27. feb. 2009

Buxur, bætur, bollur og búningar

Venjulegar buxur heita á dönsku bara bukser. Svo eru til underbukser og overbukser. Mjög einfalt. Við notum orðið nærbuxur (sem mér finnst dálítið töff orð) en svo nota margir um ytri buxur orðið (eða orðleysuna) utanyfirbuxur. Af hverju heita þær ekki bara...fjærbuxur?

Ef þetta er það eina sem ég get bloggað um þá er spurning um að hafa bloggin kannski færri og innihaldsríkari...

Emm há (eða svona næstum því, ein Verslómær) stelpukvöld í gær þar sem við kjöftuðum fram yfir miðnætti. Umræðuefnin voru alvarlegri heldur en oft áður, en samt slúðrað og hlegið í bland við spjall um verðbætur, atvinnuleysisbætur, íbúðalán, námslán, krabbamein, ör og fæðingarbletti. Drög voru lögð að undirbúningi árshátíðar þar sem verður valið nafn á hópinn úr innsendum hugmyndum og skipað í nefndir. Tek það fram að við erum sex talsins.

Sleppti því að halda upp á öskudaginn en hélt á móti tvisvar upp á bolludaginn, bakaði aftur brauðbollur í kvöld, að þessu sinni hvítlauksbollur (átti akkúrat í aðra uppskrift síðan á sunnudaginn). Hefði samt alveg viljað fara í búning enda á ég margar skemmtilegar minningar af öskudeginum forðum daga. Ég átti (og á) frábæra frænku sem kunni leikhúsförðun og það urðu til ótrúlega flott gervi í hennar höndum. Stundum bjó hún til heitt ógeðisgums sem var hægt að nota í flakandi sár, skurði, vörtur og ýmis önnur líkamslýti. Var til dæmis brjálæðislega flottur uppvakningur þegar ég var 10 ára, með orma að skríða út úr auga sem var komið á hlið. Á unglingsárunum var þetta hins vegar erfiðara. Fannst ógeðisförðunin ennþá kúl en vildi samt vera sæt (prinsessa, engill, kisa). Man ekki hverjum datt lausnin í hug en það endaði að minnsta kosti með því að ég fór á grímuball sem svaka sixties pæja með túberað hár í veggfóðurskjól... en með brunasár yfir helminginn af andliti og líkama :)

26. feb. 2009

Hann er bara ekki nógu skotinn í þér

Fór í bíó í gær með Blöðrunni og fleirum á stelpumyndina He's just not that into you, ég held að það hafi verið þrír strákar þarna í fullum sal af kvenfólki og röðin á salernið í hléinu var eftir því. Ég var ekkert rosalega ánægð með myndina af því að mér fannst hún að mörgu leyti senda vafasöm skilaboð en vil ekki ræða það frekar hér af tillitsemi við þá sem hafa ekki séð myndina og hafa hugsað sér að gera það. En þetta var samt ágætis skemmtun.

Myndin er byggð (mjög) lauslega á samnefndri bók sem ég keypti á Kastrup flugvelli og man að ég var að reyna að fela hvað ég var að lesa í fluginu því fólkið við hliðina á mér var að lesa og ræða verðlaunabækur eftir nóbelsskáld. Hvað um það, mér þótti semsagt bókin fyndin og skemmtileg og hafa nokkuð til síns máls. Ég sjálf og vinkonur mínar höfum oft dottið í þessa gryfju að koma með endalausar afsakanir fyrir því sem er eftir á að hyggja augljóslega bara áhugaleysi af hálfu hins aðilans.

Hann er svo upptekinn í vinnunni að hann hefur ekki tíma til að hafa samband.
Hann er atvinnulaus og svo þunglyndur að hann er of þreyttur til að hafa samband.
Hann er alltaf á ferðinni svo það er svo erfitt að ná tali af honum.
Hann er rúmliggjandi með hita og óráði og getur ekki talað í símann.
Hann er með bráðsmitandi sjúkdóm og getur ekki hitt mig.
Hann sinnir svo mörgum tómstundum/félagsstörfum að við verðum að hittast þegar hægir um.
Hann er í útlöndum og er ekki í símasambandi, hann hefur samband þegar hann kemur aftur.
Hann er í tilfinningakreppu og þarf að læra að elska sjálfan sig áður en hann getur elskað aðra.
Hann býr í nýja hverfinu í Hafnarfirði og þar er svo lélegt símasamband.
Hann er mjög óhamingjusamur en alveg að fara að hætta með konunni sinni, hann þarf bara meiri tíma.
Hann er nýhættur með konunni sinni en er að ganga frá lausum endum, hann þarf bara meiri tíma.
Hann hefur verið særður í fyrri samböndum og óttast því skuldbindingu.
Hann hefur enga reynslu af samböndum og óttast því skuldbindingu.
Hann er undir svo miklu álagi núna.
Hann týndi símanúmerinu mínu.
Hann missti minnið.
Hann var brottnuminn af geimverum.

Tökum eina persónulega dæmisögu í lokin (örlítið breytt útgáfa og skáldaleyfi, eins og má). Ég lenti einu sinni í því á deiti að heyra eftirfarandi orð: "Ég legg af stað í margra mánaða heimsreisu á morgun svo við skulum njóta kvöldsins í kvöld. Ég vil ekki leggja neina skuldbindingu á þig meðan ég er í burtu en hef samband þegar ég kem aftur".

Þetta hefði kannski átt að hringja einhverjum bjöllum en mér fannst þetta ótrúlega rómantískt og ekki síður þegar ég fékk símtal nokkrum dögum seinna: "Ég er á toppi Eiffel turnsins, sólin er að setjast og mér varð hugsað til þín". Nema hvað, svo líður og bíður og ekkert heyrist í gæjanum. Sendi honum nokkur skilaboð og langan tölvupóst án þess að fá svar. Fékk síðan óljóst sms um að hann hefði ekki haft samband við neinn því að hann væri í tilvistarkreppu og þyrfti tíma til að finna sjálfan sig. Ég hafði smá áhyggjur af honum og hélt áfram að reyna að ná í hann en ekkert gekk. Stuttu seinna hitti ég sameiginlega vinkonu okkar á förnum vegi og spyr hana frétta af drengnum, átti satt best að segja allt eins von á því að heyra hann væri kominn í þagnarbindindi í munkaklaustri og fannst það eiginlega besta skýringin á því að hann hefði ekki haft samband við mig. Hann segir allt fínt, sagði hún, ég hitti hann einmitt í gær. Heimsreisan (sem átti að standa töluvert mikið lengur en þegar þarna er komið við sögu) hafði þá tekið enda fyrir nokkru, án þess að ég hafði hugmynd um. Stuttu síðar sé ég myndir af honum á netinu með nýju kærustunni (einmitt við helv. Eiffelturninn).

Fyrir utan reiði, pirring og einhver óljós særindi leið mér mest bara ótrúlega kjánalega. Þarna hefði til dæmis verið gott að sleppa nokkrum vikum og mánuðum af vangaveltum og afkáralegum skýringum á hegðun - og horfast í augu við að hann var bara ekki nógu hrifinn ef mér. Kannski vont að heyra þetta svona fyrst en svo er það bara léttir að hætta þessari tímasóun og hægt að halda áfram með ástarsmjörið. Eftir að ég las bókina hefur þetta skilyrði nefnilega færst mun ofar á "hvað kanntu best að meta í fari karlmanna" listanum (maður ætti nú kannski að birta þann lista við tækifæri). Það er að segja, að þeir séu meira en nógu skotnir í mér.

25. feb. 2009

100 kvikmyndir

Úr því að hljómsveitaleikurinn hér að neðan vakti svona mikla lukku birti ég nú svipaðan kvikmyndaleik. Hann er reyndar að mínu mati ekki jafn skemmtilegur enda myndin ekki jafn flott. En það á semsagt að vera hægt að sjá hundrað kvikmyndatitla út úr þessari mynd.

