16. feb. 2009

Uppvask

Ég mætti, eins og sumir, vera duglegri að vaska upp, en þegar ég kem mér í það finnst mér það ekkert leiðinlegt. Finnst þetta oft bara kósý ef ég þarf ekki að flýta mér á síðustu stundu áður en það koma gestir. Ég á pæjulega uppþvottahanska, vellyktandi fljótandi sápu og hlusta á tónlist á meðan ég dunda mér við þetta. Á tímabili gerði ég þetta við kertaljós en komst að því að leirtauið varð ekki alveg jafn hreint...

Nema hvað að um daginn lenti ég í því að allt sem ég vaskaði upp var útatað í svörtum klessum. Ég skildi ekki hvað það var sem hafði dreifst yfir allt óhreina leirtauið, hækkaði hitann á vatninu og setti meiri sápu og reyndi af fremsta merki að ná klessunum af. Þær voru klístrugar og erfitt að skrúbba þær af og mér fannst að því meira sem ég skrúbbaði því fleiri klessur kæmu. Ég var í margar mínútur með sama diskinn því í hvert sinn sem ég sneri honum við var komin nýr blettur. Loksins þegar hann var orðinn hreinn setti ég hann í grindina en þegar ég leit á hann þar var komin ný klessa og ég var handviss um að ég væri farin að sjá ofsjónir. Var alveg að verða vitlaus á þessu og skildi ekki neitt í neinu hvernig svörtu klessurnar gátu bókstaflega fjölgað sér á meðan ég var að vaska upp! Hélt jafnvel að þetta væri einhvers konar skæður myglusveppur. Ég var orðin rugluð og ringluð, gafst upp á þessu X-files vandamáli og var að taka uppþvottahanskana af mér þegar rann upp fyrir mér ljós.

Uppþvottahanskarnir pæjulegu eru nefnilega svartir með hvítum doppum. Þeir voru farnir að smita svörtu frá sér, því meira sem ég snerti leirtauið því meira klístraðist á það. Og ekki skánaði það eftir því sem vatnið hitnaði. Skil ekki hvað ég var lengi að fatta þetta. En ég hef ekki ennþá keypt nýja uppþvottahanska (vil fá einhverja flotta) þannig að núna er ég með rúsínuputta í uppvaskinu.

Engin ummæli: