14. júl. 2010

Viva España

Ég hélt með Spánverjum og fagnaði því úrslitaleik HM, hef þó ekki fylgst sérstaklega vel með mótinu. Langar ennþá að fara aftur til Spánar og læra meiri spænsku, eyddi tveimur mánuðum í Salamanca árið 2002 og veit þökk sé internetinu að margir skólafélaga minna þar ílengdust. Komst að því að yndisleg samstarfskona mín var líka í málaskóla í Salamanca svo við stofnuðum spænskuklúbb. Hann felst í því að við tölum stundum bara (mjög bjagaða) spænsku í hádegishléinu, samstarfsfólki okkar til furðu, og sendum hvorri annarri "orð dagsins" í tölvupósti. Veit að það er hægt að vera á svoleiðis póstlista en þetta er miklu skemmtilegra þar sem við sendum yfirleitt orð sem tengist einhverju sem við höfum verið að spjalla um. Nýleg orð eru lluvia (rigning, veðrið á þeim tíma), araña (kónguló, nóg af þeim í gluggunum í vinnunni ) viaje de incertidumbre (óvissuferð og coquetear (daðra, þarf nokkuð að útskýra það?). 


Þegar ljóst varð að Spánverjar voru heimsmeistarar ætlaði ég svoleiðis að óska öllum spænsku vinum mínum á facebook til hamingju með sigurinn. En áttaði mig svo á því að ég á enga spænska vini! Þeir sem voru að læra spænsku með mér eru allra þjóða kvikindi en auðvitað ekki Spánverjar... Sendi þess vegna bara málaskólanum sjálfum fb kveðju. Mundi svo eftir því að Mr Big er auðvitað hálf-spænskur, held að það hafi nú verið pikk-öpp línan hans á sínum tíma, svo ég smellti einu sms-i á hann og óskaði honum til hamingju sem gladdi hann mjög. Að minnsta kosti hálf-gladdi hann, hó hó hó. 

1 ummæli:

Anna Pála sagði...

Frábært spænskuframtak!!! Qué superbuena idea!

Salamancaknús, spænskufíllinn