20. júl. 2010

Býflugnahné

Fyrir um það bil ári síðan bloggaði ég um fésbókarvin minn sem er innilegur úr hófi fram að mínu mati - sérstaklega þar sem ég man ekkert eftir að hafa hitt hann, hvað þá talað við hann. Hann er voða sætur og við spiluðum stundum scrabble á netinu í vetur og kynntumst aðeins þannig (já ég er lúði). Það eina sem ég man úr því spjalli er að hann er oft á einhverju flakki um heiminn að kenna ensku, tekur stundum e-pillur og á barn í Ástralíu. Nú er hann hins vegar staddur í bjútífúl Brighton sem ég er einmitt að fara að heimsækja innan skamms. Svo ég krotaði á feisbúkkvegginn hjá honum að ég yrði í bænum með vinkonu minni ákveðinn dag og hvort hann væri laus í eins og einn drykk.

Það stóð ekki á svarinu og hann sendi mér póst sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Drykk? Með þér? Ekki einu sinni stóð villtra hesta gæti stöðvað mig! (og svo símanúmerið hans og xxx). Frekar fyndið - og í takt við annað sem hann skrifar mér - en er hann ekki örugglega að grínast? Þrátt fyrir að kunna vel að meta tilvísunina í eitt uppáhalds Rólling Stónes lagið mitt þá get ég ekki hætt að velta fyrir mér, líkt og fyrir ári síðan, hvort ég sé eitthvað að misskilja. Eða mig að misminna. Mig langar alveg eins að hitta hann, sérstaklega svona fyrir forvitni sakir en þetta hljómar eins og hann eigi von á dramatískum endurfundum þar sem ég hleyp í fangið á honum í sló-mó.  Hann sendi mér einmitt líka póst í apríl upp úr þurru um að ég væri the bee's knees, sem er merkilegt nokk hrós á enska tungu. Nú hef ég ekkert á móti því að vera kölluð býflugnahné, síður en svo - en við þekkjumst ekkert, ekki nógu vel til að líkja hvoru öðru við skordýraútlimi. Smávegis internetfliss út af tvíræðum skrabbl orðum breytir því ekki. Ég man ennþá ekki eftir að hafa hitt hann eða talað við hann en það gæti alveg passað að við höfum hist í afmæli hjá sameiginlegum vini árið 2002 eða 2003. Var að fatta að það verður líklega erfiðara nú þegar við hittumst að feika það að ég muni eftir honum. Vona bara að hann fari ekki að rifja of mikið upp gamla tíma. Eða jú, það væri kannski ágætt, til að rifja það up fyrir mér ef ég skyldi óvart hafa misst tunguna upp í hann án þess að muna eftir því (sem er ekki séns!).

Ég hallast nú samt helst að því að hann sé bara svona smúth týpa sem flörti við allt og alla. Sem er bara skemmtilegt og gaman að láta daðra við sig endrum og eins. Það verður að minnsta kosti spennandi að hitta loksins þennan dularfulla dreng. Ég ætla samt að taka vinkonu mína með mér að hitta hann, svona ef ske kynni að hann væri raðmorðingi.

3 ummæli:

Anna Pála sagði...

Hahaha flott ruglandi titill. Núna verðurðu náttúrulega að mynda gripinn og líma myndina hérna inn með detailed lýsingu á hittingnum!! Spurning um að þú mætir leynilega með diktafón til að hafa þetta nú alveg orðrétt :) ´
Bíð spennt þangað til!

Nafnlaus sagði...

bíð líka spennt eftir upplýsingum um hinn dularfulla mann

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Bíð líka mjöööög spennt :)

Soffía