23. okt. 2003

Fyrsti kossinn...

...var fyrir nákvæmlega 10 árum síðan. Ég man að það var í Háskólabíó á Tom Cruise mynd og ég man að mér fannst það skrýtið. Mest af öllu man ég hvað ég var fegin. Ég hafði haft áhyggjur af því í tvö ár að enginn myndi nokkurn tíma vilja kyssa mig. Ég hafði ekki verið í æfingabúðum í kiss kiss-útaf eins og sumir bekkjarfélaga minna og var dauðhrædd um að ég myndi klúðra fyrsta tækifærinu. Ég leitaði ráða alls staðar. Eldri frænka mín sagðist hafa kysst strák í flöskustút og að þetta væri ekkert mál. Vinkona mín sagði mér að þetta væri eins og að borða tómat eða plómu. Ég borðaði ógrynni af tómötum og plómum í nokkra mánuði, geiflaði varirnar í stút fyrir framan spegilinn og reyndi að ímynda mér hvernig það væri að vera með tvær tungur í munninum. Mér fannst tilhugsunin pínulítið ógeðsleg - en spennandi engu að síður. Svo rann stóra stundin upp og það var ekki eins og að borða plómu en það var samt gott. Síðan komu böll og útilegur og menntaskóli og háskóli og fleiri strákar og fleiri kossar. Eins og einhver sagði, það eru 10 ár síðan og það var í gær. Því það er svo skrýtið að þótt mig langi núna í góða vinnu og doktorsnám og íbúð og parket - þá langar mig örugglega mest af öllu að einhvern langi til að kyssa mig.

Engin ummæli: