26. feb. 2009

Hann er bara ekki nógu skotinn í þér

Fór í bíó í gær með Blöðrunni og fleirum á stelpumyndina He's just not that into you, ég held að það hafi verið þrír strákar þarna í fullum sal af kvenfólki og röðin á salernið í hléinu var eftir því. Ég var ekkert rosalega ánægð með myndina af því að mér fannst hún að mörgu leyti senda vafasöm skilaboð en vil ekki ræða það frekar hér af tillitsemi við þá sem hafa ekki séð myndina og hafa hugsað sér að gera það. En þetta var samt ágætis skemmtun.

Myndin er byggð (mjög) lauslega á samnefndri bók sem ég keypti á Kastrup flugvelli og man að ég var að reyna að fela hvað ég var að lesa í fluginu því fólkið við hliðina á mér var að lesa og ræða verðlaunabækur eftir nóbelsskáld. Hvað um það, mér þótti semsagt bókin fyndin og skemmtileg og hafa nokkuð til síns máls. Ég sjálf og vinkonur mínar höfum oft dottið í þessa gryfju að koma með endalausar afsakanir fyrir því sem er eftir á að hyggja augljóslega bara áhugaleysi af hálfu hins aðilans.

Hann er svo upptekinn í vinnunni að hann hefur ekki tíma til að hafa samband.
Hann er atvinnulaus og svo þunglyndur að hann er of þreyttur til að hafa samband.
Hann er alltaf á ferðinni svo það er svo erfitt að ná tali af honum.
Hann er rúmliggjandi með hita og óráði og getur ekki talað í símann.
Hann er með bráðsmitandi sjúkdóm og getur ekki hitt mig.
Hann sinnir svo mörgum tómstundum/félagsstörfum að við verðum að hittast þegar hægir um.
Hann er í útlöndum og er ekki í símasambandi, hann hefur samband þegar hann kemur aftur.
Hann er í tilfinningakreppu og þarf að læra að elska sjálfan sig áður en hann getur elskað aðra.
Hann býr í nýja hverfinu í Hafnarfirði og þar er svo lélegt símasamband.
Hann er mjög óhamingjusamur en alveg að fara að hætta með konunni sinni, hann þarf bara meiri tíma.
Hann er nýhættur með konunni sinni en er að ganga frá lausum endum, hann þarf bara meiri tíma.
Hann hefur verið særður í fyrri samböndum og óttast því skuldbindingu.
Hann hefur enga reynslu af samböndum og óttast því skuldbindingu.
Hann er undir svo miklu álagi núna.
Hann týndi símanúmerinu mínu.
Hann missti minnið.
Hann var brottnuminn af geimverum.

Tökum eina persónulega dæmisögu í lokin (örlítið breytt útgáfa og skáldaleyfi, eins og má). Ég lenti einu sinni í því á deiti að heyra eftirfarandi orð: "Ég legg af stað í margra mánaða heimsreisu á morgun svo við skulum njóta kvöldsins í kvöld. Ég vil ekki leggja neina skuldbindingu á þig meðan ég er í burtu en hef samband þegar ég kem aftur".

Þetta hefði kannski átt að hringja einhverjum bjöllum en mér fannst þetta ótrúlega rómantískt og ekki síður þegar ég fékk símtal nokkrum dögum seinna: "Ég er á toppi Eiffel turnsins, sólin er að setjast og mér varð hugsað til þín". Nema hvað, svo líður og bíður og ekkert heyrist í gæjanum. Sendi honum nokkur skilaboð og langan tölvupóst án þess að fá svar. Fékk síðan óljóst sms um að hann hefði ekki haft samband við neinn því að hann væri í tilvistarkreppu og þyrfti tíma til að finna sjálfan sig. Ég hafði smá áhyggjur af honum og hélt áfram að reyna að ná í hann en ekkert gekk. Stuttu seinna hitti ég sameiginlega vinkonu okkar á förnum vegi og spyr hana frétta af drengnum, átti satt best að segja allt eins von á því að heyra hann væri kominn í þagnarbindindi í munkaklaustri og fannst það eiginlega besta skýringin á því að hann hefði ekki haft samband við mig. Hann segir allt fínt, sagði hún, ég hitti hann einmitt í gær. Heimsreisan (sem átti að standa töluvert mikið lengur en þegar þarna er komið við sögu) hafði þá tekið enda fyrir nokkru, án þess að ég hafði hugmynd um. Stuttu síðar sé ég myndir af honum á netinu með nýju kærustunni (einmitt við helv. Eiffelturninn).

Fyrir utan reiði, pirring og einhver óljós særindi leið mér mest bara ótrúlega kjánalega. Þarna hefði til dæmis verið gott að sleppa nokkrum vikum og mánuðum af vangaveltum og afkáralegum skýringum á hegðun - og horfast í augu við að hann var bara ekki nógu hrifinn ef mér. Kannski vont að heyra þetta svona fyrst en svo er það bara léttir að hætta þessari tímasóun og hægt að halda áfram með ástarsmjörið. Eftir að ég las bókina hefur þetta skilyrði nefnilega færst mun ofar á "hvað kanntu best að meta í fari karlmanna" listanum (maður ætti nú kannski að birta þann lista við tækifæri). Það er að segja, að þeir séu meira en nógu skotnir í mér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Hann býr í nýja hverfinu í Hafnarfirði og þar er svo lélegt símasamband" ...haha :)

kv,
Hildur