31. maí 2006

Meet the parents

Í fyrradag hitti ég móður Útlendingsins í fyrsta sinn. Var óvenju stressuð og svaf illa nóttina áður, því ekkert mátti fara úrskeiðis í mínum huga. Nú skyldi skrúfað frá sjarmanum af fullum krafti. Var nokkrum dögum áður búin að ákveða að velja pils og laxableikan blúndubol sem mér fannst vera kvenlegur og klæðilegur, svona (ísl)ensk blómarós fílíngur. Svo varð allt að vera í stíl, bleikir sokkar, bleikur augnskuggi, bleikur varalitur, bleikt naglalakk og bleikt sjal. Blés á mér hárið (sem ég geri mjöööög sjaldan), setti upp glossið og var nokkuð sátt við árangurinn tveimur og hálfri mínútu í brottför.

“Ta-da!” sagði ég við Útlendinginn sem varð hálf hissa á svipinn þegar hann sá mig.
“ Þú... þú varst svo sæt í þessu þarna... græna.... sem þú varst í í gær” stamaði hann. “Viltu ekki máta það?” Gat verið! Maðurinn sem skiptir sér aldrei af því í hverju ég er er allt í einu með skoðanir, hugsaði ég. Svo fór allt á stað í kollinum á mér. Ætli ég sé feit í þessu bleika? Ætli mamma hans þoli ekki bleikt? Það er ekki eins og lautarferðaroutfittið hafi verið svona hot. Sá mér loks bregða fyrir í stofuspeglinum og áttaði mig á því að blómarósin var orðin ein stór tyggjóklessa með kandífloss. Þannig að ég skipti um bol og sokka og klessti á mig grænum augnskugga sem var reyndar ekki gott múv. Púff.

Við rétt náðum lestinni og þá varð ég fyrst stressuð. Var búin að gera dauðaleit að handbók um enskar kurteisisvenjur við svona aðstæður án árangurs (það ætti einhver að gefa út “The Idiot´s Guide to meeting English Parents”). Á maður að heilsa með handarbandi, kyssa (og þá á aðra kinn eða báðar) eða faðma? Þúun eða þérun? Skírnarnafn, eftirnafn eða “mamma og pabbi”? Hjálp!

En að sjálfsögðu var mamman indæl (enda er Útlendingurinn vel heppnaður og þekkt að fjórðungi bregður til fósturs). Ég sagði plís, þeink jú og lovlí í öðru hvoru orði og brosti svo mikið að mér er ennþá illt í kinnunum. Notaði hvert tækifæri til að vera sammála og láta í ljós sameiginleg áhugamál og skoðanir (Harry Potter, sálfræði, andúð á háum hælum) og þagði ef ég var ósammála (um Jung, sápuóperur, te og kaffi). Hún hringdi í mig daginn eftir til að ræða um heima og geima þannig að ég held að þetta hafi bara gengið vel. Nú er ég bara hrædd um að ég hafi spilað þetta aðeins of vel og að ég geti aldrei sýnt mitt rétta andlit án þess að hún verði fyrir vonbrigðum. Þá er bara um að gera að fara að þjálfa herðatréð í munninum...

Engin ummæli: