Jæja góðir gestir.
Þá er víst tímabært að upplýsa ykkur um það að mér hefur boðist starf í Noregi og mun ég flytja þangað þegar nær dregur sumri. Ég hef fengið frábæra vinnu á heilsugæslunni í Tromsø og líst bara ótrúlega vel á þetta. Húsnæðismál eru að skýrast, líklegast fer ég að leigja hjá yfirlækninum en við höfum verið að spjalla saman á netinu síðan um áramótin. Þetta bar allt mjög skjótt að, samband okkar hefur verið að þróast smátt og smátt en í síðustu viku sprakk allt og konan hans fór frá honum. Þau voru því miður líka að vinna saman, hún er nú flutt til mömmu sinnar í Lillehammer og þetta er semsagt hennar starf sem ég er að fara í.
Djók. Ég gerði ekkert fyrsta apríl gabb enda með eindæmum lélegur lygari þótt mér finnist mjög gaman að prakkarast. Hló samt að ýmsu plati í fjölmiðlum. Langaði ótrúlega mikið til þess að gera eitthvað sniðugt en var alveg tóm, þrátt fyrir mikla umhugsun. Á Íslandi a.m.k. er líka málið að láta fólk hlaupa apríl en ekki bara að plata. Samstarfskona mín reyndi reyndar að stríða mér, hringdi í mig og bað mig um að koma niður til sín en þá var ég blaut í gegn af slabbi og sagðist ekki geta komið fyrr en skórnir og sokkarnir hefðu þornað á ofninum. Þannig að ég hljóp ekki neitt. Það eina sem ég lét gabbast af var frétt á sunnlenskum vef um að bæjarstjórinn væri að fara í námsleyfi. Við vorum nokkur sem fórum í panikk yfir því að hafa misst af starfsmannafundi eða ekki tekið nógu vel eftir, en svo reyndist þetta bara vera gabb. Þá fannst mér nú fréttin betri um skákeinvígi fyrrverandi og núverandi Seðlabankastjóra.
En... það kemur fyrsti apríl eftir þennan. Og kannski bara um að gera að byrja að skipuleggja grín næsta árs.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
1 ummæli:
Mér fannst þetta nú samt nokkuð flott grín hjá þér. Frumlegt og skemmtilegt :)
Annars hefur mér alltaf fundist þetta leiðinlegur siður. Vissi ekki að hann væri til fyrr en ein vinkona mín sagði mér (7 ára) að henni finndist ég leiðinleg. Á meðan ég hljóp organdi heim þá gargaði hún á eftir mér að það væri 1. apríl (sem ég hafði aldrei heyrt talað um áður og komst ekki að fyrr en ég var farin heim hvað var) = Asnalegur dagur!
Hinsvegar langaði mig geðveikt á húsgagnasöluna hjá bönkunum. Krossa putta að af henni verði einhvern tímann í alvörunni en ekki bara á netinu :)
Skrifa ummæli