6. sep. 2009

Yfirnáttúrlegir hæfileikar og Amazon kúrinn

Ég hef oft hugsað að ef ég byggi yfir einhvers konar yfirnáttúrulegum hæfileikum væri afar gagnlegt að geta stjórnað því hvenær maður rekst á fólk. Í stað þess að vera stundum að rekast á fólk sem maður vill ekkert endilega rekast á (að minnsta kosti ekki á þeim tíma sem maður rekst á það) og rekast aldrei á fólk sem maður vill rekast á. En þar sem það er afar ólíklegt að mér muni takast að þróa þessa hæfileika með mér, hef ég ákveðið að hætta að eltast við að reyna að rekast á ákveðið fólk (og leyfa örlaganornunum að vinna óáreittum) og reyna líka að hegða mér eins eðlilega og ég mögulega get þegar ég rekst á fólk sem ég á ekki von á að hitta... samanber síðasta blogg um Bónusferðina góðu. Sem var (því miður) að mestu leyti sönn saga fyrir utan það að ég sleppti því að segja frá því þegar ég í fáti mínu lagðist í gólfið í miðju samtali og skreið undir hrásalatsrekkann að sækja snuðið sem barnið hans hafði misst. Þrátt fyrir þessar göfugu fyrirætlanir brá mér þvílíkt þegar ég sá Bónusmanninn AFTUR nokkrum dögum seinna þegar ég var að keyra niður Laugaveginn. Sýndist hann sjá mig og mín fyrstu ósjálfráðu viðbrögð voru að beygja mig niður (og keyra næstum á staur í kjölfarið). Gengur bara betur næst.

Í jákvæðari fréttum get ég nefnt að leyniverkefnið mitt, sem ég er búin að vera að vinna að í rúmt ár ásamt samstarfskonu minni, er loksins komið í startholurnar í kjölfar kynningarstarfs okkar. Vil ekki segja mikið núna en við erum að fara að stofna lítið sprotafyrirtæki með göfugt markmið og stóra drauma... Er ótrúlega spennt og hlakka til að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.

Ég missti ástkæran símann minn í jörðina og hann dó, aðeins 10 mánuðum eftir að síðasti sími hafði látið lífið eftir að hafa verið óvart drekkt í Pepsi-Max. Nú er ég þess vegna komin með ódýrustu týpuna af Nokia síma, engin flottheit og ekkert rugl og er hæstánægð. Strákurinn í búðinni sagði reyndar að hann væri alveg jafn líklegur að skemmast ef ég myndi grýta honum í jörðina og hinir símarnir, en ég myndi þá sjá minna á eftir þessum. Kom meira að segja út í plús þar sem síminn kostaði 6.990 og með honum fylgdi 1000 kr inneign á mánuði í 12 mánuði. Ætti samt kannski bara að splæsa í svona höggþéttan, vatnsheldan iðnaðarmannasíma sem endist lengur en ár.

Nú svo dreymdi vinkonu mína að ég væri orðin ægilega mjó í kjölfar einhvers Amazon kúrs sem ég hafði verið á og væri farin að miðla af megrunarvisku minni til annarra. Hún kannast ekki við að vera berdreymin en það má alltaf vona. Gúglaði reyndar Amazon kúrinn og viti menn, hann er til, en felst aðallega því að panta einhverjar pillur af netinu fyrir offjár sem mér líst ekki nógu vel á. Er reyndar í "átaki" jæja eða við skulum segja aðhaldi, vigtun einu sinni í viku, frjáls aðferð. Tuttugu manns og peningaverðlaun fyrir sigurvegarann. Ég hef nú reyndar borðað súkkulaði á hverjum degi (gera þeir það ekki líka í Brasilíu? Þetta er kannski hinn raunverulegi Amazon kúr a la Sól!) en hef svosem gert breytingar líka og borða hafragraut á morgnana og svona og það gengur bara vel (reyndar bara búnar tvær vikur af tólf en só far só gúd). Bara verst að ég er orðin of gömul til að taka þátt í ANTM... ;)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ mín kæra, kæra stelpa! Hahahaha! Sá þig svo fyrir mér undir kælinum....og örugglega ennþá talandi við gaurinn á meðan :)

Hlakka til að heyra um sprotafyrirtækið sem hefur haldið þér frá "mannlegum samskiptum" a.k.a. netinu síðustu vikur.

Annars ertu víst ekki of sein til að sækja um "She got the look" sem er einn raunveruleikaþáttur sem ég ætla sko ekki að horfa á!

Langar í bjór og spjall...mun ýta á eftir því þegar ég hef sjálf orku til þess!

kv,
Hildur

Þóra Marteins sagði...

Iss....við förum bara í She's got the Look (ANTM fyrir 35 ára og eldri) þegar við erum orðnar gamlar og geðveikt grannar af öllu súkkulaðiátinu ;-) Hlakka til að heyra meira af sprotafyrirtækinu :-)

Sólrún sagði...

Hugsa sér hvað þetta er ósanngjarnt, að vera of gamall fyrir ANTM en of ungur fyrir She's got the look! En já um að gera að nota næstu fimm árin í að borða sig grannan og fagran með súkkulaði, þessar kakóbaunir eiga víst að vera góðar við alls konar kvillum :)

Nafnlaus sagði...

Jú sko, samkvæmt einhverju snyrtivörufyrirtæki (eða eitthvað) þá eru konur hamingjusamastar þegar þær eru 28 ára gamlar. Svo að sú ályktun hefur verið dregin af því að á milli 25 og 35 ára aldurs eigir þú ekki að finna þörf fyrir að taka þátt í svona keppnum.

kv,
Hildur