25. jún. 2010

Fertugsaldurinn - fyrsti sólarhringurinn

Afmælisdagurinn búinn og annar í afmæli að kvöldi kominn svo það er ekki laust við að það sé aðeins að leka úr manni loftið, sem og úr helíumblöðrunum sem ég keypti fyrir veisluna. Skil nú samt ekki hvernig viðmiðið getur verið að það komist 30 blöðrur í fólksbíl, ég var í stökustu vandræðum með að koma 18 blöðrum inn í bílinn (en vegfarendur skemmtu sér aftur á móti konunglega við aðfarirnar).

Veislan var algjör draumur í dós, grilluð garðveisla með sjóræningjaívafi. Af um 50 fullorðnum og 20 börnum mættu að minnsta kosti 15 sjóræningjar, einn kúreki og einn indíáni :) Ef ég hefði ekki verið svona spennt hefði ég verið hágrátandi allt kvöldið yfir því hvað ég á gjörsamlega ótrúlega yndislega fjölskyldu og vini og hvað ég er ofsa glöð og þakklát fyrir það. Ég held að sambönd mín við Selfoss (Veðurguðirnir), sætustu veðurfréttaskvísuna í bænum og starfsmannastjóra Veðurstofunnar hafi stuðlað að því hvað ég var einstaklega heppin með veður, þetta hefði orðið töluvert öðruvísi dagur í grenjandi rigningu eins og var í dag. En stundum gengur allt upp eins og maður hefði óskað sér og það var svei mér þá svoleiðis dagur í gær.

Bauð nokkrum fyrrverandi flames og kærustum enda allt í góðu og langur tími síðan og lítið land og allt það. Menntaskólakærastinn sendi mér reyndar sms og spurði hvort ég hefði nokkuð boðið sér óvart :) Sem var ekki, ég var glöð að fá hann í veisluna en ég er ekki viss um að ég hefði boðið honum ef ég hefði ekki verið í svona ofsa miklu hamingjustuði þegar ég bauð, var búin að bjóða 130 facebook vinum þegar ég þurfti að hætta... hefði viljað bjóða öllum sem ég þekki en það hefði líklega ekki verið skynsamlegt.

Ég hafði ekki almennilega tíma til að skoða gjafirnar fyrr en í morgun og mér eiginlega brá, þær voru svo flottar. Er núna vel útbúin til ferðalaga í gönguskóm og cintamani peysu, svo fékk ég frábæra blöndu af alls konar frábæru eins og æðislegt skvísudót, gjafabréf, bækur, vín, súkkulaði, kaffi, rúmföt, málverk, inneign í ísbúð og gEggjaðan eggjaskera! svo ég telji nú bara upp sumt.

Í miðri veislunni birtist síðan eldri maður með ofsalega fallegan rósavönd og rétti mér. Gat engan veginn komið honum fyrir mig og fékk flassbakk í ferminguna mína þegar það mætti nokkuð af af eldra fólki sem ég þekkti ekki neitt sem kleip í kinnarnar á mér og óskaði mér til hamingju. Fannst þó skrýtið að mamma og pabbi hefðu boðið einhverjum fjarskyldum frænda í veisluna án þess að láta mig vita. Vildi samt ekki vera dónaleg og heilsaði manninum kumpánlega. Hann rétti mér vöndinn og sagðist hafa átt að koma honum til skila frá Dögg í Hafnarfirði. Ekki var það betra, ég þekki enga einustu Dögg og þekki bara mjög fáa í Hafnarfirði yfirhöfuð. Ætlaði að fara að segja að hann hefði farið mannavillt en því var svo hvíslað að mér að það væri nafnið á blómabúð - þetta var þá frá vini mínum sem komst ekki í veisluna. Varð alveg extra glöð að fá blóm frá karlmanni, veit að það er algjör klisja en mér finnst það samt voða gaman.

Annars held ég að það hafi ekkert breyst við að verða þrítug nema hvað ég var heldur skynsöm svona seinni part kvölds þegar fjör fór að færast í leikinn. Það er ekki alltaf gaman meðan á því stendur en gleðilegra daginn eftir aftur á móti. Mjög fullorðins. Það er því eitt núll fyrir fullorðnu frökeninni á móti hvatvísa táningnum.

Engin ummæli: