17. sep. 2009

Bíó og fordómar

Mér finnst rosalega gaman að fara í bíó og þá á alls konar myndir nema kannski helst hryllings- og stríðsmyndir. Hef farið minna síðustu ár heldur en árin á undan en er búin að taka smá bíó-tímabil síðustu tvo mánuði eða svo. Fór að sjá Karlar sem hata konur (mjög góð), My sister's keeper (sorgleg), Hangover (sæmilega fyndin), Ghosts of girlfriends past (óendanlega léleg) Public Enemies (ágæt en langdregin) og Inglourious Basterds (frábær en ógeðsleg). Síðustu helgi fór ég síðan tvisvar í bíó. Sá norsku myndina Norður (Nord) sem var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hún kom skemmtilega á óvart og var mjög góð. Svo skemmtum við systurnar okkur yfir The Proposal um miðjan dag á sunnudeginum. Vona svo að ég nái að sjá eitthvað á RIFF :)

Eftir bíóið á laugardagskvöldinu fórum við Ásdís vinkona á pöbbinn í spjall og skemmtilegheit. Á meðan hún brá sér afsíðis settist plebbalegur (svona tíglapeysutrefill) strákur/maður mér við hlið og vildi endilega tala við mig. Sem var svosem allt í lagi, þangað til hann hellti bjórnum sínum yfir mig alla. Hann var voðalega sorrý yfir þessu og vildi endilega bjóða mér í glas sem ég afþakkaði pent, enda vorum við að fara og ég farin að velta fyrir mér hvort þetta væri einhver pikk-up strategía a-la" Ég á heima hérna rétt hjá, þú getur farið úr þessum blautu fötum þar". En jæja, ég hef svosem hellt óvart yfir fólk sjálf. Eitt af því fyrsta sem hann spurði mig var hvar við hefðum verið fyrr um kvöldið og ég sagði eins og satt var að við hefðum verið í bíó. Hann spurði á hvaða mynd og ég sagði honum það, að við hefðum verið á Norður. Þá kom skrýtinn svipur á hann og hann sagðist ekki trúa mér! Hann sagðist einmitt vera á leiðinni á hana daginn eftir en að það kæmi sér mjög á óvart að ég hefði verið á þessari mynd. Þegar ég gekk á hann sagðist hann vera "með fordóma fyrir fólki eins og þér". Og útskýrði það ekkert meir. Nú var ég ekki búin að segja honum neitt um mig nema nafn og póstnúmer, ég var ósköp venjulega klædd og skil þess vegna ekki alveg hvað hann átti við. Veit ekki hvort hann var bara að reyna að stuða mig en þetta pirraði mig eitthvað voðalega. En þar sem ég er ekkert sérstaklega góð í að svara fyrir mig og koma með flott kommbökk (fyrr en auðvitað eftirá), frussaði ég bara að hann væri í hallærislegri peysu og fór. Kannski hefur hann bara skynjað að ég var með fordóma fyrir honum og verið að hefna sín...

8 ummæli:

Þóra Marteins sagði...

Vá, spes gaur... minnir mig á gaurinn sem henti í mig sprittkertum, líklegast í þeirri von um að ég myndi fleygja mér í fangið á honum og taka hann bara á klósettinu.

Annars kynntist ég einu sinni sjómanni að vestan (nei, ekki deit) og það kom honum svo mikið á óvart að ég væri ekki hrokafull af því að ég bjó á höfuðborgarsvæðinu og var búin að fara í háskóla. Fordómarnir leynast greinilega víða...

Nafnlaus sagði...

skil ekkert í þessu samtali en vá hvað hann var heppinn að ég var ekki á staðnum. Það sauð á mér bara við að lesa þetta.....svona alveg þangað til þú komst með kommentið um peysuna. Þá var hlegið upphátt! :)

kv,
Hildur

Ásdís sagði...

Hahaha, já þetta var hress gaur. Ég var líka ekkert lítið fegin þegar þú komst aftur eftir að hafa brugðið þér frá stuttu áður, ég var orðin svo þreytt á að passa mig að líta ekki á hann því ég sá að hann langaði ROSALEGA mikið til að spjalla.
Hann var líka einn á djamminu, hversu sad er það? Hann á greinilega fáa vini, sem er svo sem ekkert skrýtið ef hann segir svona hluti við þá :-D

Kristján sagði...

Sæl Sólrún Ósk.

Ég vil alls ekki vera uppáþrengjandi en mig langaði til að segja þér að þú ert óvenjulega falleg kona.

Sólrún sagði...

Kristján, það er ekki amalegt að fá svona fallegt hrós frá jafn fjallmyndarlegum mönnum og þér :)

Kristján sagði...

Ánægjan er mín !

Þóra Marteins sagði...

blogga blogga blogga blogga.... plís :)

Sólrún sagði...

Já já já, hvað gerir maður ekki fyrir nýbakaðar mæður ;)