Eftir margra mánaða hunsun á báða bóga hringir Útlendingurinn í mig á laugardagsmorguninn.
Já… sæl… segir hann vandræðalega (enda hef ég ekki heyrt í honum í síma í marga mánuði ef talhólfið hans er undanskilið sem við skulum ekki fara nánar út í). Það er svolítið sem ég þarf að ræða við þig um (tek líka fram að hann segir þetta allt að sjálfsögðu á ensku, enda takmarkast íslenskur orðaforði hans við já, nei, kannski, takk, húsamús, naflakusk og auk þess eitt orð sem er ekki prenthæft).
Hjartað tekur kipp, það er í raun ótrúlegt hvað er hægt að hugsa mikið á nokkrum sekúndum, að minnsta kosti var ansi margt sem flaug gegnum hugann áður en hann kom sér að efninu. Hann ætlar að segja mér að hann sé kominn með nýja kærustu, hugsa ég og fæ smá sting í magann, og þau eiga von á barni… þríburum… og… og…
Hér grípur rökhugsunin inn í… Nei bíddu hann færi aldrei að hringja í mig til að segja mér þetta...
Nú jæja, hann ætlar að segja mér að hann sé ennþá ástfanginn af mér hugsa ég næst og fæ ennþá meiri sting í magann. Að hann sé búinn að sakna mín óendanlega og geti ekki lifað án mín, að hann ætli að flytja til Íslands og..og… og hvað á ég að segja við því… er næsta hugsun, en þarna er ég farin að engjast um af magakvölum.
Það snýst um íslenska efnahagsástandið, segir Útlendingurinn alvarlegur í bragði. Það er allt að fara til fjandans þarna hjá ykkur.
Já ég veit, svara ég og stingurinn dofnar þrátt fyrir að ég finni ennþá fyrir honum, og við tölum saman í einn og hálfan tíma um íslenska hagkerfið og umfjöllun breskra fjölmiðla og endum á því að veðja um hvort Kaupþing fari á hausinn fyrir eða eftir miðnætti á þriðjudaginn.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli