Ég fór á tónleika í síðustu viku sem voru frábærir að öllu leyti nema hvað sætið mitt var yst hægra megin í salnum og sætið hennar mömmu yst vinstra megin í salnum röð ofar. Þetta var semsagt rúlla af boðsmiðum og einhver ekki fattað að sæti 4:21 og sæti 5:01 væru ekki hlið við hlið eins og sjálfsagt hefur verið ætlunin...
Kannaðist svo við einn hljóðfæraleikarann, myndarlegan pilt sem stóð sig mjög vel, en mundi ekki alveg hvaðan ég þekkti hann. Fattaði svo allt í einu að um var að ræða strák sem ég kenndi einu sinni, og fannst ég vera orðin algjör kelling (af því að þetta voru sko fullorðinstónleikar, en ekki svona efnileg unglingahljómsveit).
Hef ákveðið að taka jólin snemma í ár og listi yfir topp 5 uppáhalds jólalögin mín birtist því von bráðar. Jólin eru nefnilega í miklu uppáhaldi hjá mér, en mér finnst undirbúningurinn eiginlega skemmtilegri en jólin sjálf (ef til vill meira um það síðar). Finnst um að gera að teygja bara úr tilhlökkuninni. Ég frábið mér þess vegna allt nöldur um að það megi ekki byrja að hlakka til jólanna fyrr en í desember. Það hlýtur að vera mönnum bara í sjálfsvald sett hvort þeir byrja að hlakka til á Jónsmessu eða Þorláksmessu eða einhvers staðar þar á milli. Enda er nóg um tuð yfir hinu og þessu þótt það sé ekki verið að tuða yfir því að fólk sé í of góðu skapi of snemma. Svo er ég víst farin að tuða yfir tuðinu núna. Arg!
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
2 ummæli:
Ég styð það alveg að hlakka til jólanna snemma. Við ættum að stofna aðdáendaklúbb jólanna. Ég er samt alltaf mjög léleg í þessum undirbúningi, jólagjafir, jólakort, bakstur og skreytingar. Það endar yfirleitt með því að ég sleppi þessu öllu nema jólagjöfunum á síðustu stundu. En ég er alltaf með svona framtíðarsýn að einn daginn verði ég alveg rosalega myndarleg í þessu öllu saman...bara spurning hvort það verði næstu jól eða jólin eftir 10 eða 20 ár...
Freyja við stefnum bara á jólaaðdáendaklúbb fyrir jólin 2009... spurning hvað við náum að gera mikið samt þar sem það verða líka fyrstu beibí jólin þín :D Eigum þetta samt vonandi eftir eins og þú segir eftir 5, 10, 20 ár... :)
Skrifa ummæli