7. maí 2007

Beibís...

Ég sit núna á kaffihúsi og það er lítið barn á næsta borði sem er að gera mig gjörsamlega brjálaða. Já ég veit að lítil börn eru sætust í heimi og allt það. En þetta barn er með dót sem spilar lag. Leiðinlega, glymjandi, háværa melodíu þegar dótið er hrist. Og dótið er mikið hrist. Og lagið er mikið spilað. Aftur og aftur og ATFTUR. Arg! Svo hlær barnið og allir brosa bara á móti og enginn segir neitt við mömmuna. Oh nú er það að horfa á mig. Veit að ég er að skrifa um það. Ok þetta er pínu sætt barn. En bara pínu. Nú er það farið að stara. Jæja þá, þetta er voða sætt barn.

Stundum held ég að mæðrum finnist konur skiptast í tvo hópa. Mæður og ekki mæður. Samkvæmt mæðrunum geta ekki-mæðurnar ekki haft skoðun á nokkrum sköpuðum hlut þegar kemur að börnum eða barnauppeldi. Þannig að mæður eiga eftir að láta þessa færslu sem vind um eyru þjóta og segja að þetta breytist allt ef og þegar ég muni eignast börn. So be it.

5. maí 2007

Gleði gleði gleði, gleði líf mitt er...

Suma daga er maður alveg miður sín, af því að er virðist engri ástæðu. En suma daga er maður alveg syngjandi glaður, að því að er virðist engri ástæðu! Það er góður dagur í dag :)

3. maí 2007

Deiling

Mér finnst gaman að deila, ekki við heldur með, sérstaklega þeim sem mér þykir vænt um. Mér finnst raunar gaman að deila flestu nema súkkulaði, nema með þeim sem mér þykir mjög vænt um :) Mér finnst heldur ekkert sérstaklega gaman að deila í tölur. En það er efni í annað blogg.

Það er hægt að deila ýmsu með öðru fólki, bæði efnislegu og óefnislegu. Stundum deilir maður hugsunum um sínar innstu þrár og leyndardóma. Stundum deilir maður ómerkilegum staðreyndum. Stundum deilir maður augnablikum.

Ég var að vinna lengi í Sumarhöllinni í nótt við að slá inn gögn. Hafði verið frekar eirðarlaus um daginn en ágætlega einbeitt þegar leið á kvöldið þannig að ákvað að nýta tímann.

Á leiðinni heim sá ég glitta í tunglið. Sem var allt í einu ekki venjulegt tungl. Það var svo ótrúlega fallegt og sérstakt, gyllt á litinn og risastórt. Glóandi hnöttur sem leit út fyrir að vera að falla beint ofan í fangið á mér.

Ég fór heim og út á svalir og starði stórum augum þegjandi á tunglið í langan tíma. Alveg þangað til það fór aftur bak við ský. Reyndi að taka myndir en tókst ekki að fanga sjónina á neinn hátt, hvað þá tilfinninguna.

Þótt flestum finnist kannski það að sjá tunglið ómerkilegt og hversdagslegt þá langaði mig svo að deila þessu með einhverjum. Hlaupa inn í rúm, vekja einhvern og segja: Sjáðu hvað tunglið er fallegt í kvöld.

Ég hefði kannski getað hringt í einhvern. En hver kann að meta að láta hringja í sig um miðja nótt í miðri viku til að láta segja sér hvað tunglið er fallegt? Ég á reyndar yndislega vini þannig að þeir myndu líklega fyrirgefa mér það. En ég ákvað samt sem áður að sleppa því - svona til að þeir missi ekki alveg trú á mér sem tilvonandi sálfræðingi...

Systir mín frábæra skrifaði einu sinni pælingu um kosti og galla þess að búa einn. Mér finnst versti ókosturinn vera sá að það er enginn til að deila með þessum ómerkilegu en samt merkilegu augnablikum.

Á móti kemur að það er meira súkkulaði fyrir mig eina :)

1. maí 2007

Kósíheit í kofanum

Harpa bloggar um Sumarhöllina sem er líka annað heimili mitt þessa dagana.

Sumarhöllin er kofi á bílastæði á horninu á Hjarðarhaga og Suðurgötu en leigubílstjórar og pizzasendlar eiga samt í stökustu vandræðum með að finna hann. En af því að ég eyði, grínlaust, yfirleitt minnst 12 tímum á dag hérna er ég búin að reyna að gera heimilislegt. Er að átta mig á því að ég hef kannski gengið aðeins of langt í því. Stelpurnar sem deila með mér herbergi gera að minnsta kosti mikið grín að þessu. Ég er með til umráða tvo fermetra þar sem eru fyrir skrifborð og stóll. Á þessu svæði er ég með í augnablikinu:

Tvo lampa (einn skrifborðs og einn með rauðu ljósi), græna ljósaseríu, nuddtæki, væmna bangsamynd í ramma, kort af heiminum, vasa með gerviblómum, tvo seríóspakka, eggjaklukku, Fréttablaðið, Blaðið, 26 hljómsveitarpóstkort, sparibol, módel af heila, geisladiska, dagbók, sjal, kerti, bolla, bollasúpupakka, þrjár gerðir af tei, bodyspray, bingókúlur, eyrnatappa, tvo USB lykla, strepsils, skæri, yddara, gatara, pennaveski, bókamerki, garfield límmiða, tissjúpakka, síma, tösku með sunddóti, tvo poka fulla af tómum flöskum, poka með kexi, djús, sódavatni og vítamínum, inniskó, gólfmottu, tvær möppur fullar af greinum, skólatösku, aukaskó, flísteppi, epli, appelsínu, líter af af pepsi max, bjór, plastglas og glerglas, síma, plakat af John Travolta, plakat af Jim Morrison, plakat af ljótum kalli með súkkulaði fyrir typpinu, kennaratyggjó, venjulegt tyggjó, eyrnalokk (hinn týndist), þrjár krónur, penna, fullt af lausum blöðum, síma og tölvu.

Þetta er fyrir utan það sem ég er með í hillunum (bækur, Magic birgðir, plastglös/diska, jóladót ofl.) og í ísskápnum.

Ef ég væri með rúm og tannbursta gæti ég búið hérna.