4. júl. 2010

Prumpuperri

Þegar ég var lítil var mér kennt að það væri ljótt að segja prumpa, að leysa vind var hið rétta og kurteisa heiti yfir þessa líkamsstarfsemi. Held að prumpulag Dr. Gunna hafi breytt landslaginu og nú tala örugglega öll lítil börn frjálslega um prump.

Með tilkomu reykingabannsins sem ég fagnaði gríðarlega og geri enn, sköpuðust miklar umræður um aukna prumpufýlu og svitalykt á skemmtistöðum þar sem reykingalyktin væri ekki lengur yfirgnæfandi. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið sérstaklega eftir þessu, hef að minnsta kosti aldrei vaknað daginn eftir djamm og þurft að þvo öll fötin mín og koddaverið af því að það var svo mikil prumpulykt af hárinu á mér.

Var stödd með nokkrum vinkonum á skemmtistaðnum Boston um helgina þegar allsvakaleg fýla gaus upp og ekki fór á milli mála um hvers lags lykt væri að ræða. Oft er yfirþyrmandi reykelsisangan á Boston en hún náði að minnsta kosti ekki að yfirgnæfa þennan ófögnuð. Við fitjuðum upp á nefið og horfðum ásakandi hvor á aðra en enginn vildi kannast við að hafa óvart leyst vind. Þegar þetta gerðist í annað sinn var orðið ljóst að sökudólgurinn sæti á borðinu við hliðina en kannski ekki beint hægt að pota í bakið á ókunnugum manni og spyrja Fyrirgefðu, varst þú að prumpa? Í þriðja sinn varð fnykurinn óbærilegur, ég náði varla andanum og flúði út á pall ásamt nokkrum öðrum enda reykingalykt og eiginlega bara öll önnur lykt skárri en þessi.

Vinkonu minni varð nóg boðið og hnippti ásakandi í hinn grunaða. Sagði honum að einhver á borðinu hefði verið að prumpa og líklega hefði það verið hann, nú væri hálft borðið okkar flúið út til að losna undan þessu, þetta væri helber dónaskapur og hvort honum væri eiginlega sama að gera þetta einhvers staðar annars staðar! Veit nú eiginlega ekki hvernig ég hefði sjálf brugðist við svona en það fauk í gaurinn, sem var steggurinn sjálfur í steggjaveislu og notaði hann f-orðið til baka á hana svo hún rauk út á pall til okkar flóttamannanna. Þetta varð til þess nokkrir stólar á borðinu okkar tæmdust og steggjapartýið sá sér leik á borði og færði sig yfir til þeirra stúlkna sem höfðu ekki flúið fýluna (enda sátu þær fjær prumparanum). Steggurinn baðst síðan afsökunar á að hafa móðgað vinkonuna - en ekki á prumpinu, enda má svosem deila um hversu mikla stjórn menn hafa á umræddri aukaafurð.

Til að ljúka þessum prumpupósti get ég sagt frá því að titill færslunnar er vísun í mann sem ég veit að hefur sent tveimur stúlkum nákvæmlega eins póst gegnum deitsíðu. Þar játar hann blæti sitt (fína íslensks orðið yfir fetish) og segist leita að stúlku sem er til í að setjast á andlitið á sér og leysa vind framan í sig. Veit ekki með ykkur, en væri ekki gott ráð ef maður væri með svona... óvenjulegar þarfir í rúminu, að bíða með að segja frá þessu fyrr en eftir, segjum nokkur deit? Eða er bara best að senda svona póst á eins margar stelpur og maður getur, í þeirri von að einhvers staðar segi einhver já?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er eiginlega farin að skammast mín yfir því hve oft ég set inn athugasemdir hérna....en þetta er svo þægilegt að vita að það er eitt blogg á dag - svona alveg eins og ég veit að það verða nýjar fréttir á mbl.is á morgun.

Persónulega er ég ekki mikið fyrir að confront-a fólk með prump enda dama út í eitt ;) Þekki þó eina sem er vön að tilkynna hátt að einhver hafi verið að leysa vind og hún minnir mig alltaf á 5 ára dekurrófu þegar á því stendur - hún gengur svo langt að ávíta kærasta sinn í margmennni fyrir þennan "ósið" sem mér finnst algjörlega óviðeigandi.

Sá einu sinni í bíómynd að F-A-R-T væri make or brake í sambandi. Þegar fólk kæmist á næsta stig yrði prumið fyrst að vandræðilegum hlut sem svo breyttist í viðurkennda athöfn eða þá þröskuldur sem annar hvor aðilinn hataði. Hvort það sé rétt vil ég ekki taka ákvörðun um - enda algjörlega háð mataræði viðkomandi aðila.

kv,
Hildur

SOL sagði...

Nei Hildur ég er svo glöð að þú sért að kommenta!! Ekki hætta! :) Er nú svosem ekki að blogga beint fyrir aðra en sjálfa mig en það er samt gaman að hafa örfáa lesendur :) sem fylgjast með því að ég standi við mitt "blogg á dag". Verð reyndar líklega utan netsambands frá og með morgundeginum fram á fimmtudag! En ég mun að sjálfsögðu bæta fyrir það á einhvern hátt svo bloggfjöldinn haldist :)

Ég er ekki mikið fyrir konfrontið heldur þótt það geti kannski átt við - finnst það nú fulllangt gengið að ávíta kærastann í margmenni! Svo finnst mér þetta áhugavert með make or break dæmið. Var það ekki í sex and the city þar sem það var mikilvægt skref í sambandi að geta prumpað fyrir framan hinn aðilann? Já og að gera númer tvö heima hjá honum! En svo eru sumir sem segja að það sé aldrei í lagi, það á að viðhalda mysteríinu, "sætar stelpur hafa ekki hægðir" og sá pakki.
Punkturinn með mataræðið er síðan mjög góður enda ákveðnar matartegundir vindvænni en aðrar :)

Nafnlaus sagði...

Hahahahahaa.... óborganlegt!

Ég var einu sinni á skvísudjammi með nokkrum píum og átti í mestu vandræðum. Var með prumpuveikina á háu stigi og GAT ekki haldið prumpinu inni. Það var svo skelfilega illa lyktandi að meira að segja sjáfri mér var nóg boðið. En alveg sama hvað ég rembdist við að klemma rasskinnarnar, lyktin lak út. Þetta var skelfilega vandræðalegt, vorum að dansa á Dillon og allar bara "oooojjjj" og ég tók undir "oooojjjj hvaða ógeðis karlmaður er að freta svona rosalega?" Þetta gekk meira og minna svona allt kvöldið.
V-A-N-D-R-Æ-Ð-A-L-E-G-T

Freyja sagði...

Ég þekki strák sem sagði við kærustuna sína eftir að þau voru búin að vera saman í smá tíma...:"eigum við ekki að taka þetta samband á næsta stig?" Og svo prumpaði hann hátt og snallt! Mjög rómó...eða þannig.

En ég verð að viðurkenna að ég skamma kærastann þegar hann prumpar í margmenni, en það er líka því hann prumpar upphátt og skammast sín ekkert fyrir það!!!!