Í gærkvöldi klukkan hálftvö hringdi gsm síminn hans Óla. Það var enginn á línunni og ekkert númer á númerabirtinum. Þetta fór óstjórnlega í taugarnar á mér því ég er svo forvitin. Sérstaklega þegar kemur að svona. Ætli þetta hafi verið einhver í hættu staddur? Viðhaldið? Símtal úr geimnum? Líklega var þetta bróðir hans á fylliríi að hringja frá Svíþjóð. Oh well. Það rifjaðist upp fyrir mér verslunarmannahelgin..... 94 að ég held. Ég var í Vatnaskógi með Freyju vinkonu en aðrir fjölskyldumeðlimir voru heima. Ég var fjórtán ára og varla nokkur maður með gsm síma. Um miðja nótt þá helgi hringdi einmitt síminn heima hjá sér. Pabbi svaraði og á línunni var ungur drengur. Hann kynnti sig og spurði eftir mér. Þegar í ljós kom að ég var ekki heima bað hann fyrir þau skilaboð að hann elskaði mig. Æsispennandi ekki satt? Nema hvað, þegar ég kom heim og fékk að vita fregnirnar af þessum dularfulla aðdáanda gat pabbi ekki með nokkru móti munað hvað hann hét. Það kom enginn sérstakur til greina og ég var ekki á því að spyrjast fyrir meðal þeirra sem ég þekkti. Þetta mál er því óupplýst enn þann dag í dag. Sorglegt :)
Mér eins og svo mörgum stelpum finnst voðalega gaman að kryfja mál til mergjar. Þetta kalla strákar að velta sér upp úr vandamálunum. Af þessum sökum er yfirleitt ómögulegt að segja “we need to talk” við stráka. Maður þarf að fara krókaleiðir að því. Og jafnvel þá missa þeir athyglina eftir smástund. Eins og maður þurfi að koma þessu að í skömmtum. Helst segja eitthvað eins og “fótbolti” og “brjóst” á milli svona til að halda þeim vakandi. Í fyrradag lá ég uppi í rúmi með mínum heittelskaða og lét móðan mása um lífið og tilveruna og sambandið og ástina. Mér fannst hann vera frekar þögull og spurði hann þess vegna hvað hann væri að hugsa. Hann sagði að honum hefði verið að detta í hug svolítið sem kæmi málinu ekkert við. Mér var alveg sama (eða þóttist vera alveg sama) og vildi endilega toga þetta upp úr honum. “Ég vil heyra allt sem þú hugsar elskan mín” bla bla og allt það. “Jú”, svarar hann, “mér datt í hug að það væri örugglega hægt að tjalda í hesthúsinu hérna fyrir neðan”. Great. Ég ákvað að sleppa því að spyrja framar. En þetta er svosem undantekning. Yfirleitt eru þeir ágætir þessi grey :)
Sveitatíðin er senn á enda og ég þarf þess vegna líklega að fara að breyta útliti síðunnar...... gengur ekki að vera með kindaþema þegar maður flytur til Brighton (eða ég vona það að minnsta kosti). Minn ástkæri Ólafur fékk þær fréttir í morgun að hann hættir að vinna í dag en ekki á föstudaginn eins og við héldum. Þannig að við förum bæði á einhvern lokafund í kvöld og svo getum við farið í smá ferðalag, vei!
Já og eitt enn. Þórdís vinkona í USA er farin að blogga aftur. Það er ótrúlega gaman að lesa það sem hún skrifar. Því miður get/kann ég ekki að linka í einstakar færslur hjá henni en ég mæli með færslu um strokleður/smokka frá 23. ágúst. Ég veltist um af hlátri :)
Ég hef mikið að segja
Fyrir 10 árum