Ég er svo heppin að eiga töluvert mikið af stórkostlegum vinkonum og þótt við ræðum reyndar um allt milli himins og jarðar (og stundum um geiminn) berst talið oft að karlmönnum. Vissulega er talað um tilfinningar og nákvæmlega hver sagði hvað hvenær og hvað hann var raunverulega að meina þegar hann sagði "sjáumst seinna" eða eitthvað álíka sem er alveg banalt að velta sér upp úr. En við höfum líka stundum þann slæma (en afar skemmtilega) ósið að hlutgera karlmenn. Úff þetta hljómar eiginlega alveg skelfilega þegar ég byrja að skrifa þetta enda yrðum við örugglega brjálaðar ef það væri talað svona um okkur... en þetta er allt í gamni gert og dómarnir sem falla eru yfirleitt ekki eingöngu byggðir á ummáli framhandleggsvöðva eða öðrum ytri einkennum. Og svona til að fyrirbyggja misskilning verð ég að taka það fram að þetta er allt auðvitað í gamni gert. Jæja, here goes...
Til dæmis er það íslenski listinn sem er ekki ósvipaður íslenska tónlistanum þar sem menn detta út og inn af topp tíu miskunnarlaust. Svo er auðvitað hástökkvari vikunnar/mánaðarins/ársins eftir því hvað listinn er uppfærður oft. Tekið skal fram að listinn er gerður á einstaklingsgrundvelli og hver og einn ákveður eigin kríteríu. Það er til langur listi af reglum um listagerð en það yrði of pínlegt að birta þær hér, enda byrjaði þetta sem einkahúmor fyrir löngu síðan þegar því var haldið fram að sjórinn væri tómur af fiskum.
Svo eru það ýmsir leikir eins og "X, Y og Z, hverjum myndirðu henda fram af kletti/giftast/sænga hjá". Þessi er frekar brútal og hægt að skipta út "henda fram af kletti" fyrir "fara á kaffihús með". Ein sem ég þekki kann afar illa að meta þennan leik og vildi henda öllum fram af kletti eða þá sjálfri sér ef það væri ekki hægt.
Síðan er það eitthvað sem ég þekki reyndar ekki mikið en það er að dæma karlmenn eftir árgöngum, ekki ósvipað vínum. Þekki eina sem mælir t.d. mikið með '73 árgangnum og hrósar honum í hástert. Sjálf hef ég haldið mig við svona '76 -'82 árgerðirnar en hef aldrei svo mikið sem verið hrifin af (svo ég muni eftir) einhverjum fæddum '70-'75 þótt ég þekki síðan ágætlega til sextíuogeitthvað rekkans. Mér var svo bent á um daginn að strákar svona í kringum tuttugogþriggjaaldurinn væru óplægður akur. Veit ekki hvort þessar pælingar tengist eitthvað kínversku stjörnumerkjunum, það er spurning.
Ég gæti nefnt fleiri atriði en ætla að sleppa því hér. Auðvitað er þetta svo eins og áður sagði allt í nösunum á okkur og þótt einhver lýsi draumaprinsinum sem hávöxnum dökkhærðum græneygðum hægrisinnuðum stjórnmálafræðingi fæddum 1973 með tungl í sporðdreka er hún allt eins líkleg til að enda með litlum rauðhærðum jafnaðarmanni fæddum 1984 því ástin er hverful, diskó, blindfull og ófyrirsjáanleg. Sem betur fer.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
3 ummæli:
hahahaha...ohh ég þorði eiginlega ekki að lesa þetta því "listarnir" eru nú eiginlega aldrei ræddir nema þegar komið er í glas og þá er manni alveg sama hvað öðrum finnst.
Fannst þessi setning best "dómarnir sem falla eru yfirleitt ekki eingöngu byggðir á ummáli framhandleggsvöðva eða öðrum ytri einkennum"...svona þar sem við höfum við lítið annað að styðjast í flestum tilvikum.
Verð þó að segja að vinur minn viðurkenndi fúslega að hann og aðrir hefðu alltaf verið í svona "leikjum" (og eru hugsanlega ennþá) og það fór furðulega lítið fyrir brjóstið á mér þó ég hefði nú haldið annað. Kannski vilja allir secretly að talað sé um þá yfir bjórglasi?
kv,
Hildur
Iss, þetta gera allir :) '76 árgerðin virðist einmitt era í sérstöku uppáhaldi hérna megin ;)
He he já Hildur þetta var svona aðeins ritskoðuð útgáfa - ég var ekkert að fara út í "veldu fimm" sem byggist auðvitað aðallega á hot-or-not ;) Já Þóra svo er það spurning hvort sumir árgangar renni ljúfar niður saman en aðrir, '78 og '76 blandan er greinilega að virka hjá þér :)
Skrifa ummæli