26. apr. 2009

Blóð, sviti og tár

Það féll blóð, sviti og tár á kjördag, þó ekki vegna dramatískra kosningaúrslita. Svitinn féll í Kópavogslaug þar sem ég eyddi töluverðum tíma í sund og sól og kaus því með rjóðar kinnar og nýjar freknur. Ég var lengi inni í kjörklefanum enda búin að skipta nokkrum sinnum um skoðun á síðustu metrunum, en var vissari þegar ég labbaði út en inn. Blóðið var ekki mitt eigið heldur Rúsínusar sem kipptist við þegar ég var að reyna að klippa á honum klærnar svo ég klippti óvart aðeins of langt. Ég var að fríka út með hann í fanginu í blóðugu handklæði sem varð sífellt rauðara, á meðan var hann svo pollrólegur að ég hélt að honum væri að blæða út. En þetta jafnaði sig fljótlega sem betur fer. Tárin féllu síðan í dramatísku samtali við Útlendinginn sem hélt yfir mér langa ræðu um hvað Íslendingar hefðu verið vitlausir og veruleikafirrtir að taka erlend lán fyrir flottu jeppunum sínum og að þeir gætu bara sjálfum sér um kennt um þessi vandræði. Þetta er kannski einföldun á því sem hann sagði en það endaði að minnsta kosti því miður með því að ég missti stjórn á skapi mínu yfir þessum bresku besserwisser stælum. Þetta var nóta bene strax í kjölfar blóðbaðsins svo ég var þá þegar í uppnámi og endaði með því að öskra og grenja afar ómálefnalega í símann. Okkur tókst samt að verða sammála um að vera ósammála og ákváðum að þetta yrði ekki rætt í næstu viku þegar við hittumst.

5 ummæli:

Kristján sagði...

Útlendingurinn er alltaf með svo hjálplegar athugasemdir. Eins og þegar hann tjáði mér að ónæmiskerfi systur minnar væri mjög líklega ónýtt, og hún föst ein í Suður-Ameríku með lungnabólgu...

Nafnlaus sagði...

góða ferð á morgun! :)

kv,
Hildur

Aldís Rún sagði...

Góða ferð krús...mundu eftir grímu og handspritti ;)

Nafnlaus sagði...

Gerðist svo ekkert markvert í þessu útlandi?

Aldís Rún sagði...

Blogga, blogga, blogga, blogga !