11. jún. 2009

Brúðarmær á balli

Þegar ég var lítil stúlka óskaði ég þess afar heitt að verða brúðarmær. Af einhverjum ástæðum fannst mér það afskaplega heillandi hlutverk og fylgdist grannt með ástarmálum frænda og frænkna, líklegra kandídata sem gætu valið mig til verksins. En allt kom fyrir ekki og á unglingsárunum sætti ég mig við að brúðarmeyjardraumurinn yrði sennilega aldrei að veruleika.

Eftir ársdvöl í Kanada tók nýr draumur við. Að fara á prom, amerískt lokaball. Ég las endalaust af unglingablöðum sem fjölluðu um þennan að því er virtist hápunkt unglingsáranna í vesturheimi. Íslenskar árshátíðir stóðust ekki samanburðinn og ég lét mig dreyma um síðan ballkjól og uppsett hár og limósínu og deit til að labba inn á ballið með. Það var ekki fyrr en um tvítugt að ég sætti mig við að því hefði ekki verið ætlað að verða.

Það var síðan í byrjun árs 2007 að bandarísk stelpa sem ég kynntist í Brighton hafði samband við mig og óskaði eftir að ég yrði brúðarmær í brúðkaupinu hennar í mars í New York. Hún var komin með þrjár, systur sína, frænku og loks bestu vinkonu og langaði að hafa eina vinkonu enn sem væri þarna "fyrir Bretlands hönd" þar sem unnustinn var breskur og þau höfðu kynnst þar. Ég sló til og þetta var algjör draumur í dós. Bæði innra barnið og unglingurinn voru himinlifandi með pínulítið hallærislega en ofsafína kjólinn (sem tók reyndar forever að fá úr Tollinum, var sendur hingað í mátun), púffhárgreiðsluna (ekki að eigin vali) og brúðarsveininn sem ég fékk sem deit (var reyndar með mitt eigið deit í veislunni en labbaði með brúðarsveininum inn og út kirkjugólfið).

Ég hef ofsalega lítið samband við þessi frábæru brúðhjón í dag en þessi upplifun var bara eitthvað svo óvænt og skemmtileg og öðruvísi. Rakst á myndir úr veislunni í gær og mundi eftir þessu og langaði að skrifa smá um þetta til að rifja upp góðar stundir. Hér er mynd sem er tekin í limmónum með brúðarmeyjum og -sveinum, nýbúið að opna kampavínið. Ekkert sérstök mynd en lýsir stemningunni vel. Það sést í mig þarna í móðu aftast skælbrosandi. Viðeigandi, enda er minningin hálf móðukennd.




Mér finnst gaman að ímynda mér að það sé einhver þarna úti sem hjálpi okkur stundum við að uppfylla hversdagslegar óskir og þrár. Hvort sem það er einhver örlaganorn eða töfradís eins og í ævintýrunum, karmalöggan eða guð sjálfur að sortera tölvupósta eins og í myndinni Bruce Almighty. Skildi reyndar ekki alveg af hverju hann gat ekki ráðið einhverja verkefnisstjóra til að aðstoða sig, varla nenna allir að spila á hörpu eða blása í lúðra. En jæja, ég er semsagt ekki að meina þessar "stóru" óskir eða bænir eins og um heimsfrið, lækningar eða icesave. Vona samt að það sé einhver að hlusta á þær líka :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Myndin er frábær og lýsir stemmningunni eins og hefði haldið að hún væri sem best.

Ég fékk að "upplifa" prom um daginn þegar ég var í Boston þar sem eitt þannig ball var haldið á hótelinu okkar. Því miður var það mjög "unglingaþátta"-legt þar sem einhver hefur augljóslega hellt einhverju í púnsinn í fyrirpartýinu. Kjólarnir voru líka flestir óþægilega stuttir og maður fékk hroll yfir öllum businessmönnunum á barnum sem slefuðu yfir litlu stelpunum á leiðinni inn í salinn.

Þó var yndislegt augnablik þegar ein stelpa í gullfallegum hvítum og bláum (næstum því brúðar-) kjól kom inn í andyrið. Þá trúði maður á drauminn sem helltis yfir mann í gegnum 90210 og fleiri mjög svo mikilvæga áhrifavalda sjónvarpsins.

kv,
Hildur