Mér þykir spjallþáttakóngurinn (eins og þeir á Skjá Einum kalla hann) Jay Leno yfirleitt frekar leiðinlegur, en hef gaman af headlines innskotinu hans þar sem hann gerir grín að misheppnuðum auglýsingum og óheppilegum prentvillum sem fólk sendir inn. Þess vegna flissaði ég pínulítið yfir auglýsingunni sem ég sá í morgun um skyndihjálparnámskeið þar sem yrði "farið yfir helstu slysabætur á heimilinu" (átti líklega að vera slysahættur). Ekkert sérlega fyndin villa en þetta kveikti samt í einhverjum púka og ég fór að setja út á ýmsa orðanotkun.
Til dæmis í fréttinni um vont veður á Hellisheiðinni þar sem kom fram að fólk ætti ekki að "fara yfir heiðina að óþörfu". Eins og fólk sé mikið að rúnta að gamni sínu um Suðurlandið, sagði púkinn. Hann (púkinn) setti líka út á leiðbeiningar á plástrum sem ég er nýbúin að kaupa, þar sem stendur "seek professional help in medical emergencies". Semsagt ekki setja bara plástur á ef þér er að blæða út. Púkinn lauk lélegum bröndurum sínum á því að setja út á sturtusápuna sem ég keypti nýlega bara af því að hún var með 87% afslætti. Hef aldrei keypt þessa tegund áður en hún var í voða flottum umbúðum. Sá í dag að lyktin sem ég keypti heitir "Cucumber song". Ég hef aldrei óskað mér þess sérstaklega að lykta eins og gúrka, hvað þá syngjandi gúrka. Hvern langar að anga af Smjattpattasafa? sagði púkinn og lauk þar með máli sínu þar sem ég var orðin of sein í saumaklúbbsafgangaboð.
Er annars að raula sumarlög til að reyna að fæla burtu leiðindaveðrið þrátt fyrir að sumir bloggarar séu afskaplega hrifnir af ísköldu roki. Af því tilefni spyr ég, eru halanegrar í uxahryggjahalanegrablómkálssveppasúpu og er hún bara borðuð á sumrin?
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli