3. des. 2007

Fór í Blómaval áðan og sá mann sem ég hef verið að hitta nokkuð reglulega síðastliðin 15 ár eða svo. Faldi mig fyrir honum því ég hef ekki hitt hann í smá tíma. Er nefnilega komin með annan sem ég kann eiginlega betur við en þori ekki að segja hinum upp. Eiginlega alveg merkilegt að sambandið hafi enst þetta lengi, hann hefur svosem verið valdur að töluverðum sársauka, óþægindum og peningaplokki í mínu lífi. Þessi nýji hefur nú líka sært mig en hann hefur líka einkar gott lag á því að lina þjáningar mínar. Þeir eru reyndar hvorugir við eina fjölina felldir þannig að það er kannski ekkert vitlaust að vera með tvo í takinu. Ætti kannski ekkert að vera með samviskubit yfir því að vera að halda framhjá tannlækninum mínum.

2. des. 2007

Fyrsti í aðventu

Búin að kveikja á kerti og setja jólatónlistina inn á iPodinn. Kúri í sófanum undir prjónaða marglita IKEA teppinu mínu (líklega bestu kaup sem ég hef gert um ævina). Með bók í annarri, vantar bara malt og appelsín í hina. Svona á aðventan að vera.