17. ágú. 2010

Lesbíski einmana trúbadorinn frá miðöldum snýr aftur...

Já ég veit, ég skulda milljón blogg sem skýrist meira af almennum netleiða en andleysi enda er ég með hundrað blogg í hausnum á mér, það er bara þetta með að vera stundum meiri thinker en doer:) 

Ástarævintýrin bíða betri tíma en ég verð að koma frá mér sögu um heimsókn til spákonu sem átti sér í Englandsferðalaginu um verslunarmannahelgina. 
Spákonan var alveg eins og alvöru nornir eiga að vera, með blátt hár og vörtu. Hún titlaði sig reyndar sjáanda en ekki spákonu og notaði kristalkúlu og tarotspil.

Það kom hvert slæma spilið upp á eftir öðru hjá mér í byrjun. Áhyggjur, sorg, dauði, fífl. Eitthvað með sól og tungl líka, ég skildi þetta ekki alveg.

-          Ert þú fórnarlamb ofbeldis? Heimilisofbeldis?
sagði nornin áhyggjufull og ég velti fyrir mér hvort maskarinn hefði lekið og ég liti út fyrir að vera með glóðarauga.

-          Nei nei, ekkert svoleiðis
svaraði ég en fannst þetta samt svona frekar skrýtin spurning því ef þetta væri rétt hefði ég líklega ekki farið að  segja bláókunnugri manneskju það svona á fyrstu mínútunum.

-          Hmmm. En ertu söngkona?
heyrðist frá henni eftir að hún hafði þráspurt mig út í ýmis konar líkamlegt og andlegt ofbeldi sem ég kannaðist ekkert við að hafa orðið fyrir.

-          Nei það er ég ekki
svaraði ég enda fannst mér frekar langsótt að hún væri að vísa í sviðsframkomu mína frá árinu '91 í Rokklingaskólanum þegar ég söng "Er ég kem heim í Búðardal" í kúrekadressinu.

-          Hmmm
sagði nornin aftur og var orðin frekar pirruð á mér. Hún spurði mig út í ýmislegt annað en ekkert virtist passa.

Ég sá á henni að hún var orðin bæði þreytt og stressuð enda var liðið á kvöldið þarna og hún var búin að segja mér að hún hafði ætlað að ná síðustu lestinni heim til sín. Það virtist þó ekki trufla tenginguna við andaheiminn að farsíminn hennar hringdi tvisvar á meðan á spánni stóð. Hún geispaði mikið enda líklega þreytt eftir daginn, en afsakaði sig í hvert skipti með að hún fyndi fyrir skyndilegri "orkusugu".  Ljóti reykingahóstinn hennar var sömuleiðis "neikvæð orka í lungunum".

Þar sem ég vildi lítið kannast við flest það sem hún var að segja var þetta að stefna í eitt allsherjar klúður en þá virtist renna upp fyrir henni ljós.

-          Já nú skil ég, þetta er í sambandi við fyrri líf!
sagði sjáandinn brosandi og hélt áfram að útskýra.

-          Þú varst trúbador á miðöldum. Einmana trúbador, þú áttir ekki mann, hefur líklega  bara verið lesbía. En þú varst farandtrúbador á meginlandi Evrópu. Og þú ferðaðist með…Brúðuleikhúsi! Sem sýndi leikritið Punch og Judy (vinsælt enskt brúðuleikrit ætlað fyrir fullorðna sem fjallar einmitt um mann sem lemur allt og alla, þar á meðal konuna sína). Já já þaðan kemur sýnin um ofbeldið, og sönginn. Þetta situr greinilega svona sterkt í þér ennþá.  (Fyrir áhugasama má lesa nánar hér http://en.wikipedia.org/wiki/Punch_and_Judy um brúðuleikritið).

Síðan bætti hún því við að ég hafi í öðru fyrra lífi fyrir nokkur hundruð árum verið karlmaður sem barnaði unga stúlku og fór illa með hana – og ég væri enn með mikið samviskubit yfir því og þyrfti að leita mér aðstoðar þess vegna. Ég þarf samkvæmt henni nauðsynlega að leysa úr þeirri flækju áður en ég eignast sjálf barn svo barnið verði ekki með einhver "andleg vandamál". Mjög upplífgandi allt saman.

Ég var orðinn þreytt á þessum niðurdrepandi sýnum og spurði hvort hún sæi ekki eins og einn kærasta í lífi mínu á næstunni.

-          Látum okkur sjá sagði vörtusvínið og dró eitt spil að lokum.

Spilið sem hún dró var… Djöfullinn sjálfur, með horn og hala.

-          Nei sagði hún og hristi hausinn. -Ekki næstu þrjú árin að minnsta kosti.

Þegar ég var á leiðinni út birtist henni ein lokasýn í kristalskúlunni.

-          Ég sé rabbarbara!
sagði hún glöð, eflaust ánægð með að sjá eitthvað annað en mörg hundruð ára gamla eymd í kúlunni þetta kvöldið.

-          Þetta gæti þýtt það að þú ættir að borða meira af ávöxtum og grænmeti?

Það þarf nú ekki neina yfirskilvitlega hæfileika til að segja mér það! hugsaði ég með mér - en óskaði þess seinna að ég hefði sagt það upphátt.

Ég kvaddi og skundaði á stefnumót með dularfulla fb vininum (sá fyrri færslu) sem reyndist vera hávaxinn, myndarlegur og mjög ó-raðmorðingjalegur. Síðan var daðrað fram á rauða nótt…


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Loksins! :-)

Soffía

Anna Pála sagði...

HAHAHAAHAHA uppáhalds færslan mín þín, já með súkkulaðikökufærslunni :)

Hló svo hátt og mikið að aumingja hálfsofandi Tómas kom æðandi inn til að athuga hvort væri í lagi með mig. Mögnuð spákona! Hugsa að þú verðir að fara til hamingjuheilunarspákonunnar minnar til að jafna þig almennilega eftir þetta :)

SOL sagði...

Takk stelpur, ég lít kannski bara á þetta sem sumarfrí og helli mér í bloggið aftur af fullum þunga.

Já APS ég verð að fara til þessarar sem þú mæltir með svona til að jafna mig á þessu, stefni á það í vetur :)

En takk fyrir kommentin og fyrir að gefast ekki upp á mér ;)

Þóra Marteins sagði...

hahahahaha. Fyrra líf. Gott redd :-)