Eniga meniga

Þar sem ég borga eiginlega allt með kortinu er kreditkortareikningurinn ágætis yfirlit yfir það sem ég hef gert í hverjum mánuði. Síðan ég var síðast í námi hef ég lært að taka þessum gluggapósti fagnandi þar sem það voru tvö ár (haust 2005-haust 2007) þar sem umræddur reikningur var afar dapur - næstum eingöngu bara færslur frá Björnsbakarí við Dunhaga (rétt hjá þar sem ófáum dögum/nóttum/helgum var eytt í lærdóm), okurbúllunni 10-11 og svo Bóksölu stúdenta. Nú reyni ég að fara yfir reikninginn með það í huga að gleðjast yfir því að ég hafi haft tíma og pening til að að fara kannski á kaffihús, í bíó eða gert eitthvað annað skemmtilegt.

Hef samt eitthvað aðeins misreiknað mig á kortatímabilum þar sem reikningurinn sem kom inn um lúguna í dag innihélt bæði árskortið í líkamsrækt (hef farið einu sinni só far en ég meina hey, það gildir til janúar 2010!) og þriggjamánaða strætókortið (rúmlega fimmtíu þúsund en ég get farið hvert sem leið liggur upp í Borgarnes og á Selfoss). Sá síðan í netbankanum að það er komið að fastri námslánaafborgun sem er núna komin upp í um hundraðþúsundkall. Á meðan ég dæsti yfir þessu beit ég í hart og braut upp úr tönn þannig að það er kominn tími á tannlæknaviðgerðir.

Ég ætla ekki að kvarta undan fjármálum enda mjög óviðeigandi miðað við hvað margir eru að ganga í gegnum. Það er hins vegar nokkuð ljóst að íbúðakaup á næstunni eru ólíkleg og að það er að slitna upp úr vinskapnum milli okkar Vísu skvísu.

24. feb. 2009

Leiðrétting

Það vantaði víst aðeins í annan endann á hina myndina, nú sé ég að minnsta kosti Pet Shop Boys.

72 hljómsveitir

Eftir pastaát á Ítalíu með skemmtilegu fólki var tómstundagaman kvöldsins að finna eins margar hljómsveitir/tónlistarmenn og hægt var út úr þessari mynd. Það eiga víst að vera yfir sjötíu en ég kemst hvergi nálægt þeirri tölu. En þetta er samt ótrúlega skemmtilegt :)

22. feb. 2009

Helgaruppgjör

Laugardagurinn hófst á hádegismat í Garðinum á Klapparstíg með vinkonu minni þar sem við fengum grænan og góðan hádegisverð á kreppuvænu verði. Við ræddum hvort það væri gott viðmið að samþykkja bara vinabeiðnir á feisbúkk frá þeim sem maður héldi að myndu mæta í jarðarförina til manns... og síðan hvort það væri ekki betra viðmið að eiga bara vini sem maður myndi sjálfur mæta í jarðarför til, þar sem það getur verið erfitt að segja til um hug annarra í þessum málum. Þá hófust umræður um hvenær er viðeigandi að mæta í jarðarfarir og hvenær ekki en á þessu stigi máls voru aðrir gestir litla kaffihússins farnir að líta okkur hornauga og orðið undarlega hljótt á hinum borðunum.

Laugardagskvöldinu var svo eytt að mestu leyti í stofunni hjá Kormáki og Skildi í góðum félagsskap. Okkur til háborinnar skammar voru allir viðstaddir karlmenn hlutgerðir með vali á bestu bitunum úr kjötborðinu í Topp Fimm leiknum.

