7. maí 2003

Lokaverkefnisákvörðunum hefur verið formlega frestað fram á mánudag þannig að ég er komin í leti enn eina ferðina enn. Eyddi deginum á ströndinni, tók með nokkrar greinar en líka gellublað og íste til að vera kúl. Er ponkulítið brunnin á öxlum og nefi þannig að ætla að kaupa mér sólarvarnargræjur á morgun... ahh hvað ég hlakka til að eyða sumrinu hérna. Svo er líka svo heppilegt að búa svona beint á móti ströndinni... hægt að skreppa inn á klóið eða fylla á vatnið án þess að það sé neitt vesen. Skemmtilegast var samt að þykjast vera sofandi eða upptekin af lestrinum og hlusta á fólkið í kringum mig. Betra en nokkur sápuópera stundum. Ég var orðin sérstaklega niðursokkin í samræður hjá ungu pari á trúnó þau voru svona rétt innan við tvítugt, aðeins að daðra en aðallega að kynnast. Hann lýsti dramatísku sambandi foreldra sinna sem væru að skilja eftir 30 ár, pabbinn fékk hjartaáfall og vildi fara að lifa lífinu. Hún sagði frá því að pabbinn hefði keypt súdanska móður sína og flutt hana til Englands. Mamman var menntuð í sínu landi en kunni ekki ensku og hefur hvorki lært að lesa né skrifa á því máli. Hún fór að eignast börn strax eftir að hún gifti sig 19 ára og hefur ekki gert annað síðan og kennir börnum sínum um glötuð tækifæri. Nú er hún spilafíkill og stelur af börnunum svo pabbinn komist ekki að því. Bláókunnugt fólk en ég lifði mig inn í þetta eins og bíómynd. Ódýr og þroskandi afþreying fyrir stúdenta, mæli með þessu.

Engin ummæli: