27. jún. 2010

Sú íslenska

Ég fékk miða um lúguna á föstudaginn um að það biði mín erlend bréfasending. Er spennt að sækja pakkann á morgun því ég á ekki von á neinu en grunar að það sé mögulega sending frá Mr Big/Útlendingnum/Herra heila. Ætla svosem ekki að gera mér neinar vonir, hann er einmitt á fyrrgreindum bannlista.

Heyrði í honum í gær og þegar hann nefndi Sófí vinkonu sína á nafn í fjórða sinn þá fékk ég hnút í magann - hann er hrifinn af henni, ég finn það á mér. Sófí er tuttugogfimmára, vinnur hjá bókaforlagi, er áhugaleikkona og kemur fram sem uppistandari. Ákvað að segja ekki neitt, en fletti henni upp á facebook og hnúturinn stækkaði bara þegar ég sá hvað hún var sæt. Sem er fáránlegt, því það eru þrjú ÁR síðan við hættum saman, það ÉG sem vil ekki vera með honum (af góðum ástæðum) og mér þykir endalaust vænt um hann og vil að hann sé hamingjusamur.

Án þess að vita neitt um hvað sé á milli þeirra - þetta var bara tilfinning - áttaði ég mig á því að ég væri komin í hlutverk sem mér er mjög illa við. Útlenska fyrrverandi kærastan.

Þegar við vorum saman átti Mr. Big nefnilega í MJÖG góðum samskiptum við fyrrverandi kærusturnar sínar, þótt hann hafi ekki verið (svo ég viti til) að halda framhjá. Þá er ég að tala um sú frá Malasíu hringdi í hann reglulega til að grenja yfir einhverjum tilfinningakrísum (frá Malasíu), hann fór með þeirri þýsku í leikhús (á sýningar sem mig langaði til að sjá) og hann fékk Valentínusarkort frá þeirri kínversku. Þessi ítalska mætti í heimsókn í vinnuna til hans og þessi frá Kólumbíu hringdi full á nóttunni. Sú skoska var eini vinur hans á myspace og hann sagði mér frá undarlegum draumum sem hann átti um þá spænsku og þýsku númer 2. Það var helst sú kanadíska sem lét hann í friði.

Nú er ég ef til vill að verða sú íslenska sem hann sendir pakka á afmælisdaginn. Aumingja Sófí.

3 ummæli:

Anna Pála sagði...

KRÆST! Þvílíkt fyrrverandikærustustóð! Og þvílíkt ofaní honum! Ég kalla þig nú bara góða að hafa þolað þetta í einhvern tíma! Sé mig ekki í anda meika þetta heil á geði ég get svo svarið það... Ekki með mína afbrýðisemi á við tíu franska eiginmenn og tíu ítalskar eiginkonur! Já þannig að ég skil alveg að þú hafir fengið smá abbókast.

Sumt fólk myndast samt rosa vel en er samt bara ekki fallegt svona in real life, eða þegar það opnar munninn :) Það er örugglega svoleiðis með þessa Sófí, sem er að öllum líkindum ofsalega andfúl eða hrýtur ofsalega!

Er frekar heppin með hann Bödda minn að þessu leyti, því síðustu ex-ur voru í Svíþjóð þar sem hann bjó og því ekki mikil hætta á að rekast á þær. Hann þegir líka þunnu hljóði um fyrrverandi þó ég hafi nú á sínum tíma reynt að toga eitthvað uppúr honum. Hef komist að einhverju annars staðar um þær íslensku, bæði óvart og viljandi, sem gerði mig ekkert hamingjusamari (ein sem sagt afreksíþróttakona með sixpack dauðans og hin ofsafallegt brúneygt náttúrubarn) þannig að hann fær bara stórt prik fyrir þessa þagmælsku kallinn, bæði fyrir að vera respectful við þær að vera ekki að blaðra um þær, og að vera ekki að plaga mig með kærustusögum sem hann veit mjög vel að myndu ekkert gleðja mig :)
Hann vill heldur helst ekki heyra eitt einasta orð um mína fyrrverandi kæró-á á móti, þannig að ég reyni líka að standa við það :)

Valla sagði...

Já, þokkalega aumingja Sófí. Ekki gleyma því að ef þú hefðir ekki losað þig við hann þá hefðir þú verið óhamingjusöm og ófullnægð alla æfi. Þannig að nú er það Sófí sem á möguleika á því að verða óhamingjusöm og ófullnægð alla æfi, ekki öfundsvert hlutskipti það.

SOL sagði...

Það eina góða er að ég læknaðist pínu af afbrýðisemi í þessu sambandi, fékk eiginlega algjört óverdós, gat ekki verið í gangandi afbrýðissemiskasti allan daginn alla daga eins og var kannski tilefni til. En mér líst ágætlega á svona fyrirkomulag eins og hjá ykkur Bödda, Útlendingurinn vildi endilega vera með e-a "segjum hvoru öðru allt" pólisíu sem endaði með því að okkur leið báðum ömurlega og hann sagði mér ALLT of mikið af e-um intimate details.

Og Valla - mjög góður punktur og alveg rétt, þarf stundum að minna mig á þetta :)