Var að fara gegnum gamlar kasettur hjá mömmu og pabba og fann fullt af gömlum og næstum-gleymdum fjársjóðum sem ég fékk lánaða með mér heim. Fyrst ber að nefna Smjattpattar: Söngvar og sögur (1984), algjört æði! Smjattpattar burt flúðu fljótt, í frelsisleit um miðja nótt...(þvílíkt skrall annars alltaf hreint á þessum Smjattpöttum). Finnst alveg merkilegt ég man ekki hvar ég setti lyklana mína (búnir að vera týndir núna í tvo daga) og get aldrei munað hvar ég lagði bílnum, en ég get sungið textann við Banana-rokk aftur á bak og áfram þrátt fyrir að hafa ekki heyrt hann í örugglega meira en 20 ár.
Síðan er það meistaraverkið Sagan af vaskafatinu og fleiri sögur (1983). Ég gat hlustað á þessa spólu út í eitt sem krakki, hún kom mér alltaf í gott skap og ég hló og hló og hló að sögunum. Mamma kom að mér áðan í kasti yfir bara að lesa titlana(hún kallar þetta vitleysissögurnar). Hún horfði á mig skringilega meðan ég frussaði út úr mér Tíkó tíkó og prumphænsnið! og grenjaði úr hlátri. Húmorinn alltaf jafn þroskaður hjá manni... Fyrir þá sem kannast við þetta eru aðrar sögur á spólunni meðal annars Lásý og fótbrotna hænan, Ævintýrið um ólapól og Kishildur María Snúlla. Snilld!
Þori samt varla að hlusta á spólurnar af ótta við að lögin og sögurnar missi eitthvað af sjarma barnæskunnar og nostalgíunni. Hef áður gert uppgötvanir um að sumt sé ekki alveg jafn ótrúlega mikið meistaraverk og ég hélt. En annað stenst algjörlega tímans tönn og ég hugsa að ég láti á það reyna með Lúlla lauk og prumphænsnið. Verður fínt að hlusta á þetta á leiðinni yfir heiðina í vikunni.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli