18. feb. 2007

American Wedding

Eins og alþjóð veit (af því að ég er búin að láta hana vita) er ég að fara til Nýju Jórvíkur innan fárra daga til að vera viðstödd brúðkaup bandarískrar vinkonu minnar. Ekki nóg með það heldur er ég "in the wedding", ég verð brúðarmær með tilheyrandi tilstandi. Hef verið að reyna að lesa mér til um do's and don'ts brúðarmeyja en hef orðið litlu nær og hef smá áhyggjur af því að ég klúðri einhverju þarna úti.

Eitt af því sem ég hef komist að er að ég verð að af-kaldhæðnast snarlega. Eða kannski bara að af-íslenskast? Ég er ekkert sérstaklega kaldhæðin að eðlisfari en ég segi auðvitað hluti sem ég meina ekki í bókstaflegri merkingu. Það er kallað að grínast, hélt ég. En þetta afbrigði gamansemi er víst minna þekkt þarna í Bandaríkjunum.

Vegna brúðkaupsins hafa farið nokkrir tölvupóstar milli mín og brúðarinnar tilvonandi þar sem húmorinn hefur greinilega verið stöðvaður á landamærunum. Ég sagði henni til að mynda að ég vissi ekki alveg hvernig svona brúðkaup færu fram. Sagðist ætla að horfa á nokkrar bíómyndir til undirbúnings; Wedding Singer, Four Weddings and a Funeral, Runaway Bride...

Ég fékk svar um að ég gæti svosem alveg horft á þessar myndir en það væri ólíklegt að þær myndu endurspegla tilvonandi brúðkaup. Og að það væri alveg á hreinu að hún hygðist ekki yfirgefa mann sinn við altarið.

Í næsta pósti spurði ég hana hvort hún ætlaði ekki að nýta síðustu daga sína sem einhleyp kona vel. Það féll heldur ekki í góðan jarðveg. Svarið var á þá leið að hún liti ekki á sig sem einhleypa konu og hefði ekki áhuga á drykkju, dópi eða frjálsum ástum fyrir brúðkaupið. Hún þakkaði mér reyndar fyrir ábendinguna og sagðist ætla að íhuga að fara í jógatíma hjá karlkyns kennara. Það gæti kannski komið í staðinn fyrir framhjáhaldið sem ég var að ýja að.

Og nú er svo komið að ég er hrædd um að verða rekin úr brúðkaupinu. Þannig að öllum tölvupóstsamskiptum hefur verið snarlega hætt. Í brúðkaupinu ætla ég síðan að reyna að fara eftir þeim einkunnarorðum sem Vita Andersen rithöfundur skrifaði um; Haltu kjafti og vertu sæt.

Engin ummæli: