10. sep. 2010

Tell me more, tell me more, like does he have a car?

Nei það var sko enginn sumarást með Danny Zuch á síðustu árstíð. Engu að síður var sumarið stútfullt af áhugaverðum persónum og leikendum...

Súkkulaðikakan 
Hvað gerist þegar þú ákveður að hugsa ekki um fjólubláa fíla? Þú hugsar um fjólubláa fíla! Þess vegna gat ég að sjálfsögðu með engu móti haldið mig frá Súkkulaðikökunni frægu og lenti aftur í eldheitum tilfinningarússíbana - sleikjandi súkkulaði út á kinn og illt í maganum til skiptis. Er samt sem áður komin aftur í sjálfskipað súkkulaðikökubann og reyni að forðast tiltekin bakarí í 101. 

Krullhausinn
Var komin í faðmlög í ljúfum dansi á myrkvuðu dansgólfi í miðbæ Reykjavíkur þegar ég áttaði mig á því dansfélaginn var klæddur svolítið öðruvísi en flestir karlmenn sem ég þekki. Sá svo í diskóljósinu glitta almennilega í andlitið bak við krúttlegu krullurnar hans og varð allt í einu brjálæðislega paranoid. Skrækti Hvað ertu gamall, hvað ertu gamall?! í eyrað á drengnum, sem neitaði að segja mér það svo ég hrakti hann samstundis á brott. 

Sjómaðurinn 
Kynntist sætum sjóara á sveitaballi sem hældi (ekki ældi!) mér svo mikið að mig langaði að taka hann upp á segulband og nota sem sjálfshjálparteip í bílnum. Við vinkonurnar vorum á smá flippi og ég sagði honum að ég væri 25 ára afgreiðslustúlka í tískuvörubúð í Hveragerði. Sá seinna eftir því að hafa logið, ákvað að yfirvinna sjómannafordómana (þeir eru alltaf svo lengi í burtu!) og ætlaði að hafa samband við hann. Komst að því að hann væri ekki sjómaður heldur viðskiptafræðingur -  og giftur þriggja barna faðir. Jæja, mér var svosem nær, what goes around, comes around. 

Stripparinn
Vinur sem dúkkar upp með reglulegu millibili, núna síðast í sumar eftir nokkuð hlé. Keyrði bókstaflega næstum á hann í Lækjargötu og í kjölfarið fórum við í bíltúr og sund og hittumst síðan í afmæli hjá sameiginlegum vini. Þar var hann greinilega töluvert í glasi og stakk upp á að við myndum gista saman þá um nóttina. Þegar ég tók ekki vel í það horfði hann djúpt í augun á mér og sagðist elska mig - og að þessi nótt yrði bara byrjunin á lífi okkar saman! Ég lét ekki sannfærast og þá var gripið til örþrifaráða, að fara úr að ofan og vera með eggjandi hreyfingar. Smá misskilningur varðandi hvað kemur konum til - það er ekki endilega það sama og kemur karlmönnum til! Að lokum var gripið til lögmálsins um framboð og eftirspurn og hann kallaði á eftir mér að ef ég vildi hann ekki ætlaði hann reyna við aðra stelpu í partýinu... ég sneri ekki við. 

3 ummæli:

Anna Pála sagði...

HAHAHAHAHAAH og BWAHAHAHA!!! Núna VERÐUR þú bara að fara að skrifa bók!!!

Æðislegur þessi síðasti desperate gaur, og vá hvað svona spontaneous stripp myndi sko alveg sannfæra mig eftir nokkur glös ef vel útfært, enda hef ég líka uppgötvað í samtölum við vinkonur mínar að ég er frekar "karlmannleg" í svona kynjasamskiptum :)

Æðislegt að hóta þér svo með að reyna við aðra stelpu, algjörlega priceless :)

Þóra Marteins sagði...

HAHAHAHHAHAHA. Þú ert best :-*

Nafnlaus sagði...

híhíhíhí....spurning hvaða aðili fari í næstu smásögu :)

kv,
Hildur