15. júl. 2010

Bíllinn – Draslið

Stundum óska ég þess að ég væri með þótt ekki væri nema vott af þrifáráttu, svona smá Monicu í Friends fíling. Aumingja bíllinn minn, öðru nafni La Toya (Jackson), er búinn að vera að safna að sér drasli og drullu (skrifaði fyrst óvart druslum, nú jæja) síðustu marga, marga, marga mánuði.  Draslið er svona af ýmsum toga og kemur reyndar og fer, semsagt ekki alltaf sama draslið en oftast drasl. Stundum eitthvað sem gæti komið sér vel að hafa í bílnum en yfirleitt eitthvað sem verður eftir í bílnum af því að ég gleymi að fara með það upp nú eða veit hreinlega ekki hvað ég á að gera við það. Þannig má nefna að ég bjargaði gamalli uppáhaldsdúkku (hún heitir Selma, eftir systur Jóns Odds og Jóns Bjarna) úr bílskúr foreldranna í fyrra sem ég kann ekki við að henda upp á loft en vil nú samt ekki hafa inni hjá mér.  Hún er á við þriggja ára barn og svona frekar life-like nema hvað hún er orðin heldur ósjáleg og það vantar á hana útlimi. Held samt að það sé kominn tími til að setja hana í bað og í aðlögun upp á loft þar sem ég hef tekið eftir augngotum frá þeim sem sjá mig opna bílinn, það gæti litið út fyrir að ég sé með limlest barnslík í skottinu. Heppin að enginn hafi hringt á lögregluna. 

Engin ummæli: