26. maí 2009

Bringsmalaskottan á bak og burt

Eftir langan vetur sem hefur á köflum valdið þyngslum fyrir brjósti eins og þykkt teppi sem maður nær ekki að lyfta almennilega af sér, virðist vera að rofa til í sálartetrinu. Ekki bara mínu, heldur virðist sem sólskinið og Júróvisjón og vorið hafi blásið mönnum nýtt líf í brjóst og það er talað um sumarfrí og útilegur og garðhúsgögn á kaffistofunum. Grillilmurinn liggur í loftinu og andarungarnir eru komnir á stjá. Loftmyndir af landinu sýna litla hvíta depla (stúdentshúfurnar) og stóra bláa hringi (trampólínin).

Helgin hefði ekki getað verið betri. Margar sundferðir, þar af ein þar sem ég fór með litlu systur í rennibrautina við mikinn fögnuð (okkar, ekki viðstaddra sem horfðu undarlega á okkur - hún er 25 ára og engin börn voru með í för). Vinkonuspjall, barnaknús og tónleikar. Dásamlegur brunch á Nítjándu í Turninum með fjölskyldunni. Menningarferð á Gullöldina í Grafarvoginum þar sem var sungið hástöfum með Bonnie Tyler og horft á körfubolta með bjór í frystu glasi.

Lífið er unaðslegt og allt sumarið er framundan. Góðar stundir.

(Eftir þetta bjartsýnisblogg bjó ég mér til sumarsmoothie með banana, vínberjum, blönduðum ávöxtum og ananasbitum úr frystinum...namminamm...hrasaði svo í stigaganginum, missti brúsann og herlegheitin gusuðust út um allt. En þetta verður samt góður dagur!)

21. maí 2009

Englar og djöflar

Það er gaman að labba heim á nóttunni þegar það er bjart úti. Það var slökkt á ljósastaurunum klukkan þrjú þegar ég var stödd á brúnni yfir Nýju-Hringbraut og þá hríslaðist um mig einhver sumarhamingjutilfinning sem ég var búin að vera að bíða eftir.

Sá engla og djöfla í bíó í kvöld, myndin var alveg ágæt en ógeðsleg á köflum. Ég var reyndar búin að steingleyma plottinu í bókinni sem var bara hið besta mál. Félagsskapurinn þeirra Hildar og Þórdísar var síðan alveg frábær. Sá svo auðvitað engla og djöfla í bænum líka eins og gengur og gerist. Hitti nokkra sem mig langaði mikið til að hitta og aðra sem mig langaði síður að rekast á. Merkilegt hvað ég er fín í kjaftagangi og ófeimin almennt en svo eru sumir sem slá mig algjörlega út af laginu, ég verð alveg eins og asni þegar ég hitti þá, eins og tungan þvælist fyrir mér í munninum og ég veit ekkert hvað ég á að segja. Reyni að hugsa upp eitthvað sniðugt en styn bara upp einhverri ámátlegri kveðju.

Annars er svosem frá ýmsu að segja, en samt ekki. Ferðalaginu. Sumarbústaðarferðinni. En það kann varla góðri lukku að stýra að blogga að nóttu til svo ég segi óver and out þar til kannski bara á morgun.