Einn af fjölmörgum kennurum í mínu lífi var um daginn að lesa sögu fyrir yngstu börnin sem áttu síðan að teikna mynd upp úr frásögninni. Í sögunni kom fyrir kona sem var að steikja kleinur. Umræddur kennari gekk síðan á milli og skoðaði myndirnar hjá krökkunum, sem teiknuðu flestir hringi í gríð og erg. Hvað á þetta að vera? spurði kennarinn hvumsa og áttaði sig ekki alveg á þessum abstrakt verkum nemenda sinna. Nú auðvitað kleinuhringirnir! svöruðu börnin.
Kleinuhringir voru einmitt stuttlega til umræðu í kvöld í saumaklúbbnum þar sem ein sagði okkur frá því þegar hún reyndi að sannfæra hina um að kleinuhringir væru sérlega heilsusamleg fæða með lágu kaloríuinnihaldi. Ég get alveg skilið þau rök, ég meina það er stórt gat í miðjunni sem er væntanlega alveg fitusnautt!
Þessar pælingar minntu mig aftur á hin fjölmörgu eldhústæki sem eru til á heimili mínu og nánustu fjölskyldumeðlima. Við tókum nefnilega smá tímabil og sönkuðum að okkur "sniðugum" eldhústækjum, eins og mini-kleinuhringjavél og mini-djúpsteikingarpotti (sem er vel varðveittur inni í skáp hjá mér og myndi duga til að steikja ca. 2 kleinur). Spurning um að setja þetta á tombólu með fótanuddtækinu en ég á mjög erfitt með það, enda sé ég alveg fyrir mér að það komi sá tími að mig muni langa til að bjóða upp á mini-kleinuhringi í kaffinu (af því að ég er einmitt alltaf að baka og bjóða fólki í kaffi...)
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
3 ummæli:
ég skal kaupa af þér fótanuddtækið :)
He he ég held aktúallí að við eigum ekki fótanuddtæki, vantaði bara e-ð useless tól sem dæmi :) en við eigum sódastream, hefði kannski átt að nota það frekar. Færðu ekki bara Gunnar til að nudda á þér lappirnar sæta? En ég er góð í fótanuddi, skal alveg sýna þér einhverntíman í sárabætur fyrir fótanuddtækisleysið :)
(jú Gunnar nuddar á mér lappirnar. Endalaust gott :) )
Skrifa ummæli