24. maí 2003

Þett'er Júróvisjónlag.... barammbammbamm....
Spennan magnast óðum, ég er að fara að búa til partýmat fyrir kvöldið. Á gestalistanum eru tveir Íslendingar (með gestgjafanum), Króati, Ítali, Ungverji, Eisti, 1 heill Englendingur og tveir hálfir á móti hálfum Grikkja og hálfum Spánverja, tveir Norðmenn, Portúgali, Hollendingur, tveir Þjóðverjar og Kaliforníugæji sem á ekki alveg heima þarna... Það mæta samt ekki allir en þetta verður örugglega svaka stuð. Allir koma með þjóðlega rétti og verða í fánalitunum (þá er skárra að vera Íslendingur heldur en margt annað... mér finnst til dæmis rautt, gult og svart ekki smart samsetning). Svo er stigagjöf og skemmtilegheit. Held að Ragna sé búin að prenta út texta og hvaðeina. Ég spái Íslandi 11. sæti.

22. maí 2003

Eftir nokkrar letivikur er allt komið á fullt. Þá tekst mér auðvitað að verða lasin. Kvefið sem ég nældi mér í um daginn vill bara alls ekki fara og horið virðist hafa tekið sér fasta búsetu í nefi mínu. Ég er hins vegar ekki hrifin af þessum nýju íbúum líkama míns og hef reynt allt til að svæla þá út. Til dæmis hef ég verið að drekka hið afar skemmtilega Lemsip sem á að vera all in one verkjalyf, C vítamín, menthol te og nefstíflulosari. Svo er það hið sívinsæla Strepsils fyrir hálsinn, gamla góða nefspreyið og stórfurðulegir nefplástrar sem eiga að gera eitthvað gagn. Ég er búin að eyða aleigunni í flensudeildinni í Boots (en það er samt alltaf gott að hafa afsökun til að fara í Boots og auðvitað laumaðist eins og eitt varagloss með í kvefkörfuna) og samt get ég ekki sagt emm og enn og önnur skemmtileg en nauðsynleg hljóð.

Maja pæja var að fara frá mér eftir frábæra heimsókn og svo kemur Freyja darling á sunnudaginn, ég er voða spennt. Aðalstuðið (fyrir utan að fara á Burger King) var að hitta Sóðaperra... vinum mínum sem lesa bloggið finnst það mjög spennandi, held að bæði Guðrún og Jóhanna hafi hitt hann. Ég ætti kannski að fara að selja inn?

Ég hef sumsé einn dag til að láta mér batna því á laugardaginn er Júróvisjón beibí heima hjá Rögnu þar sem vonandi yfir 10 þjóða kvikindi munu safnast saman og hvetja landa sína. Við erum reyndar með einn Bandaríkjamann í hópnum sem skilur eeeekkert í því hvað allir eru að æsa sig yfir einhverri hallærislegri söngvakeppni...
Svo kemur Freyja eins og ég sagði og svo byrja ég að vinna.... liggaliggalá hjá voða fínu "new media" fyrirtæki og verð einhvers konar ráðgjafi í voða kúl verkefni sem þau eru að gera fyrir menntamálaráðuneytið. Ég nota reyndar verkefnið í mastersritgerðina mína og fæ ekki borgað en mér finnst ég samt kúl að fá að vera þarna.... svo þarf ég bara að sannfæra þau um að ég sé ómissandi svo að þau ráði mig í haust! Verst að ég laga alveg hrikalega vont kaffi....

17. maí 2003

Til hamingju Brynja með afmælið í gær! Vildi að ég hefði verið á staðnum.... sem var reyndar stórhættulegt samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Ég er annars bara búin að vera lasin sem er HUNDLEIÐINLEGT þegar maður býr í herbergi og með öðru fólki. Ég nenni ekki að hitta liðið þegar ég fer á klósettið eða fram í eldhús og er svona mygluð. Þannig að ég hírist undir sæng að horfa á Friends í milljónasta sinn sársvöng og alveg í spreng. Ætla þess vegna að fara til Rögnu snillings sem ætlar að elda gúmmelaði og vorkenna mér :)
Ég hef tekið eftir því að ég er hætt að naga neglurnar. Stórfurðulegt því ég er búin að reyna að hætta í mööööörg ár... svo voru þær allt í einu orðnar langar um daginn og ég þurfti að klippa þær (er með of ósamhæfðar hreyfingar til að geta verið með langar neglur). Ætli ég hætti einhvern tíman óvart að borða súkkulaði?

14. maí 2003

Það er gaman að vera til. Það er eiginlega lítið meira um það að segja. Allt bara happy happy joy joy, mastersritgerðin að komast á hreint, maurarnir að hverfa og maginn að minnka. Maja að fara að koma í heimsókn (M er greinilega góður stafur) og bara tóm hamingja. Meira seinna. Knús.

9. maí 2003

Ég var með hræðilegt samviskubit í gær áður en ég fór að sofa sem lýsti sér í stórum hnút í maganum sem nagaði mig að innan. Ég skildi ekkert í þessu en gat samt ekki sofnað og fór að velta því fyrir mér af hverju ég væri með samviskubit. Gamlar syndir komu upp í hugann en ég áttaði mig ekki alveg á því af hverju ég væri að fá samviskubit yfir þeim núna. Eftir miklar og djúpar sálfræðilegar pælingar komst ég að því að ég hefði líklega borðað of mikið af sólblómafræjum og væri þess vegna illt í maganum. En þá var ég búin að velta mér svo mikið upp úr einhverju sem gerðist fyrir löngu síðan að ég var komin með alvöru samviskubit...

8. maí 2003

Mín innri ljóska virðist takmarkalaus... Ég gekk áðan framhjá indverskum veitingastað sem er með svona all-you-can-eat hlaðborð. Þeir voru með skilti í glugganum þar sem stóð Over 18 items. Ég fór strax að pæla í því hvaða matur gæti verið bannaður innan 18, hvort það væri svona mikið áfengismagn í einhverjum ákveðnum réttum og hvernig þeir kæmu í veg fyrir fólk undir átján ára aldri fengi sér af þeim. Það tók skelfilega margar mínútur að fatta að þeir væru kannski að gefa til kynna fjölda rétta í boði á hlaðborðinu...

Fleira skemmtilegt eða óskemmtilegt. Ég leitaði lengi að styrkjum fyrir milljónirnar sem það kostar mig að vera hérna úti. Ég sótti um og fékk ekki þá fáu sem voru í boði en fannst samt eins og flestir styrkir væru eyrnamerktir fjarlægum löndum eða mjög sérhæfðum námsgreinum (rannsóknir á lækningu við hinum og þessum sjúkdómum sérstaklega). Lítið um að vera fyrir mastersnema í Bretlandi sumsé. Núna áðan var ég að fá fréttabréf íslenskra námsmanna erlendis, NetSæma og svo virðist sem þetta hafi ekki verið ímyndun í mér. Ég mæli með því að þeir sem hafa áhuga á nautgriparækt eða námi í Japan kynni sér málið. Hálf milljón fyrir masters eða doktorsverkefni um ræktun íslensku kýrinnar... ég er greinilega á rangri hillu í lífinu.
Annars er sólbruninn að lagast og ég á leið til London skreppitúr - vei! Góðar stundir.

7. maí 2003

Lokaverkefnisákvörðunum hefur verið formlega frestað fram á mánudag þannig að ég er komin í leti enn eina ferðina enn. Eyddi deginum á ströndinni, tók með nokkrar greinar en líka gellublað og íste til að vera kúl. Er ponkulítið brunnin á öxlum og nefi þannig að ætla að kaupa mér sólarvarnargræjur á morgun... ahh hvað ég hlakka til að eyða sumrinu hérna. Svo er líka svo heppilegt að búa svona beint á móti ströndinni... hægt að skreppa inn á klóið eða fylla á vatnið án þess að það sé neitt vesen. Skemmtilegast var samt að þykjast vera sofandi eða upptekin af lestrinum og hlusta á fólkið í kringum mig. Betra en nokkur sápuópera stundum. Ég var orðin sérstaklega niðursokkin í samræður hjá ungu pari á trúnó þau voru svona rétt innan við tvítugt, aðeins að daðra en aðallega að kynnast. Hann lýsti dramatísku sambandi foreldra sinna sem væru að skilja eftir 30 ár, pabbinn fékk hjartaáfall og vildi fara að lifa lífinu. Hún sagði frá því að pabbinn hefði keypt súdanska móður sína og flutt hana til Englands. Mamman var menntuð í sínu landi en kunni ekki ensku og hefur hvorki lært að lesa né skrifa á því máli. Hún fór að eignast börn strax eftir að hún gifti sig 19 ára og hefur ekki gert annað síðan og kennir börnum sínum um glötuð tækifæri. Nú er hún spilafíkill og stelur af börnunum svo pabbinn komist ekki að því. Bláókunnugt fólk en ég lifði mig inn í þetta eins og bíómynd. Ódýr og þroskandi afþreying fyrir stúdenta, mæli með þessu.

5. maí 2003

Þessi megrun er að gera útaf við mig. Í gær dreymdi mig að það væri risastórt Cadburys súkkulaðistykki að elta mig. Ég er ekki frá því að það hafi kallað "EAT ME". Mér fannst þetta reyndar vera svik við heimalandið þegar ég vaknaði - hefði ekki verið eðlilegra að vera elt af Nóa Sírius súkkulaði? Ég er reyndar meira fyrir kúlusúkk og nóakropp og svoleiðis íslenskt nammi... og það hefði verið hálffáranlegt að dreyma nóakropp á hlaupum.
Hef verið ásökuð um fordóma og að leggja Sóðaperra í einelti. Hmmm. Þar sem maðurinn er óendanlega erfiður í sambúð að mínu mati umfram það sem hægt er að skýra með "cultural differences", er einstaklega gott bloggefni og skilur ekki íslensku... þá held ég ótrauð áfram. Hins vegar er batnandi mönnum best að lifa og hann hefur verið (grunsamlega) almennilegur við mig að undanförnu. Hann varð víst svona eftir að hann breytti "lúkkinu" segja stelpurnar. Það gerðist strax eftir afmælisdaginn hans - hann segist vera 33 en við höldum að hann sé að nálgast fertugt. Svo keypti hann houmous handa mér og ég varð voða glöð.

2. maí 2003

Sóðaperri að reyna að bæta ráð sitt... ja hérna. Hann bankaði upp á hjá mér áðan og spurði hvað ég væri að fara að gera á morgun. Ég gat einhvern veginn ekki svarað nógu fljótt og stamaði bara "ummm...æ dónt nó...". Hann býður mér þá í löns, sagði að vinur sinn væri að koma í heimsókn, ætlaði að elda "somþing spesjal" og að honum hefði dottið í hug að bjóða mér með. Sætt. Nema auðvitað að hann ætli að eitra fyrir mér...

1. maí 2003

Ég tók kast á Sóðaperra í gær. Varð svo brjáluð að ég held að hitt sambýlisfólkið hafi orðið hrætt við mig. Allt útaf hálfri dollu af baunamauki....
Þetta byrjaði allt saman þegar ég las færsluna hennar geimVEIRU (28. apríl) um houmous. Mér finnst nefnilega svona hummsugums rosalega gott ofan á brauð, ég varð alveg húkkd á því þegar ég flutti hingað út. Við Katerina keyptum þess vegna brauð og houmous í fyrradag en kláruðum það ekki því við vorum að flýta okkur í bíó. Í gær samþykkti ég svo að vera með í hópsixpack keppninni sem þýðir ströng megrun í mánuð, frá 1. maí til 1. júní. Við K fórum saman út í búð að versla heilsuvörur (túnfisk og gúrku aðallega) en fyrst varð að klára óhollustu úr ísskápnum. Við ákváðum að brauðið og houmousdollan yrðu uppistaðan í SMFM (síðustu máltíð fyrir megrun). Ég var orðin svo svöng að ég hljóp beint inn í eldhús, opnaði ísskápinn græðgislega og sjá, dollan var horfin! Þegar ég sá hana svo tóma í ruslinu hringsnerist allt fyrir augum mér og ég varð aaaaalveg brjáluð. Það var nefnilega alveg á hreinu hver var þarna að verki. Ég lamdi í hurðina hjá fíflinu sem kom fram á nýja lúkkinu að vanda - hökutoppurinn og hvíti stuttermabolurinn og svona How you doin' look sem hvarf snarlega þegar hann sá svipinn á mér. Hann viðurkenndi þó að hafa klárað (sleikt upp úr) baunamaukið og ég tók kast a la Ross (það er alltaf staður og stund fyrir Friends tilvitnun) "You.. you ate my sandwich? MY sandwich?! MY SANDWICH!?" nema það var auðvitað MY HOUMOUS!? Hann kom auðvitað með eitthvað að hann minnti sko að hann hefði átt svona... bla bla bla.
Sam, Maya og Ken sáu þetta öll greyin og reyndu að róa mig niður.... þá sá ég auðvitað hvað þetta var fáránlegt, þetta var bara svona míkró-brjálæðiskast. Þetta hefur samt komið fyrir svo oft með hann ... kannski ég ætti að gera eins og Sam. Hún kaupir eiginlega bara svínakjöt og dreifir því meðal hinna matvælanna sinna svo að hann snerti þau ekki. Æ ég er hvort eð er að fara að lifa á kanínufóðri sem hann étur ekki þessi elska...