Vegna þess mikla meðbyrs sem ég hef fundið fyrir meðal kjósenda heldur rauðu seríu bloggið áfram enn um sinn.
Ég hafði smá áhyggjur þegar ég heyrði ekki til baka frá skandínavíska doktornum og velti því fyrir mér hvort ég hefði virst of áhugasöm. Hugsanlega (ég sagði hugsanlega) var hægt að lesa það úr svarbréfi mínu að ég væri að bjóða honum gistingu og í fjölskyldumatarboð á páskadag. Sem væri allt í lagi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að við höfðum ekki sést í sjö ár og aðeins átt í afar takmörkuðum rafrænum fésbókarsamskiptum síðustu ár.
En hann hafði samband að lokum og féllst á kynningu á næturlífi Reykjavíkur með nokkrum íslenskum yngismeyjum laugardaginn fyrir páska. Hann reyndist síðan jafnvel skemmtilegri (og myndarlegri) en mig minnti og við hittumst nokkrum sinnum í viðbót áður en hann hvarf af landi brott. Þótt hann hafi verið afskaplega indæll verður að hafa í huga að hann býr í landi sem er ekki einu sinni beint flug til frá KEF. Því tel ég óráðlegt að spá meira í hann sökum langrar og leiðinlegrar reynslu af fjarsamböndum.
Lenti einmitt á spjalli við kunningja um helgina um að hann væri ekki farinn að búa með kærustunni þrátt fyrir nokkurra ára samband. Hann býr á Seltjarnarnesi en hún í vesturbænum (í Reykjavík). Það er nú ekki svo slæmt sagði ég, stutt að fara á milli og svona. Já þetta gengi aldrei ef hún byggi til dæmis í Grafarvoginum sagði hann. Klárlega ekki að grínast. Ég varð frekar pirruð.
Þeir karlmenn sem ég hef hrifist af undanfarna mánuði hafa reyndar allir haft ákveðna galla sem er erfitt að líta framhjá. Kannski er ég bara svona vandlát, en það hefur truflað mig að þeir hafa ýmist verið a)Giftir b)Hrifnir af öðrum konum c)Samkynhneigðir d)Getulausir. Þannig að það er spurning hvort flokkurinn e)Búsettir erlendis til frambúðar sé nokkuð verri en hinir.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
10 ummæli:
hhmmm...en hafa þeir allir horft á sjónvarp?! :)
kv,
Hildur
Ha ha ha Hildur já það leynast reyndar fleiri en einn þarna sem eiga ekki eða horfa ekki á sjónvarp, var búin að gleyma þeim galla ;)
já þessi galli átti auðvitað að vera í nútíðinni, það er "horfa ekki á sjónvarp" ...undarlegt hvað þessi siður virðist þá almennur ef þú þekkir líka nokkra. Hefur fólk eitthvað betra að gera eða?
Og er þetta bara af eða á með mig? Einn horfir ekkert á sjónvarp og sá næsti gerir lítið annað en sitja fyrir framan skjáinn. Hlýt að geta fundið einhvern með meðalveginn á hreinu...hugsanlega er það góð einkamálaauglýsing?
kv,
Hildur
Já þú meinar. "Leita að þokkafullum og þrifalegum karlmanni sem horfir hæfilega mikið á sjónvarp"?
...sem er ekki giftur, með fulla getu, gagnkynhneigður and only has eyes for me :)
kv,
Hildur
Á tímabili voru allir karlmenn sem ég varð skotin í búsettir í öðru landi en ég....
Ég vil minna á að það er (amk hárfínn) munur á getuleysi og að skjóta án skotvopna (svo að segja)!
Magnea
Ha ha ha ég veit, þetta var rætt um helgina :) enda er ég ekki að vísa í óhlaðna byssu (það ætti kannski að vera sér flokkur?) heldur að geta ekki miðað...eða kannski frekar að geyma byssuna í hulstrinu?? úff hvað ég er ekki að meika þessa samlíkingu.
Svo má líta á bjartar hliðar og gleðjast yfir að þetta er ekki allt sami einstaklingurinn sem uppfyllir a-e ...
Nei það er rétt, þetta er ekki bara einn giftur, samkynhneigður, getulaus útlendingur sem er ástfanginn af öðrum. Samt falla sumir jafnvel í fleiri en einn flokk, getur t.d. verið að þessi getulausi sé í raun samkynhneigður?
Skrifa ummæli