16. sep. 2003

Bloggað á Bakarastræti...

Ég er sumsé að velta fyrir mér nýju nafni á bloggið, það þýðir ekki að kalla þetta Brighton Blogg lengur. Núna er það Líf í London/Lúser í London eða Næstum-því-á-Baker-Street Blogg (af því að ég á næstum því heima á Baker Street þar sem Sherlock Holmes bjó).

Það er að minnsta kosti nóg að gerast í stórborginni. Þeir sem vilja geta meira að segja fengið gossipið læv þar sem ég er að koma til Íslands á föstudagskvöldið næstkomandi og fer á fimmtudag. Hver er til í djamm með mér á laugardagskvöldið?

Sóðaperri kom ekki með mér til London sem ég er viss um að hryggir lesendur. En örvæntið ei, ég laða að mér “skemmtilega” karaktera hvert sem ég fer þannig að ég bý nú með áhugaverðum dreng sem við skulum kalla Hobbitann. Hobbitinn er þrítugur, stuttfættur, krullhærður, brosmildur hnokki að norðan með sérkennilegan húmor og hreim sem ég á erfitt með að skilja. Hann á kærustu sem er talsvert eldri en hann og á erfitt með að þola það að hann búi með íslenskri ungmey. Það fer sérstaklega í taugarnar á henni þegar ég svara í símann (sem við deilum). Við Hobbitinn höfum spjallað saman nokkrum sinnum sem er erfitt því við skiljum eiginlega ekki hvort annað. Hann tekur öllu sem ég segi mjög alvarlega – ég afsakaði draslið hjá mér hlæjandi um daginn og hann tók um handlegginn á mér og sagði að ég hefði ekkert til að skammast mín fyrir gagnvart honum.

Öllu verra þykir mér að undir sakleysislegu og hobbitlegu yfirborðinu finnst mér eitthvað grunsamlegt vera á seyði. Ég komst að því í dag að Hobbitinn er búinn að ljúga að mér um ýmis smáatriði eins og um að hafa lykil að pósthólfinu. Af hverju sagðist hann ekki hafa lykil en varð svo stórfurðulegur og skellti hurðinni þegar ég sagði honum að mér hefði verið sagt að hann væri með lykil og ég þyrfti eiginlega að fá póstinn minn? Ég hef heldur ekki hitt gæjann sem á íbúðina – ég veit bara að hann er stór og mikill svartur plötusnúður sem vill fá greitt í seðlum.

Þetta er allt saman frekar skuggalegt...

Engin ummæli: