. Það sést nefnilega rétt svo inn í íbúðina við hliðina á gegnum eldhúsgluggann. En ekki lengur...

Bíð spennt eftir að litla sis og gæinn komi í heimsókn á miðvikudaginn. Ég hef aldrei hitt piltinn sem hún náði sér í (án þess að ráðfæra sig við mig... að láta sér detta það í hug) þannig að ég er að útbúa spurningalista fyrir hann - það verður stíft inntökupróf á miðvikudagsmorguninn áður en ég samþykki að leyfa þeim báðum að gista ;)

5. okt. 2003

David Gray er minn maður. Var að labba framhjá Tate Modern listasafninu í gær og stoppaði til að hlusta á ágætan trúbador sem söng skemmtileg coverlög. Hann byrjaði að syngja Babylon eftir Gray þegar David sjálfur labbar framhjá, ákveður að heilsa upp á trúbadorinnupp og fer að syngja lagið á meðan trúbbinn spilar á gítar! Söng Babylon svooo fallega og fólk varla trúði þessu, hvað þá trúbadorinn sjálfur sem var með stjörnur í augunum. Hann hljómaði svo frekar illa eftir þetta greyið og enginn nennti að hlusta á hann lengur. Semsagt, David Gray rúlar!

Gerði tvær (misheppnaðar) tilraunir til að elda í vikunni. Fyrst hrísgrjónagraut sem sauð upp úr og var of saltur (það átti víst að vera teskeið en ekki matskeið af salti). Ákvað að elda eitthvað einfaldara næst. Sauð þessar fínu SS pulsur í gær sem sprungu allar þvers og kruss og svo skar ég mig í puttann þegar ég var að skera laukinn. Ætla að reyna að elda Bachelor's bollasúpu næst og reyna að skaðbrenna mig ekki.

3. okt. 2003

Félagi Frodo öðru nafni Hobbitinn (hann er samt líkari Sam) sagði í gær að við ættum að íhuga að taka símann úr sambandi á nóttunni. Hann fengi nefnilega alltaf dularfull símtöl úr einhverjum tölvum. WHAT????
Við vorum samt hjónaleg í gær. Hann fór út með ruslið og ég vaskaði upp. Sætt.

Svo eru Bretar að gera mig geðveika þessa dagana. Það er allt vesen. Og það er allt 'fire hazard'. Bannað að standa í stiga. Bannað að setja fartölvur í samband á bókasöfnum.


En... ég er að fara að hitta Íslendinga eftir einn klukkutíma og tíu mínútur!

Eitt enn... hvaða bull er það að bloggið mitt hafi komið í Mogganum? Það eru engir fjölskyldumeðlimir á landinu til að fylgjast með frægð og frama frumburðarins þannig að vinir mínir verða að taka það að sér. Eru engar myndir af mér í Séð og Heyrt?

1. okt. 2003

Hobbitinn negldi símann minn við vegginn frammi á gangi í gær. Líklega til að koma í veg fyrir að ég gæti átt einkasamtal. Pósturinn, síminn... þetta er Living with a Lunatic: Part 2. Liggur við að ég sakni Sóðaperra. Hobbitinn er vinur vinur vinar Útlendingsins míns og ég stóð í þeirri trú að vinur Útlendingsins sem ég þekki, þekkti vin vinar síns en svo kom í ljós um síðustu helgi að hann þekkir hann ekki neitt. Skiljiði? Í þessari íbúð eru heldur engir lásar á hurðunum...

Fékk furðulegt símtal í fyrradag. Vona að það hafi verið símaat. Símtal frá einhverjum kalli sem sagði að ég hefði verið að hringja í hann og varð alveg brjálaður þegar ég sagði að þetta hlyti að vera einhver misskilningur (og baðst afsökunar, svona ef þetta skyldi vera rétt). Hann varð alltaf æstari og æstari og þá fór ég bara að hlæja, hann fór þá að tala spænsku inn á milli, kallaði með senjorítu og var með hótanir. Sagðist vera læknir (I´m a doctor so don´t mess with me???) og ætla að hringja í lögfræðinginn sinn. Ég skellti á á endanum en mikið svakalega vona ég að þetta hafi verið einhver sem ég þekki að fíflast.