18. des. 2003

Mér var bent pent á það um daginn að bumban væri orðin svolítið bústin. Ég fylltist skelfingu yfir því að fólk myndi halda bjórvömbina annars eðlis og sá fyrir mér hamingjuóskirnar frá kunningjum á Laugaveginum á Þorláksmessu. Arg! Þá er bara að skipta súkkulaðinu út fyrir mandarínur og kaupa Bridget Jones nærbuxur.



Ég kvíði líka fyrir öllu kjaftæðinu sem fylgir því að rekast á fólk almennt heima. Sem gerist víst oftar í Reykjavík en í London og ég er þess vegna komin úr æfingu. Það er alltaf þetta Nei hæ hvað segir þú gott, hvað ert þú að gera núna? Þá er að setja upp feik brosið og segja Allt fínt, bý í London rosa gaman EN ÞÚ og reyna að snúa umræðunni við.

Og svo frá þeim sem þekkja mig betur, Hvernig gengur atvinnuleitin? sem segja það með hallandi höfði og vorkunnarsvip. Þá er að kinka kolli uppörvandi og segja Þetta fer allt að koma. Þetta er auðvitað gert svo að þeim líði betur. Ekki mér. Því það gengur eiginlega ekki að segja Ég er atvinnulaus í London og það gengur illa og ég hef það ekkert sérstaklega gott og er ekkert viss um að það sé neitt að lagast. Þá verður fólk vandræðalegt og veit ekki hvað það á að segja. Svo ég brosi gegnum tárin.

Engin ummæli: