22. maí 2003

Eftir nokkrar letivikur er allt komið á fullt. Þá tekst mér auðvitað að verða lasin. Kvefið sem ég nældi mér í um daginn vill bara alls ekki fara og horið virðist hafa tekið sér fasta búsetu í nefi mínu. Ég er hins vegar ekki hrifin af þessum nýju íbúum líkama míns og hef reynt allt til að svæla þá út. Til dæmis hef ég verið að drekka hið afar skemmtilega Lemsip sem á að vera all in one verkjalyf, C vítamín, menthol te og nefstíflulosari. Svo er það hið sívinsæla Strepsils fyrir hálsinn, gamla góða nefspreyið og stórfurðulegir nefplástrar sem eiga að gera eitthvað gagn. Ég er búin að eyða aleigunni í flensudeildinni í Boots (en það er samt alltaf gott að hafa afsökun til að fara í Boots og auðvitað laumaðist eins og eitt varagloss með í kvefkörfuna) og samt get ég ekki sagt emm og enn og önnur skemmtileg en nauðsynleg hljóð.

Maja pæja var að fara frá mér eftir frábæra heimsókn og svo kemur Freyja darling á sunnudaginn, ég er voða spennt. Aðalstuðið (fyrir utan að fara á Burger King) var að hitta Sóðaperra... vinum mínum sem lesa bloggið finnst það mjög spennandi, held að bæði Guðrún og Jóhanna hafi hitt hann. Ég ætti kannski að fara að selja inn?

Ég hef sumsé einn dag til að láta mér batna því á laugardaginn er Júróvisjón beibí heima hjá Rögnu þar sem vonandi yfir 10 þjóða kvikindi munu safnast saman og hvetja landa sína. Við erum reyndar með einn Bandaríkjamann í hópnum sem skilur eeeekkert í því hvað allir eru að æsa sig yfir einhverri hallærislegri söngvakeppni...
Svo kemur Freyja eins og ég sagði og svo byrja ég að vinna.... liggaliggalá hjá voða fínu "new media" fyrirtæki og verð einhvers konar ráðgjafi í voða kúl verkefni sem þau eru að gera fyrir menntamálaráðuneytið. Ég nota reyndar verkefnið í mastersritgerðina mína og fæ ekki borgað en mér finnst ég samt kúl að fá að vera þarna.... svo þarf ég bara að sannfæra þau um að ég sé ómissandi svo að þau ráði mig í haust! Verst að ég laga alveg hrikalega vont kaffi....

Engin ummæli: