Ég er eitthvað andlaus þessa dagana enda fara helstu skriftirnar í leyniverkefnið sem er ekki svo mikið leyni enda er generalprufan að fara að hefjast. Erum að ganga frá pappírum sem þýðir að ég er að fara að verða stjórnarformaður einkahlutafélags sem mér finnst afar fullorðins. Það er helst að maður geti skrifað hér um daginn og veginn sem mér finnst samt frekar óspennandi. En kannski betra en ekki neitt.
Ég heimsæki foreldra mína fast tvisvar í viku. Á sunnudagskvöldum en þá horfi ég í leiðinni á Fangavaktina og á miðvikudagskvöldum þegar ég horfi í leiðinni á Ástríði (það gefur að skilja að þau eru með Stöð 2 en ekki ég). Mjög hentugt. Minnir mig á þegar ég átti kærasta sem bjó langt í burtu (í næsta sveitarfélagi - mér fannst það langt þá!) og heimsóknir til hans voru iðulega á laugardagskvöldum (Friends) og miðvikudagskvöldum (Ally MacBeal).
Talandi um það þá er maður hvergi óhultur fyrir draugum fortíðar. Fékk pínu sting í magann þegar ég var merkt á gamalli mynd á facebook með Útlendingnum. Sem býr í öðru landi (engin hætta á að rekast á hann á joggingbuxunum í 10-11) og er ekki á fésbókinni þannig að ég átti ekki von á því að hann myndi dúkka upp svona. Við erum svosem voðalega góðir vinir og engin ástæða til að vera eitthvað sorrý yfir þeim sambandsslitum lengur en ég er það nú samt stundum. Efnahagsástandið hefur samt hjálpað til, ég verð svo fjúkandi vond og fegin að vera laus við hann þegar hann byrjar að tjá sig um icesave og hvað Íslendingar séu sjálfselskandi hálvitar sem væli yfir því að hafa þurft að skipta úr Benz yfir á Yaris.
Af hverju er annars talað um að karlmenn séu miklir gleðimenn? Ekki þykir það jafn jákvætt ef konur eru miklar gleðikonur...
Ég hef mikið að segja
Fyrir 10 árum