19. feb. 2009

Molar

Vinkona mín bauð mér á sinfó tónleika í kvöld sem var mjög gaman, hef ekki farið í mörg ár. Kannaðist við bara nokkuð marga, þar af þrjá MH kennara sem mér fannst áhugavert í ljósi þess að ég hélt að það væri árshátíð hjá þeim í kvöld...

Svaf ekki í strætó í dag eins og ég geri venjulega, heldur fylgdist með fólkinu sem var bara nokkuð skemmtilegt. Þarna voru meðal annars trúboðar sem settust hjá fólki og ræddu við það. Löng strætóferð og engin undankomuleið :) Þetta virtust afskaplega ljúfir drengir, ég talaði reyndar ekki við þá sjálf en fylgdist með viðbrögðum fólks við þeim.

Pöbb quiz á morgun hjá vinnunni. Þarf að fara að lesa mér til um sögu Keflavíkur, er nokkuð viss um að spyrillinn komi með eitthvað úr sínum heimabæ.

Sakna litlu frænku minnar sem stækkar og stækkar í öðru landi án þess að ég fái nokkuð við það ráðið. Hún er orðin svo dugleg að skilja það sem er sagt við hana og gera sig skiljanlega. Þetta fullorðna fólk getur samt örugglega verið svolítið ruglandi. Vorum að tala við hana gegnum webcam um daginn og spyrja "Hvar er"... þetta og hitt. Spurðum svo "Hvar er Eyrún?" (hún heitir Eyrún) og hún togaði í eyrun á sér. Með öll skynfærin á hreinu.

Power napping virðist ekki virka nema maður fái nokkuð samfelldan svefn inn á milli. Hefði getað sagt mér þetta sjálf svosem. Ég virðist vera dottin í afar einkennilega svefnrútínu.

Ég er fegin að þekkja fólk sem talar um eitthvað annað en peninga og pólitík. Er nú að tala við vin minn á msn sem er að segja mér að sig langi til að vera albínói og láta dáleiða sig. Ekki dáleiddur sem albínói samt.

Mig langar allt í einu núna í sund. Það er gert ráð fyrir því að fólk langi til að versla í Hagkaup á öllum tímum sólarhringsins. Af hverju er ekki gert ráð fyrir því að fólki gæti langað í nætursund? Ætli maður fari þá ekki bara og svamli aðeins um í baðkarinu. Get farið í sundbol og hellt smá klór útí.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já og sundlaugar eru líka eitthvað sem er almennt vel heppnað á Íslandi, annað en okurbúllurnar sem er svo "skemmtilegt" að versla í. Þó ég eigi enn 30 miða kort í sundlaugar Reykjavíku keypt 2001 (16 ferðir eftir) styð ég heilshugar hugmynd um nætursund - er atvinnuskapandi og gott fyrir geðheilsuna að horfa á tunglið meðan maður flatmagar í pottinum.