13. jún. 2006

Tvöföld skilaboð

Var að horfa á Opruh í gær þar sem umfjöllunarefnið var sjálfsmynd ungra stúlkna og jafnvel barna. Þarna var verið að sýna stelpur allt niður í þriggja, fjögurra ára sem höfðu áhyggjur af útlitinu og verið að benda á að mömmurnar væru alltaf að tala um hvað þær væru ljótar og feitar fyrir framan börnin. Svo hófust þessar dæmigerðu umræður um áhrif og þrýsting fjölmiðla og hvað væri hægt að gera. Allt í lagi með það nema hvað í auglýsingahléinu var helsta auglýsingin frá fyrirtækinu Transform sem sérhæfir sig í fitusogi og öðrum lýtalækningum sem munu "breyta lífi þínu til hins betra". Síðan komu fleiri spjallþættir sem ég sá með öðru auganu, margir að tala um e-ð svipað, óléttar unglingsstúlkur með lélegt sjálfsálit og þess háttar - og alltaf komu svipaðar auglýsingar, mynd af óánægðri konu sem var svo sýnd brosandi með stærri brjóst. "Feel bad abour yourself? Change your life, have plastic surgery!" Örugglega rétti auglýsingatíminn fyrir þeirra markhóp en mér fannst þetta samt einhvern veginn öfugsnúið og pínu sorglegt. Er ekki á móti lýtaaðgerðum í sjálfu sér en finnst þær ekki endilega vera rétta lausnin við lélegu sjálfsmati, enda voru stelpurnar í þáttunum alveg gullfallegar þótt þær væru grenjandi yfir hvað þær væru ljótar. Þekki reyndar lýtalækni sem heldur því fram að Botox sé langbesta lausnin við þunglyndi en það er önnur saga...

Mér fannst sjálfri hálfskondið um daginn að hlusta á samtal nokkurra múslimakvenna um hvort þær væru feitar eða ekki. "Hún sagði að ég væri feit" sagði ein. "Þú ert sko ekki feit", sagði önnur, "ég myndi segja þér ef þú værir feit". Mér fannst þær vera í svo stórum og víðum kuflum að það væri ekki á nokkurn hátt hægt að segja til um vaxtarlag þeirra. En "feit og ljót" er víst áhyggjuefni kvenna um allan heim.

Ég ákvað í gær að njóta þess að vera nafnlaus í stórborginni og skundaði út í Marks og Spencers að kaupa mjólk rétt fyrir lokun í feituljótu náttfötunum mínum - og var næstum því alveg sama :)

Engin ummæli: