19. jún. 2009

Skyndistefnumót

Yndislegur breskur vinur minn sem er búinn að vera lengi á lausu (fyrir utan ímyndað ástarsamband hans við Kylie Minogue) ákvað um daginn að prófa eitthvað nýtt og fara á speed dating kvöld. Hann er svona frekar afslöppuð týpa og hélt að þetta yrði bara tækifæri til að kynnast fólki, pínku fyndið og skemmtilega vandræðalegt enda ekki á hverjum degi sem maður á stefnumót við 30 konur sama kvöldið. Hann bjóst hins vegar ekki við því sem hann fékk - þrjátíu uppstrílaðar skvísur, vel undirbúnar með spurningalista, með eitt takmark: Að finna sér eiginmann. Ein spurði hann Ef þú værir ávöxtur, hvaða ávöxtur værirðu? Hann hváði og sagðist ekki vita hvernig hann ætti að svara þessu. Hann spurði hana sömu einkennilegu spurningarinnar á móti. Ég væri auðvitað ástaraldin (passion fruit), af því að ég er svo ástríðufull sagði hún og hló og fannst hún greinilega ofsalega sniðug. Hann sagði mér eftirá að sér hefði liðið eins og hann hefði fallið á prófi.

Mér finnst hugmyndin um skyndistefnumót ekkert sérstaklega aðlaðandi en hef stundum velt því fyrir mér að hverju ég myndi spyrja ef ég færi á svona kvöld. Ég kaupi það alveg að first impressions skipti máli og rannsóknir hafa sýnt að mat þitt á ókunnugum er ósköp svipað hvort sem þú eyðir 3 mínútum með þeim eða klukkutíma. Sem er auðvitað hugmyndin á bak við speed dating, að spara tíma. Mér finnst spurningin "hvað gerirðu" alveg brjálæðislega leiðinleg eins og ég hef áður sagt en það er samt algeng opnunarlína og auðvitað getur það sagt heilmikið um viðkomandi. Á Íslandi fer fólk síðan oftast út í "í hvaða skóla varstu/hverfi býrðu/þekkirðu þennan eða hinn?" En þarna er samt komið kjörið tækifæri til að vera pínulítið frumlegur. Mér fyndist t.d. gaman að spyrja "Ef þú dræpir mann, hvar myndirðu fela líkið?". Bara svona að sjá hvort viðkomandi færi að hlæja eða kæmist úr jafnvægi. Nú eða kæmi með eitthvað frumlegt svar...

Á netinu er að finna ýmsar hugmyndir að spurningum sem er mælt með að spyrja á svona stefnumótum. Sumar þeirra finnst mér afspyrnu lélegar eins og:

- Hvenær var síðasta samband þitt og hversu lengi varði það? (er þetta rétti tíminn til að ræða um fyrrverandi kærustur? )
- Trúirðu á ást við fyrstu sýn? (kannski rómantískt en mér finnst þetta pínu yfirþyrmandi spurning)
- Hvar sérðu þig eftir fimm ár? (mjög atvinnuviðtalslegt)
- Langar þig til að eignast (fleiri) börn? (jú mikilvæg spurning en kannski ekki málið að ræða barneignir á fyrstu þremur mínútunum)
- Hverju sérðu mest eftir í lífinu? (langar þig til að vita svarið? og værir þú tilbúin/nn til að deila þínu svari með ókunnugum?)

Mér fannst þessar betri:

- Hver er uppáhalds árstíminn þinn?
- Hvaða hlut sem þú átt heldurðu mest upp á?
- Lýstu fullkomnu sumarfríi.
- Hvaða geisladisk keyptirðu síðast?
- Hvað myndirðu gera við peningana ef þú ynnir í lottó?
- Ertu morgunhani eða nátthrafn? (kannski ekki mikill umræðugrundvöllur en fáránlega miklvægt)
- Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér?

Það er samt þvílíkt erfitt að svara svona spurningum upp úr þurru og reyna að koma með eitthvað spennandi svar (mitt helsta vandamál er að í svona streituvekjandi aðstæðum er mjög hávær rödd innra með mér sem öskrar SEGÐU EITTHVAÐ SNIÐUGT á meðan það er vandræðaleg þögn þangað til ég segi eitthvað mjög svo ósniðugt bara til að segja eitthvað). Þannig að kannski væri bara best að halda sig við "seif" spurningar eins og "hvað gerirðu í frístundum?" Ég held bara að ég myndi alltaf kjósa að spyrja einn mann þrjátíu spurninga frekar en að spyrja þrjátíu menn einnar fullkominnar spurningar. Veit þó um einn karlkyns (íslenskan) vin sem væri þessu pottþétt ósammála, enda heldur hann því statt og stöðugt fram að allir karlmenn myndu velja eina nótt með hundrað konum framyfir hundrað nætur með einni konu. En það er önnur saga.

8 ummæli:

Anna Pála sagði...

HAHAHA! Æðisleg ávaxtaspurningin!

Flissaði síðan yfir þessu með morgunhana eða nátthrafn þar sem ég er í mínu þriggjakrakkauppeldi, og því myndi ég pottþétt mæla með maka sem væri öfugt við þig, og það er MJÖG mikilvægt!!!

Ef maður ætti að vera ultrapraktískur og að hugsa um framtíðina myndi ég líka spyrja hvort væri alkohólismi eða geðveiki í ættinni, já eða tvíburar :-) og væri pottþétt forvitinn um hvort hefði verið í löngu sambandi áður þar sem það er jú mjög mikilvægt líka uppá reynslu, til að maður þurfi ekki að ala hann upp alveg frá grunni :)

Anna Pála sagði...

...já og svo er ég pottþétt jarðarber! Og voðalega kynorku hefur svo þessi vinur þinn! Ekki myndi ég vilja svona marga kalla á einu kvöldi, frekar subbulegt eitthvað, er frekar sannfærð um að margir karlmenn eru sammála mér þó þeir yrðu kannski ánægðir með 2-3 :-)

Nafnlaus sagði...

Það er gott að byrja föstudag á á hlæja upphátt í opnu vinnurými á skrifstofunni. Sem og útskýra innihald færslunnar fyrir áhugasömum á Kvennréttindadeginum 19. júní!

Ég er sammála þessu með praktísku hliðina á málinu og myndi örugglega vilja vita um leiðinleg "grunnatriði" eins og barneignir og 5 ára planið ef ég hefði 3 mínútur og væri að leita mér að hjónabandi. Það er slæmt ef síðar meir kemur upp úr krafsinu að viðkomandi hafi alltaf séð sjálfan sig búa í Afríku með 5 konur og ekkert rafmagn, hita eða rennandi vatn. Persónulega ekki fyrir mig.

Annars myndi ég fela lík í hrauninu á Suðunesjum og er og mun alltaf vera pera ;)

kv,
Hildur

Gummi sagði...

Mér finnst svo mikið af þessum spurningum atvinnuviðtalslegar. Ætti maður ekki bara að fara alla leið og spyrja: "Nefnu þrjá helstu kosti og ókosti þína og hvernig þeir hafa áhrif á þig?" Nótera hjá sér allan tímann og bjóða síðan brúðkaup eins og vinnutilboð.

Eða bara svara öllum spurningum syngjandi eins og Aaron Neville: "I don't know much, but I know I love you. That may be all I need to know."

Annars hittust Kolla (stóra systir) og Steven (eiginmaður hennar) á hraðstefnumóti. Leiddi af sér Ólíver. Getur ekki verið alslæmt. :)

Nafnlaus sagði...

Múhahahaha... vá hvað þetta er fyndin færsla. Snilli!

Soffía

Sólrún sagði...

Humm já ég skil að í barnauppeldi geti það verið gagnlegt að hafa maka sem er hressari á öfugum tímum sólarhrings en maður sjálfur. Ég var að hugsa til para þar sem þetta veldur vandræðum þegar kemur að því að búa börnin til.

Þetta var ekki alveg nógu vel útskýrt hjá mér með kynóða vininn, hann var að meina eina nótt per konu að ég held alveg örugglega, en ekki hundrað konur á sömu nóttunni :)

Langflestir þeirra (Íslendinga) sem ég hef spurt segjast mundu fela líkið í hrauni, þetta hlýtur að vera eitthvað menningarbundið. Nú eða það að ég þekki fáa sem eiga frystikistu.

Vissi ekki að Kolla og Steven hefðu kynnst í speed dating, það er greinilega eitthvað vit í þessu :) Virkar örugglega vel í svona bandarísku deit-samfélagi.

Já þetta er erfitt, að finna milliveginn milli praktísku "viljum við fá það sama út úr lífinu" hliðarinnar og þess að ástríður a la Aaron Neville sé það sem skipti höfuðmáli.

Anna Pála sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Anna Pála sagði...

Já ein kvensa á dag hljómar mun skár en þessi örugglega bara performance anxietyvekjandi Annabel Chong-lega fantasía!

Já og svo með A og B manneskjurnar er fínt að nota hádegishléin í vinnunni til að brjóta skemmtilega upp daginn (þú þyrftir þá kannski að deita Selfyssing eða nærsveitarmann). Svo er eftirmiðdagssex voða skemmtilegur barnlausaparslúxus, já og svo er alltaf þarna gluggi milli 20 og 21.15 þangað til morgunhaninn fer að geispa og vera værðarlegur :-)