3. maí 2007

Deiling

Mér finnst gaman að deila, ekki við heldur með, sérstaklega þeim sem mér þykir vænt um. Mér finnst raunar gaman að deila flestu nema súkkulaði, nema með þeim sem mér þykir mjög vænt um :) Mér finnst heldur ekkert sérstaklega gaman að deila í tölur. En það er efni í annað blogg.

Það er hægt að deila ýmsu með öðru fólki, bæði efnislegu og óefnislegu. Stundum deilir maður hugsunum um sínar innstu þrár og leyndardóma. Stundum deilir maður ómerkilegum staðreyndum. Stundum deilir maður augnablikum.

Ég var að vinna lengi í Sumarhöllinni í nótt við að slá inn gögn. Hafði verið frekar eirðarlaus um daginn en ágætlega einbeitt þegar leið á kvöldið þannig að ákvað að nýta tímann.

Á leiðinni heim sá ég glitta í tunglið. Sem var allt í einu ekki venjulegt tungl. Það var svo ótrúlega fallegt og sérstakt, gyllt á litinn og risastórt. Glóandi hnöttur sem leit út fyrir að vera að falla beint ofan í fangið á mér.

Ég fór heim og út á svalir og starði stórum augum þegjandi á tunglið í langan tíma. Alveg þangað til það fór aftur bak við ský. Reyndi að taka myndir en tókst ekki að fanga sjónina á neinn hátt, hvað þá tilfinninguna.

Þótt flestum finnist kannski það að sjá tunglið ómerkilegt og hversdagslegt þá langaði mig svo að deila þessu með einhverjum. Hlaupa inn í rúm, vekja einhvern og segja: Sjáðu hvað tunglið er fallegt í kvöld.

Ég hefði kannski getað hringt í einhvern. En hver kann að meta að láta hringja í sig um miðja nótt í miðri viku til að láta segja sér hvað tunglið er fallegt? Ég á reyndar yndislega vini þannig að þeir myndu líklega fyrirgefa mér það. En ég ákvað samt sem áður að sleppa því - svona til að þeir missi ekki alveg trú á mér sem tilvonandi sálfræðingi...

Systir mín frábæra skrifaði einu sinni pælingu um kosti og galla þess að búa einn. Mér finnst versti ókosturinn vera sá að það er enginn til að deila með þessum ómerkilegu en samt merkilegu augnablikum.

Á móti kemur að það er meira súkkulaði fyrir mig eina :)

Engin ummæli: