19. júl. 2011

Harry og Hobie


Nýjasta Harry Potter myndin er bara alveg ágæt. Svolítið löng og dimm en ég kvaddi alveg sátt. Er ekki meðal hörðustu aðdáanda (á eftir að lesa eina bók og sjá tvær myndir) en langar samt að heimsækja Harry Potter skemmtigarðinn í Orlando. Var að skoða youtube myndband af fyrstu prufum leikaranna fyrir myndirnar og er fyrir löngu búin að gleyma hvernig ég sá karakterana fyrir mér áður en sagan var kvikmynduð.  Daniel Radcliffe er bara Harry Potter, þótt hann hafi svosem reynt að brjótast út úr því hlutverki með að vera allsber á hestbaki í leikriti fyrir nokkrum árum. Það gaf aðallega þeim sem skrifa erótískar sögur á netinu um Harry Potter byr undir báða vængi (ótrúlegt hversu margir virðast hafa það áhugamál).



En semsagt. Myndbandið minnti mig á umræðu sem fór af stað eftir aðra eða þriðju myndina, um að það yrði kannski að finna nýja leikara þar sem krakkarnir eltust mun hraðar en myndirnar voru framleiddar. Hvernig hefði það nú allt saman verið? Sé það ekki fyrir mér. Maður kemur svosem í manns stað en ég hef ekki verið hrifin af því almennt þegar leikurum er skipt út. Ég er ekki ennþá búin að jafna mig á því þegar það kom nýr Hobie í Baywatch og var mjög sár yfir þegar allir gleymdu gamla Hobie og nýji Hobie varð frægur. Hobie 1, þú lifir í minningunni hjá mér! 






15. júl. 2011

Ferðablogg frá Ítalíu 2. hluti - Cinque Terre

1.     Þótt La Spezia veiti vissulega innblástur við skrifin er svo margt að sjá og skoða að það er líka truflandi. En það hlýtur að vera í lagi, við verðum jú að njóta umhverfisins líka er það ekki? Ólíkt veðurspám á Íslandi (og ég meina þetta alls ekki sem móðgun við Soffíu Sveinsdóttur) stenst veðurspáin hérna á Ítalíu nokkuð vel. Þegar það er spáð sól skín sól, þegar það er spáð rigningu  rignir og svo framvegis. Við skipuleggjum skoðunarferð á sólríkum mánudegi og ákveðum að fara til Le Cinque Terre, strandlengju sem við standa fimm gömul og falleg þorp með marglitum húsum sem raðast þétt utan í brattar fjallshlíðar. Á milli leynast fallegar víkur og gönguleiðir og allt svæðið er þjóðgarður, hluti af heimsminjaskrá Unesco. Það er hægt að ferðast á milli með lest, bát eða fótgangandi. Við ákveðum að heimsækja fjögur þorpanna og byrjum á Monterosso sem er fjærst La Spezia. Það er eina þorpið með baðströnd svo við notum tækifærið og böðum okkur í sólinni og sjónum (með sólarvörn að sjálfsögðu). Hópur ítalskra unglinga sólar sig við hliðina á okkur og við teljum okkur geta lesið gegnum líkamstjáningu þeirra hver er vinsælust, hver er skilinn útundan og hver er skotinn í hverjum. 


      Okkur finnst lítið að sjá í Monterosso fyrir utan ströndina og nokkur sítrónutré svo við ákveðum að taka lest í næsta þorp (seinna sjáum við loftmynd af Monterosso á póstkorti, höfum greinilega misst af miðbænum þar sem aðalfúttið er).  Á lestarstöðinni er fjölskylda að ræða málin á íslensku. Alltaf þurfa þessir Íslendingar að vera að þvælast eitthvað hnussum við, eins og við séum staddar í Örkinni hans Nóa og séum einu tveir leyfilegu fulltrúar okkar tegundar. Við flýtum okkur upp í næstu lest sem okkur að óvörum fer beinustu leið í bandvitlausa átt. Eftir óvænt stopp í Levorno komumst við loksins þangað sem ferðinni var ætlað, til Vernazza. Þorpið er fallegt og aðalgatan liggur inn í litla vík þar sem við leitum árangurslaust að bát sem okkur skilst að ferji fólk milli þorpa. Fleiri Íslendingar heilsa okkur kumpánlega í Vernazza og við losum okkur við Kristófer Kólumbus komplexana. 




      Knoll og Tott halda áfram skipulegri ferðaáætlun sinni og við tekur löng bið á lestarstöðinni þar sem við höfðum lesið vitlaust á tímatöfluna. Í Manarolo ákveðum við að borða kvöldmat á ægilega fínum og dýrum sjávarréttastað með útsýni yfir sjóinn og klettana. Humarpasta verður fyrir valinu en við fáum að vita að humarinn sé búinn svo við tökum leiðbeiningum þjónustustúlkunnar og pöntum okkur blandaða sjávarrétti fyrir tvo. Ég kann greinilega ekki nógu vel að meta þessa hlið ítalskrar matarmenningar. Í miðju disksins er heill fiskur af óþekktri tegund sem starir illilega á mig og inniheldur óteljandi ósýnileg bein sem klóra á mér hálsinn innan frá. Í kring er búið að raða ýmsum sjávardýrum, eitt þeirra er mögulega krabbi, frekar bragðgóður raunar, annað er smokkfiskur sem bragðast eins og strokleður. Það þriðja er lítill kolkrabbi sem minnir mig of mikið á leikfangaútgáfu af Úrsúlu, vondu nornina í litlu hafmeyjunni (Disney-útgáfu) til að ég geti hugsað mér að leggja mér hann/hana til munns. Einnig eru á disknum fjórir humrar með kjafti og klóm sem okkur þykir undarlegt að hafi ekki verið hægt að nota í humarpastað sem okkur langaði í. Ef til vill hefur þetta bara verið lygi,  kannski er offramboð af strokleðrum og Úrsúlum sem veitingastaðurinn beitir öllum brögðum til að reyna að pranga á gestina. 





     Við skoðum fólkið í kringum okkur og veltum því fyrir okkur hvort ungur maður og eldri kona á næsta borði séu mæðgin eða par. Hann er í ermalausum bol og teygir reglulega úr handleggjum sem eru girnilegri en allir sjávarréttirnir okkar til samans. Sólin er að setjast og sólsetrið ægifagurt og við frænkurnar ákveðum að ganga Via D‘ell Amore eða veg ástarinnar yfir í næsta bæ, Rio Maggiore. Vegur ástarinnar reynist hvorki órannsakanlegur né erfiður, þetta er létt tuttugu mínútna kvöldganga og mættu aðrir ástarvegir taka sér þennan til fyrirmyndar.






 Á leiðinni rifjum við Freyja upp góðar stundir úr bakpokaferðalaginu okkar fyrir áratug. Við erum eiginlega sammála um að slík ferðalög eigi maður helst að fara í ungur og vitlaus til að þora að taka áhættur og lenda í ævintýrum. Í dag erum við kræsnari á gististaði og hreinlætisaðstöðu og kannski ekki jafn saklausar og trúgjarnar (í síðustu ferð fannst okkur t.d. ekkert mál að ferðast með „niðursoðna ávexti“ í krukku milli landa fyrir ókunnugan mann).

Við rifjum upp ævintýri okkar í Slóveníu fyrir áratug. Þá var Guðrún vinkona okkar búin að slást í hópinn og það sem blasti við okkur í Ljubljana var frekar óspennandi, sérstaklega þar sem það var grenjandi rigning. Við leituðum skjóls undir þakskeggi, þar sat strákur með gítar og eins og allir vita verða strákar helmingi meira spennandi með hljóðfæri í hönd (ákveðin hljóðfæri reyndar undanskilin) Hann reyndist heita Goran og kynnti okkur fyrir Kristof vini sínum, þeir voru aðeins eldri en við og voru að læra arkitektúr og töldu okkur á að gefa Slóveníu séns. Daginn eftir var hætt að rigna. Við mæltum okkur mót og þeir keyrðu með okkur um sveitir Slóveníu, við fórum í hellaferð, á markað og syntum í vatninu Bled. Þeir kenndu okkur að syngja lagið sem Goran hafði verið að spila á gítarinn, og var reyndar eina lagið sem hann kunni að spila. Við gistum á endanum þrjár nætur í Slóveníu, þar af eina á gólfinu heima hjá strákunum. Tekið skal fram að það var ekki um neinn rómans að ræða á milli okkar og þeirra, þeir voru bara ótrúlega ljúfir, skemmtilegir og vinalegir strákar.

Við rifjum upp lagið sem þeir kenndu okkur og munum það ennþá. „Dekle moje pojdes menoj, dekle moje pojdes menoj, dol o breki vtisti beli o bleki....“ Lagið er víst um stúlku í hvítum kjól og í miðjum söngnum dettur okkur í hug að senda þeim Goran og Kristof sms. Ég er ennþá með númerin þeirra geymd í símanum mínum en óvíst að þeir séu með sömu númer. Við sendum að við séum að syngja lagið og hugsa til þeirra á 10 ára ferðaafmæli okkar. Vonbrigði gera vart við sig þegar við fáum ekkert svar en við erum komnar á áfangastað og það er orðið dimmt. Við deilum eftirrétti á veitingastað og klöppum ketti (sem virðist reyndar breytast í uppvakning þegar ég reyni að taka mynd af honum).






 Það eru fáir á ferli og við tökum næstu lest heim. Ég kíki á símann og sé að Kristof er búinn að svara! Hann er ánægður með sms-ið og ætlar að hitta Goran á morgun í bjór og skála fyrir okkur. Skilaboðin enda á textabroti, „segðu ekki nei segðu kannski kannski“ – við kenndum þeim jú lag á móti! Ótrúlegt að þeir muni það ennþá.

Líklega myndum við hugsa okkur tvisvar um núna áður en við færum upp í bíl og í ferðalag með ókunnugum karlmönnum. Við hikuðum ekki við það þá, en svona gerast ævintýrin, það er að hrökkva eða stökkva.


Þriðji og síðasti hluti ferðasögunnar er á leiðinni! 

8. jún. 2011

Ferðablogg frá Ítalíu 1. hluti

Mig langar að skrá niður minningar úr þessari langþráðu Ítalíuferð sem núna stendur yfir. Þess vegna geri ég tímabundið hlé á blogghléinu fyrir ferðablogg. Finnst það betra en að reyna að koma með hnyttna og hnitmiðaðaða feisbúkkstatusa í gríð og erg sem ég finn síðan ekki þegar á að rifja upp hvað gerðist eiginlega í þessari ferð. Því maður er jú svo fljótur að gleyma. Sem betur fer stundum, en það er önnur saga.
---------------------

Ferðinni er heitið í Liguria hérað á norðvesturströnd Ítalíu (svona rétt fyrir neðan hné) til bæjarins La Spezia (íbúafjöldi: 100 þúsund). Það eru tíu ár síðan ég kom síðast (og þá í fyrsta sinn) til Ítalíu og er með sama ferðafélaga, Freyju frænku og vinkonu. Enda er ferðin meðal annars í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá bakpokaferðalagi okkar sem byrjaði einmitt á tveggja vikna reisu um Ítalíu.  En í þetta sinn ætlum við ekki að ferðast, við ætlum að skrifa „metsölubækurnar“ okkar, fóðra rithöfundadrauminn sem við göngum báðar með í maganum eins og svo margir Íslendingar. Fyrst og fremst finnst okkur báðum gaman að skrifa þótt hugðarefnin séu ólík og við sjáum fyrir okkur að það sé margfalt skemmtilegra og veiti betri innblástur að sitja við skriftir á ítölskum kaffihúsum en íslenskum.

Okkur langar frekar að vera í litlum bæ en í stórborg, við gúglum og finnum passlega stúdíóíbúð í bæ sem við höfum aldrei heyrt um. Stökkvum á það að bóka og borga vikugistingu en áttum okkur síðan á að það verður hægara sagt en gert að komast á áfangastað. Þetta byrjar álíka óskipulega og síðasta ferðalag en það er allt í lagi. Við fljúgum til Köben og gistum þar í nokkra daga, ég hjá (frábæru og fullkomnu ef þið skylduð ekki vita það) systur minni og hún hjá bróður sínum (og frænda mínum, sem er auðvitað líka frábær). Við eigum yndislega daga í sól og sumaryl og ég knúsa uppáhalds systkinabörnin mín út í eitt. Á Kastrupflugvelli  á leið til Mílanó höfum við góðan tíma og ég hneykslast á fólki sem missir af flugvélinni eftir að það er búið að tékka sig inn. Síðan förum við að vitlausu flughliði og missum næstum sjálfar af flugvélinni. Gott á mig.

Við förum við með rútu á lestarstöðina og síðan tekur við þriggja tíma lestarferð til La Spezia. Í Mílanó eru allir sem við tölum við frekar áhugalausir eða dónalegir, sérstaklega þeir sem vinna við einhvers konar þjónustustörf, við upplýsingagjöf eða í miðasölu.  Mig langar að ræða við þá um kulnun í starfi en ítölskukunnátta mín nær ekki lengra en ciao og grazie Það sama gerist í La Spezia en eftir að ég læri að byrja samtöl á scusi, non parlo italiano verður þetta skárra.

Stúdíóíbúðin okkar er á 8. hæð og hægt að velja um 17x 15 tröppur eða pínulitla lyftu sem höktir og hristist með tilheyrandi kæfandi innilokunarkennd.  Besta lausnin er að taka lyftuna upp en stigann niður.  Þótt íbúðin sé lítil er hún björt með hreinu baðherbergi – alltaf plús. Verst að ég kemst ekki að því hvernig á að stilla heita vatnið á sturtunni fyrr en eftir tvær kaldar sturtur. Það sem gerir íbúðina stórkostlegri en nokkuð hótel eru svalirnar sem eru að minnsta kosti þrisvar sinnum stærri en íbúðin, og þá eru litlu svalirnar út frá baðherberginu ekki meðtaldar!  Á svölunum eru plöntur, borð, stólar og sólhlíf og það er útsýni í allar áttir. Við sjáum skógi vaxnar fjallshlíðar með litríkum húsaþyrpingum,  ítalskar ömmur að hengja þvott út á snúru og það glittir í sjávarsýn.

Túristaskrifstofan er lokuð þegar við komum til La Spezia, við erum ekki með kort og við erum ekki með nettengingu í íbúðina (eins og var reyndar lofað) þannig að við þorum ekki að fara of langt frá nýja heimili okkar fyrsta kvöldið. Beint á móti blokkinni okkar er ferðaskrifstofa og svo snyrtivörubúð á horninu en við finnum hvergi matvörubúð. Við álpumst inn á pizzastað en skiljum ekki matseðilinn. Pöntum eitthvað með pepperoni og skiljum ekkert í því af hverju við fáum grænmetispizzu en það er of flókið að reyna að ræða það við afgreiðslufólkið. Pizzan er samt ótrúlega ljúffeng og meðan við sporðrennum henni munum við allt í einu eftir að hafa lent í því sama fyrir tíu árum síðan... peperoni þýðir paprika á ítölsku og pepperoni er salame. Ég kaupi mér ítalsk-enska orðabók hið snarasta og með hana í farteskinu auk leikrænna tilburða og lélegrar spænsku í bland tekst okkur að gera okkur skiljanlegar á flestum stöðum.

Daginn eftir förum við á túristaskrifstofuna og uppgötvum í leiðinni gamla miðbæinn með sætum göngugötum, litlum kaffihúsum og krúttlegum búðum. Upplýsingafulltrúinn minnir mig óþægilega mikið á strákinn sem ég var allt of skotin í síðasta sumar. Hann lætur okkur hafa kort og merkir inn á það matvörubúð sem við finnum eftir nokkra leit. Við erum nýbyrjaðar að tína til ávexti í körfuna þegar við erum reknar að kassanum, það er siesta og búðin að loka. Á kassanum tínir afgreiðslukonan ávextina úr körfunni hneyksluð og hristir höfuðið, við vorum ekki búnar að vigta þá og nú er enginn tími. Við erum þreyttar og svekktar á að hafa gengið alla þessa leið til nær einskis og löbbum frekar lúpulegar til baka. Seinna um kvöldið sitjum við á svölunum og lesum betur leiðbeiningarnar sem Elisabetta, leigusalinn okkar skildi eftir handa okkur. „The supermarket in front of the house is cheap...“ Það kemur í ljós að ferðaskrifstofan beint á móti er alls ekki ferðaskrifstofa heldur frekar stór matvörubúð. Eiginlega er það alveg ótrúlegt hvernig þetta gat farið framhjá okkur en frekar dæmigert fyrir okkur frænkurnar sem misstum af bæði spænsku tröppunum og sixtínsku kappellunni í Róm fyrir 10 árum.

Freyja fær bit og ég blöðrur en að öðru leyti er lífið yndislegt. Allt sem við smökkum er fáránlega gott á bragðið, kaffið, brauðið,ávextirnir, ostarnir og svo framvegis. Maturinn er myndaður í bak og fyrir sem er nokkuð sem ég hef aldrei gert áður á ferðalagi.  Við kaupum hræódýr hvítvínsglös á markaði og hvítvín sem er bruggað í héraðinu og Freyja eldar heimsins besta pasta með fersku pestó, hráskinku og nýrifnum parmesan osti. Við drekkum kaffi, förum á trúnó og skrifum langt fram á kvöld með hnetur og ólífur í skál en vöknum samt alltaf frekar snemma og fáum okkur jógúrt, múslí og fersk ber á svölunum. Hamingjan er hér.

Meira von bráðar...