Það er gaman að labba heim á nóttunni þegar það er bjart úti. Það var slökkt á ljósastaurunum klukkan þrjú þegar ég var stödd á brúnni yfir Nýju-Hringbraut og þá hríslaðist um mig einhver sumarhamingjutilfinning sem ég var búin að vera að bíða eftir.
Sá engla og djöfla í bíó í kvöld, myndin var alveg ágæt en ógeðsleg á köflum. Ég var reyndar búin að steingleyma plottinu í bókinni sem var bara hið besta mál. Félagsskapurinn þeirra Hildar og Þórdísar var síðan alveg frábær. Sá svo auðvitað engla og djöfla í bænum líka eins og gengur og gerist. Hitti nokkra sem mig langaði mikið til að hitta og aðra sem mig langaði síður að rekast á. Merkilegt hvað ég er fín í kjaftagangi og ófeimin almennt en svo eru sumir sem slá mig algjörlega út af laginu, ég verð alveg eins og asni þegar ég hitti þá, eins og tungan þvælist fyrir mér í munninum og ég veit ekkert hvað ég á að segja. Reyni að hugsa upp eitthvað sniðugt en styn bara upp einhverri ámátlegri kveðju.
Annars er svosem frá ýmsu að segja, en samt ekki. Ferðalaginu. Sumarbústaðarferðinni. En það kann varla góðri lukku að stýra að blogga að nóttu til svo ég segi óver and out þar til kannski bara á morgun.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
3 ummæli:
vel orðað þetta með "Englana og djöflana" ... :)
Takk fyrir gott kvöld, eins og alltaf!
kv,
Hildur
"Merkilegt hvað ég er fín í kjaftagangi og ófeimin almennt en svo eru sumir sem slá mig algjörlega út af laginu..."
Það er alveg ótrúlegt hvað maður leyfir sumum að hafa áhrif á sig. Í mínu tilfelli eru þetta yfirleitt aðilar frá barna- og unglingsárum sem höfðu þessu áhrift á mig þá, og hafa enn. Merkilegt hjá fullorðnum einstaklingi.
Takk sömuleiðis Hildur, hittumst vonandi fljótlega aftur :) Og já Gummi þetta er stórmerkilegt. Oft einmitt aðilar sem maður þekkti fyrir löngu, nú eða heillandi karlmenn. En mig grunar að síðarnefndi hópurinn hafi meiri áhrif á mig en þig.
Skrifa ummæli