Fór í sunnudagssund og naut þess að láta fara vel um mig í heita pottinum, þótt endalausa parakeleríið væri farið að trufla mig svolítið undir lokin. Annars heyrði ég sanna sögu af frá vini mínum, þar sem var farið að hitna í kolunum hjá ungu pari sundkeleríi. Þetta var leyndur draumur hjá þeim að ganga alla leið í sundi svo þau fundu sér afvikinn og mannlausan stað í sudlauginni og gengu úr skugga um að engar myndavélar sæju til þeirra. Nema hvað, það vildi þannig til að þetta var sundlaug með áfastri líkamsræktarstöð - og það var heill spinning hópur sem fylgdist með á hjólunum gegnum skyggt gler. Ástfangna parið fékk semsagt aaaðeins fleiri áhorfendur en til stóð.

Síðan var það tilraunabakstur í tilefni bolludagsins á morgun þar sem ég blandaði saman nokkrum uppskriftum að brauðbollum. Bakaði bollur með kotasælu, gráðosti, valhnetukjörnum og fræblöndu og varð ótrúlega stolt þegar þær heppnuðust og voru bara mjög góðar á bragðið. Hef ekki bakað bollur (að minnsta kosti ekki ein) síðan í heimilisfræði í 12 ára bekk að ég held. Velti því nú fyrir mér hvort ég sé ekki jafn misheppnuð í matargerð og ég hef talið mér trú um.

20. feb. 2009

Gullnu skærin

Pöbb kvissið með vinnunni skemmtilegt að vanda og alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Til dæmis veit ég nú sem ég vissi ekki í gær að ÍBK urðu síðast meistarar í knattspyrnu karla árið 1973 og að Nýsjálendingar eru heimsmeistarar í sauðfjárrúningi (þeir unnu víst Gullskærin á heimsmeistaramótinu í Noregi nú i október síðastliðnum). Átti síðan gott spjall við pabba á meðan við fengum okkur að borða á Salatbarnum. Ein af merkilegri uppgötvun fullorðinsáranna hefur verið að komast að því að foreldrar mínir eru líka skemmtilegt fólk. Fleiri merkilegar uppgötvanir síðustu 15 árin eru að kaffi er ekki vont, Rás tvö er ekki leiðinleg og að það er allt í lagi að horfa á fréttir og lesa annað en myndasögurnar í dagblöðunum. Já og að mamma hefur ótrúlega oft rétt fyrir sér. Úff hvað ég held að dagbókarritarinn forðum daga hefði orðið hissa á mér að segja þetta :)

Ætla að fara að lesa og sofa, virðist ekki geta farið að sofa fyrir klukkan eitt nema helst á föstudagskvöldum. Verð svo eldhress á morgun (humm, vona það að minnsta kosti) því það er svo margt sem mig langar að gera.
Óver and out.

19. feb. 2009

Molar

Vinkona mín bauð mér á sinfó tónleika í kvöld sem var mjög gaman, hef ekki farið í mörg ár. Kannaðist við bara nokkuð marga, þar af þrjá MH kennara sem mér fannst áhugavert í ljósi þess að ég hélt að það væri árshátíð hjá þeim í kvöld...

Svaf ekki í strætó í dag eins og ég geri venjulega, heldur fylgdist með fólkinu sem var bara nokkuð skemmtilegt. Þarna voru meðal annars trúboðar sem settust hjá fólki og ræddu við það. Löng strætóferð og engin undankomuleið :) Þetta virtust afskaplega ljúfir drengir, ég talaði reyndar ekki við þá sjálf en fylgdist með viðbrögðum fólks við þeim.

Pöbb quiz á morgun hjá vinnunni. Þarf að fara að lesa mér til um sögu Keflavíkur, er nokkuð viss um að spyrillinn komi með eitthvað úr sínum heimabæ.

Sakna litlu frænku minnar sem stækkar og stækkar í öðru landi án þess að ég fái nokkuð við það ráðið. Hún er orðin svo dugleg að skilja það sem er sagt við hana og gera sig skiljanlega. Þetta fullorðna fólk getur samt örugglega verið svolítið ruglandi. Vorum að tala við hana gegnum webcam um daginn og spyrja "Hvar er"... þetta og hitt. Spurðum svo "Hvar er Eyrún?" (hún heitir Eyrún) og hún togaði í eyrun á sér. Með öll skynfærin á hreinu.

Power napping virðist ekki virka nema maður fái nokkuð samfelldan svefn inn á milli. Hefði getað sagt mér þetta sjálf svosem. Ég virðist vera dottin í afar einkennilega svefnrútínu.

Ég er fegin að þekkja fólk sem talar um eitthvað annað en peninga og pólitík. Er nú að tala við vin minn á msn sem er að segja mér að sig langi til að vera albínói og láta dáleiða sig. Ekki dáleiddur sem albínói samt.

Mig langar allt í einu núna í sund. Það er gert ráð fyrir því að fólk langi til að versla í Hagkaup á öllum tímum sólarhringsins. Af hverju er ekki gert ráð fyrir því að fólki gæti langað í nætursund? Ætli maður fari þá ekki bara og svamli aðeins um í baðkarinu. Get farið í sundbol og hellt smá klór útí.

18. feb. 2009

Mínus og plús

Ég mæli ekki með
...að bera á sig brúnkukrem í flýti áður en maður fer að sofa. Ástæðan ætti að vera nokkuð augljós.
...að setja iPodinn á shuffle þegar þriðjungur laganna eru jólalög, amk ekki í öðrum mánuðum en desember.
...að fá svo margar bækur lánaðar á bókasafninu að þú kemst aldrei yfir að lesa þær og endar með því að borga sekt... (þetta kemur fyrir mig aftur... og aftur.... og aftur).

Ég mæli hins vegar með
...að frysta vínber, fáránlega gott á bragðið miðað við hollustu. Líka að skera appelsínur í tvennt og frysta og skafa síðan innan úr þeim með skeið. Uppáhaldseftirrétturinn minn einu sinni.
...að fara í geitamjólkurfreyðiböð. Ekki bókstaflega auðvitað, þetta er geitaþurrmjólk blandað saman við sápu í brúsa. En afar unaðslegt.
...að byrja að blogga aftur eftir hlé! Tjáningarþörfin lætur kræla á sér aftur.

Kæra dagbók

Ég hélt dagbók svona öðru hvoru á unglingsárunum og á tvær þéttskrifaðar bækur sem ég velkist ennþá í vafa um hvort ég eigi að geyma eða brenna. Hélt alltaf að ég myndi vilja sýna einhverjum þetta þegar ég yrði eldri og þetta væri skemmtileg heimild, en langflestar færslurnar eru pínlega persónulegar og ég roðna og blána þegar ég les það sem ég skrifaði þótt það séu komin rúm 10 ár frá síðustu færslu. Það er ekki mikið skrifað um stað og stund heldur er þetta endalaust tilfinningadrama og flækjur unglingsstúlku - sem gæti vissulega verið skemmtilegt en ég fæ ennþá hnút í magann þegar ég les þetta. Þarf kannski að gefa þessu svona 20 ár í viðbót þangað til ég fer að hlæja að þessu.

Mér var á tímabili líka mikið í mun að ég, sem fullorðin, myndi muna eftir því hvernig það var að vera unglingur. Ég sendi líka sjálfri mér skilaboð og ítreka það í dagbókina að ég ætti ekki að byrja að reykja til dæmis, sem ég hef vissulega staðið við. Ég held reyndar að ég muni það (að minnsta kosti ennþá) ágætlega hvernig það var að vera unglingur og tel mig hafa varðveitt barnið í sjálfri mér bara nokkuð vel (stundum allt of vel).

Hér kemur smá pínlegt brot úr dagbókinni, 16. janúar 1993. Nöfnum hefur verið breytt :)

"Kæra dagbók. Er hægt að vera svo hrifin af einhverjum að maður verði alveg stjarfur þegar maður sér einhvern með sömu hárgreiðslu og hann? Auðvitað er ég að meina X. Ég er samt ekki ástfangin ef þú heldur það, ég verð að kynnast honum betur... Ég vorkenni svo A, kærustunni hans B sem er með mér í skóla. A er nefnilega hrifinn af C sem er góð vinkona A og C er örlítið hrifin af B en hún vill auðvitað ekki særa A. B er alltaf utan í öðrum stelpum og A gerir bara ekki neitt. Annað hvort vill hún ekki missa B sem er ógeðslega ljótur (mín persónulega skoðun), eða hún veit að hún er ekki nógu sæt til að byrja með neinum öðrum. Æ ég get ekkert sagt, ég hef ekki byrjað með strák, hvað þá farið í sleik. Ekki svo að mig langi ekki til þess. Strákarnir eru annað hvort of feimnir eða ég of ljót. Nema Y. Hann settist hjá mér á ballinu og fór að tala við mig. Það var æði. En ég vildi að ég þekkti X meira..."

Sakna þess stundum að vera unglingur því mér finnst þeir svo skemmtilegir upp til hópa, en er á hinn bóginn dauðfegin að þetta tímabil sé búið. Verð samt að segja að stundum finnst mér fullorðinsárin ekkert vera minni tilfinningarússíbani. Það er kannski ekki jafn mikið drama dags daglega og maður er sem betur fer ekki jafn yfirborðskenndur. En þrátt fyrir fullorðinsstreituvalda eins og skúringar og skattaskýrslur eru áhyggjurnar af því að vera ekki nógu sæt og að enginn sé skotinn í manni ekki langt undan...

16. feb. 2009

Uppvask

Ég mætti, eins og sumir, vera duglegri að vaska upp, en þegar ég kem mér í það finnst mér það ekkert leiðinlegt. Finnst þetta oft bara kósý ef ég þarf ekki að flýta mér á síðustu stundu áður en það koma gestir. Ég á pæjulega uppþvottahanska, vellyktandi fljótandi sápu og hlusta á tónlist á meðan ég dunda mér við þetta. Á tímabili gerði ég þetta við kertaljós en komst að því að leirtauið varð ekki alveg jafn hreint...

Nema hvað að um daginn lenti ég í því að allt sem ég vaskaði upp var útatað í svörtum klessum. Ég skildi ekki hvað það var sem hafði dreifst yfir allt óhreina leirtauið, hækkaði hitann á vatninu og setti meiri sápu og reyndi af fremsta merki að ná klessunum af. Þær voru klístrugar og erfitt að skrúbba þær af og mér fannst að því meira sem ég skrúbbaði því fleiri klessur kæmu. Ég var í margar mínútur með sama diskinn því í hvert sinn sem ég sneri honum við var komin nýr blettur. Loksins þegar hann var orðinn hreinn setti ég hann í grindina en þegar ég leit á hann þar var komin ný klessa og ég var handviss um að ég væri farin að sjá ofsjónir. Var alveg að verða vitlaus á þessu og skildi ekki neitt í neinu hvernig svörtu klessurnar gátu bókstaflega fjölgað sér á meðan ég var að vaska upp! Hélt jafnvel að þetta væri einhvers konar skæður myglusveppur. Ég var orðin rugluð og ringluð, gafst upp á þessu X-files vandamáli og var að taka uppþvottahanskana af mér þegar rann upp fyrir mér ljós.

Uppþvottahanskarnir pæjulegu eru nefnilega svartir með hvítum doppum. Þeir voru farnir að smita svörtu frá sér, því meira sem ég snerti leirtauið því meira klístraðist á það. Og ekki skánaði það eftir því sem vatnið hitnaði. Skil ekki hvað ég var lengi að fatta þetta. En ég hef ekki ennþá keypt nýja uppþvottahanska (vil fá einhverja flotta) þannig að núna er ég með rúsínuputta í uppvaskinu.

14. feb. 2009

200∞

Mér finnst ég verða að gera upp gamla árið (já ég veit að það er miður febrúar) þar til ég get farið að blogga aftur. Svo hér kemur stutt yfirlit.

Í janúar festist ég á Hellisheiðinni á leiðinni í vinnuna ásamt samferðamanni mínum og við þurftum að bíða í nokkra tíma eftir að björgunarsveitin kæmi til hjálpar. Þetta voru vaskir og viðkunnalegir piltar sem komu að bjarga okkur, en ég mæli samt ekki með þessari aðferð til að pikka upp karlmenn. Í sama mánuði var systurdóttir mín skírð Eyrún Lára og ég var ótrúlega montin með að vera skírnarvottur.

Í febrúar í fyrra var ennþá góðæri og því skellti ég mér ásamt menntaskólasætusaumóvinkonunum í stelpuferð til New York þar sem tvær þeirra bjuggu á þeim tíma. Þrjár af sex í ferðinni voru óléttar svo það var skipt fifty/fifty í Baby Gap og á barinn ;) Ferðin var algjört æði, dollarinn hagstæður svo það var sjop till jú drop milli þess sem við borðuðum yfir okkur, fórum á Broadway á hinn klassíska söngleik "Legally Blonde" og gerðum svo margt margt fleira.

Í mars voru páskar og þá fór ég til Kaupmannahafnar að heimsækja fjölskylduna sem bjó þarna öll á þessum tíma. Þá voru líka (vel meintir og skemmtilegir) hrekkir á víxl á vinnustaðnum sem endaði með póst-it hrekknum mikla þar sem skrifstofur vinnufélaga voru þaktar með þúsund póst-it miðum eins og í Landsbankaauglýsingunni. Good times. Í apríl fór ég til Akureyrar í vinnuferð og í skemmtileg partý og heimsóknir, eins og var reyndar bara nokkuð mikið um á árinu almennt.

Í maí fór ég enn og aftur til útlanda, við fórum þrjár æskuvinkonur til Brighton að heimsækja þá fjórðu sem bjó þar. Frábær vinkonuferð, héngum á kaffihúsum og á ströndinni og í görðum og kjöftuðum mestallan tímann :) Við vorum síðan tvær sem enduðum ferðina í London. Í maí kom síðann Suðurlandsskjálfti sem varð akkúrat þegar ég var í árlegu starfsmannaviðtali í kjallaranum á Kaffi Krús á Selfossi. Brá ansi mikið og hrökk við við minnsta titring lengi á eftir.


Sumarið var síðan bara ótrúlega ljúft og skemmtilegt. Hélt upp á afmælið mitt með pulsugrillveislu í Hljómskálagarðinum í júní sem heppnaðist mjög vel, þetta verður pottþétt endurtekið í ár. Þér er boðið!



Fór í fjórða skiptið á árinu til útlanda, aftur til Danmerkur til fjölskyldunnar. Við fórum í dýragarðinn sem mér fannst algjört æði, langt síðan hafði farið síðast, en líka í skemmtilegt ferðalag til Þýskalands og Svíþjóðar.


Síðan var a.m.k. ein sumarbústaðarferð og tvær og útilegur, annars vegar í Húsafell...


... og hins vegar í Þjórsárdal. Báðar ótrúlega skemmtilegar, nema hvað það var brjálæðislega kalt í Húsafelli. Sváfum fimm í fjórum tjöldum, held að það hefði verið betra að vera fleiri saman í stóru tjaldi. Stefnum á að endurtaka leikinn í sumar og bjóða öllum sem vilja. Þér er líka boðið þangað! Veðrið var hins vegar muun betra í Þjórsárdal og ótrúlega gott að liggja úti í sólinni í svefnpokanum.


Í sumar fæddist líka heill hellingur af börnum :) taldi sex ný börn í jólakortunum í ár, þar af voru fjórir drengir vinkvenna minna sem fæddust í sumar, þeir Almar, Bjartur Bóas, Kristján og Stefán Garðar. Þrír þeirra fóru einmitt með í New York ferðina. Ég á ekki von á öðru en að vinirnir verði jafn duglegir að fjölga sér 2009 sem er hið besta mál þar sem ég á einstaklega skemmtilega, fallega og gáfaða vini og kunningja. Ég fór í eitt brúðkaup þar sem brúðurin var komin 6 mánuði á leið sem var nokkuð augljóst (hún var auðvitað mjög falleg og glæsileg en með kúlu eins og gefur að skilja). Það var leikur í brúðkaupinu þar sem einn við hvert borð átti að leika ákveðið hlutverk sem hinir vissu ekki um. Ég fékk þau tilmæli að spyrja ítrekað þá sem sátu við borðið hvort það gæti nokkuð verið að brúðurin væri ólétt. Þetta var allt hið vandræðalegasta og þeir sem þekktu mig ekki við borðið viðurkenndu eftirá að hafa haldið að ég væri meira en lítið treg.


