15. okt. 2009

Rúllið ríður rækjum

Fyrir mörgum árum síðan gaf sig á tal við mig myndarlegur strákur þar sem ég var stödd í Austurstræti síðla kvölds. Eftir stutt spjall hallaði hann sér að mér og hvíslaði: Viltu kannski koma og rúlla með mér?
Ha, rúlla? sagði ég og hváði.
sagði hann brosandi, heima hjá mér.
Bíddu hvernig þá rúlla, hugsaði ég og sá strax fyrir mér einhvers konar bakstur, rúllutertu eða í það minnsta eitthvað sem krefðist kökukeflis. Nema að hann væri að vísa í rúlluskauta eða línuskauta eða eitthvað þess háttar, sem gæti nú verið fjör svona á íslenskri sumarnóttu. Þriðji möguleikinn var síðan að þetta væri eitthvað slangur sem hefði fest sig í sessi en ég hefði óvart misst af. Ég vildi síður afhjúpa vankunnáttu mína í þessum efnum og ákvað að reyna að fá þetta á hreint áður en ég svaraði af eða á.
Rúlla...tja...ummm... hvernig förum við að því?
Það kom skrýtinn svipur á strákinn en í því kom vinur hans aðvífandi og leiðir okkar skildu. Stuttu seinna kviknaði á perunni (svona aðeins of seint eins og hjá Joey vini mínum úr Friends) og ég fattað að auðvitað hefði hann ekki sagt rúlla heldur lúlla. Skipti svosem ekki öllu máli, ég hefði afþakkað boðið. En mikið hefði nú verið skemmtilegt að lenda óvænt í rómantískum rúllutertubakstri um miðja nótt.

5 ummæli:

Hulda María sagði...

Kannski var þetta bara sveitastrákur. Man að stjúpamma mín í sveitinni spurði reglulega hvort ég væri ekki farin að rúlla einhverjum strákum. Smekklegt orðalag ;-) Er annars voða glöð að sjá þig blogga aftur!

Anna Pála sagði...

HAHAHA! Sprakk úr hlátri fyrir framan nemendur í málfræðiprófi við litlar vinsældir :)

Lenti einmitt í þessu einu sinni þegar ég var að heimsækja vinkonu mína og syfjulega mamma hennar kom til dyra. Ég spurði hana hvort hún hefði verið sofandi, en hún svaraði: "neinei, ég var bara að tína lúra" Ég velti því fyrir lengi hvað í andskotanum konan hefði verið að meina þar til ég fattaði að hún hefði bara verið "pínu að lúra" :)

Anna Pála sagði...

Hei og hvaðan koma rækjurnar í titlinum?

Sólrún sagði...

Rúlla strákum já...
Skal reyna að taka mig á í blogginu Hulda María :)
Já málfræðipróf eru ekki aðhlátursefni... Það varð frægt á sínum tíma þegar einhver sem ég man ekki hver er mismælti sig svona skemmtilega sem ætlaði að segja "ræður ríkjum" :)

Harpa sagði...

Vá hvað ég er vel að mér í svona "poppfræðum" Fattaði titilinn strax! Æðisleg saga.