13. jún. 2006

Fótboltamanía



Geri ráð fyrir að HM í fótbolta hafi ekki farið framhjá neinum. Fréttir eins og þessi eru til dæmis algjör snilld.

Þeir eru alveg svakalega æstir yfir þessu Englendingarnir, annar hver bíll með enska fánann út um gluggann, flestir pöbbar og veitingastaðir með HM tilboð og risaskjái og svo virðist sem hver einasta búð selji HM varning - ég keypti Englands derhúfuna mína í bókabúð. Í fréttunum er svo ekki talað um annað en hvort Wayne Rooney verði búinn að jafna sig að meiðslum eða ekki. Í síðustu viku fór allt að helmingur hvers fréttatíma í þess háttar pælingar, viðtöl við alla sem gætu mögulega haft skoðun á málinu, myndir af Rooney þar sem hann var að fara að hitta lækninn og ég veit ekki hvað og hvað. Nú er spurningin víst ekki hvort heldur hvenær hann spilar. Mikið drama.

Okkur var boðið í heimsókn að horfa á fyrsta leik Englendinga á laugardaginn til vinar Útlendingsins. Á leiðinni mátti alls staðar sjá æsta Englendinga með fánaskikkjur, andlitsmálningu og sumir búnir að lita á sér hárið í fánalitunum. Vinurinn bauð um 20 vinum og kunningjum heim til sín að horfa á leikinn á risaskjá með sérstökum innbyggðum hátölurum í lofti og veggjum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo er hann nýkominn með HD, high definition skarpari mynd dæmi og gat ekki hætt að dásama kosti þess. Mér fannst bara hálf ógnvekjandi að geta séð hvern einasta svitadropa á enninu á Beckham og held að ég haldi mig bara við 14 tommu fermingjarsjónvarpið mitt í bili.


Ég upplifði hálfgerða íslenska júróvisjónstemningu í þessu fótboltapartýi. Allir svo handvissir um að England muni sigra HM eða að minnsta kosti komast í úrslit. "Við erum laaaangbestir, miklu betri en Þýskaland og getum alveg unnið Brasilíu á góðum degi". Svo átti að "rústa" Paragvæ með "að minnsta kosti 5 mörkum". En þetta eina mark leiksins var sjálfsmark Paragvæ á 4. mínútu og hálfdauft í Englendingunum eftir það. Greyin. En Rooney er markakóngurinn þannig að þeir eiga vonandi eftir að taka sig á.

Sjálf fylgist ég grannt með liði Ítalíu enda er leikmaður 11 (Alberto Gilardino) ansi snotur og snoppufríður eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Engin ummæli: