14. feb. 2009

200∞

Mér finnst ég verða að gera upp gamla árið (já ég veit að það er miður febrúar) þar til ég get farið að blogga aftur. Svo hér kemur stutt yfirlit.

Í janúar festist ég á Hellisheiðinni á leiðinni í vinnuna ásamt samferðamanni mínum og við þurftum að bíða í nokkra tíma eftir að björgunarsveitin kæmi til hjálpar. Þetta voru vaskir og viðkunnalegir piltar sem komu að bjarga okkur, en ég mæli samt ekki með þessari aðferð til að pikka upp karlmenn. Í sama mánuði var systurdóttir mín skírð Eyrún Lára og ég var ótrúlega montin með að vera skírnarvottur.

Í febrúar í fyrra var ennþá góðæri og því skellti ég mér ásamt menntaskólasætusaumóvinkonunum í stelpuferð til New York þar sem tvær þeirra bjuggu á þeim tíma. Þrjár af sex í ferðinni voru óléttar svo það var skipt fifty/fifty í Baby Gap og á barinn ;) Ferðin var algjört æði, dollarinn hagstæður svo það var sjop till jú drop milli þess sem við borðuðum yfir okkur, fórum á Broadway á hinn klassíska söngleik "Legally Blonde" og gerðum svo margt margt fleira.

Í mars voru páskar og þá fór ég til Kaupmannahafnar að heimsækja fjölskylduna sem bjó þarna öll á þessum tíma. Þá voru líka (vel meintir og skemmtilegir) hrekkir á víxl á vinnustaðnum sem endaði með póst-it hrekknum mikla þar sem skrifstofur vinnufélaga voru þaktar með þúsund póst-it miðum eins og í Landsbankaauglýsingunni. Good times. Í apríl fór ég til Akureyrar í vinnuferð og í skemmtileg partý og heimsóknir, eins og var reyndar bara nokkuð mikið um á árinu almennt.

Í maí fór ég enn og aftur til útlanda, við fórum þrjár æskuvinkonur til Brighton að heimsækja þá fjórðu sem bjó þar. Frábær vinkonuferð, héngum á kaffihúsum og á ströndinni og í görðum og kjöftuðum mestallan tímann :) Við vorum síðan tvær sem enduðum ferðina í London. Í maí kom síðann Suðurlandsskjálfti sem varð akkúrat þegar ég var í árlegu starfsmannaviðtali í kjallaranum á Kaffi Krús á Selfossi. Brá ansi mikið og hrökk við við minnsta titring lengi á eftir.


Sumarið var síðan bara ótrúlega ljúft og skemmtilegt. Hélt upp á afmælið mitt með pulsugrillveislu í Hljómskálagarðinum í júní sem heppnaðist mjög vel, þetta verður pottþétt endurtekið í ár. Þér er boðið!



Fór í fjórða skiptið á árinu til útlanda, aftur til Danmerkur til fjölskyldunnar. Við fórum í dýragarðinn sem mér fannst algjört æði, langt síðan hafði farið síðast, en líka í skemmtilegt ferðalag til Þýskalands og Svíþjóðar.


Síðan var a.m.k. ein sumarbústaðarferð og tvær og útilegur, annars vegar í Húsafell...


... og hins vegar í Þjórsárdal. Báðar ótrúlega skemmtilegar, nema hvað það var brjálæðislega kalt í Húsafelli. Sváfum fimm í fjórum tjöldum, held að það hefði verið betra að vera fleiri saman í stóru tjaldi. Stefnum á að endurtaka leikinn í sumar og bjóða öllum sem vilja. Þér er líka boðið þangað! Veðrið var hins vegar muun betra í Þjórsárdal og ótrúlega gott að liggja úti í sólinni í svefnpokanum.


Í sumar fæddist líka heill hellingur af börnum :) taldi sex ný börn í jólakortunum í ár, þar af voru fjórir drengir vinkvenna minna sem fæddust í sumar, þeir Almar, Bjartur Bóas, Kristján og Stefán Garðar. Þrír þeirra fóru einmitt með í New York ferðina. Ég á ekki von á öðru en að vinirnir verði jafn duglegir að fjölga sér 2009 sem er hið besta mál þar sem ég á einstaklega skemmtilega, fallega og gáfaða vini og kunningja. Ég fór í eitt brúðkaup þar sem brúðurin var komin 6 mánuði á leið sem var nokkuð augljóst (hún var auðvitað mjög falleg og glæsileg en með kúlu eins og gefur að skilja). Það var leikur í brúðkaupinu þar sem einn við hvert borð átti að leika ákveðið hlutverk sem hinir vissu ekki um. Ég fékk þau tilmæli að spyrja ítrekað þá sem sátu við borðið hvort það gæti nokkuð verið að brúðurin væri ólétt. Þetta var allt hið vandræðalegasta og þeir sem þekktu mig ekki við borðið viðurkenndu eftirá að hafa haldið að ég væri meira en lítið treg.


Verslunarmannahelginni eyddi ég mestmegnis í það að rúnta með góðum vini mínum, meðal annars fórum við til Grindavíkur í ísbíltúr. Í lok sumars var farið í hið árlega fjölskylduberjamó, amma, börn og barnabörn. Rúsínus fékk að fara með sem hann gerði líka í fyrra og var bara laus og svaf í sólinni í þvílíkri sælu. Eyrún Lára kom með í fyrsta skipti og skemmti sér konunglega. Það var mikið berjalán og gott veður. Finnst á þessum myndum að það hafi verið sól í allt sumar þótt það hafi reyndar örugglega ekki verið þannig. Ahhh sumar. Get ekki beðið.



Ég á ótrúlega lítið af myndum síðan í haust. September, október og nóvember voru samt ekkert tíðindalitlir mánuðir. Fór á nokkra tónleika, Björk í Langholtskirkju í lok ágúst, Tindersticks í september, Villa Vill í október og Ellen Kristjáns í íslensku óperunni held ég í lok október. Fyrir utan fullt af pöbbatónleikum á Rósenberg og víðar. Fór á tvö leikrit eftir Þórdísi Elvu snilling sem hefur einstakt lag á að spila á tilfinningaskalann, Fýsn í Borgarleikhúsinu í október og Dansaðu við mig í Iðnó í nóvember. Langar að fara oftar í leikhús.

Í desember kom Útlendingurinn vinur minn í heimsókn og gaf Rúsínusi fullt af pökkum, þar á meðal risastórt kanínuvölundarhús. Mig langar í svoleiðis fyrir fullorðna! Síðan var það bara jóla jóla, gaman að endurheimta vini og fjölskyldu sem búa erlendis. Jólagjöfina í ár átti frændi minn sem málaði mynd í 18 númeruðum hlutum og gaf hverjum fjölkskyldumeðlimi hlut. Við röðuðum svo myndunum saman í eina heild á jóladag og síðan fór hver heim með sína mynd, en þær geta líka staðið sjálfstætt. Frábær hugmynd.

Ég veit að ég er að gleyma alveg fullt en á heildina litið var þetta bara fínt ár. Ég kynntist nýju skemmtilegu fólki og eyddi tíma með skemmtilega fólkinu sem ég þekkti fyrir. Nýjar hugmyndir kviknuðu og ýmis spennandi verkefni eru í undirbúningi. Í ár langar mig að eiga enn fleiri góðar stundir með góðu fólki og veit að það á eftir að gerast. Hlakka til óvæntra ævintýra.

(Humm þetta yfirlit var kannski ekki svo stutt... ætla samt að reyna að halda mig við það að blogga oftar og styttra, sjáum hvernig það gengur)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

knús :-*

Þ.

Nafnlaus sagði...

Ekki svo stutt yfirlit en miðað við allt sem þú gerðir finnst mér þetta bara ansi gott. Skemmtilegt ár og vonandi verður jafn gaman á þessu ári. Hlakka til að fara aftur í útilegu og núna skulum við pottþétt kúra saman (eða finna einhverja til að hlýja okkur)