Verslunarmannahelginni eyddi ég mestmegnis í það að rúnta með góðum vini mínum, meðal annars fórum við til Grindavíkur í ísbíltúr. Í lok sumars var farið í hið árlega fjölskylduberjamó, amma, börn og barnabörn. Rúsínus fékk að fara með sem hann gerði líka í fyrra og var bara laus og svaf í sólinni í þvílíkri sælu. Eyrún Lára kom með í fyrsta skipti og skemmti sér konunglega. Það var mikið berjalán og gott veður. Finnst á þessum myndum að það hafi verið sól í allt sumar þótt það hafi reyndar örugglega ekki verið þannig. Ahhh sumar. Get ekki beðið.



Ég á ótrúlega lítið af myndum síðan í haust. September, október og nóvember voru samt ekkert tíðindalitlir mánuðir. Fór á nokkra tónleika, Björk í Langholtskirkju í lok ágúst, Tindersticks í september, Villa Vill í október og Ellen Kristjáns í íslensku óperunni held ég í lok október. Fyrir utan fullt af pöbbatónleikum á Rósenberg og víðar. Fór á tvö leikrit eftir Þórdísi Elvu snilling sem hefur einstakt lag á að spila á tilfinningaskalann, Fýsn í Borgarleikhúsinu í október og Dansaðu við mig í Iðnó í nóvember. Langar að fara oftar í leikhús.

Í desember kom Útlendingurinn vinur minn í heimsókn og gaf Rúsínusi fullt af pökkum, þar á meðal risastórt kanínuvölundarhús. Mig langar í svoleiðis fyrir fullorðna! Síðan var það bara jóla jóla, gaman að endurheimta vini og fjölskyldu sem búa erlendis. Jólagjöfina í ár átti frændi minn sem málaði mynd í 18 númeruðum hlutum og gaf hverjum fjölkskyldumeðlimi hlut. Við röðuðum svo myndunum saman í eina heild á jóladag og síðan fór hver heim með sína mynd, en þær geta líka staðið sjálfstætt. Frábær hugmynd.

Ég veit að ég er að gleyma alveg fullt en á heildina litið var þetta bara fínt ár. Ég kynntist nýju skemmtilegu fólki og eyddi tíma með skemmtilega fólkinu sem ég þekkti fyrir. Nýjar hugmyndir kviknuðu og ýmis spennandi verkefni eru í undirbúningi. Í ár langar mig að eiga enn fleiri góðar stundir með góðu fólki og veit að það á eftir að gerast. Hlakka til óvæntra ævintýra.

(Humm þetta yfirlit var kannski ekki svo stutt... ætla samt að reyna að halda mig við það að blogga oftar og styttra, sjáum hvernig það gengur)

Stutt blogg eru málið

Ég er búin að sjá að stutt blogg eru alveg málið. Mér liggur bara alltaf svo mikið á hjarta að þetta endar í allt eða ekkert. Ég er til dæmis búin að vera að skrifa áramótaannál síðan í desember sem er orðinn að ævisöguágripi sem á ekkert heima á bloggi. Fínt ár samt, þetta 2008. Mun betra en 2007. Er búin að fatta hvað það er gott að hafa myndavélar með, þótt myndirnar séu ekkert til að hrópa húrra fyrir. Finnst gaman að renna yfir árið í myndum. Fór í fullt af matarboðum og partýum og ferðalögum og alls konar skemmtilegheit sem ég var búin að gleyma. En já, stutt blogg var það ekki. Óver and out.